Fara í efni
Fréttir

Safnað fyrir Geirdísi: Missti heimilið í eldsvoða

Geirdís ásamt hundinum Tinnu. Heimili hennar með öllum hennar eigum eyðilagðist í eldsvoða fyrir skömmu. Geirdís hefur tvisvar áður misst heimili sitt í bruna. Sumarið 1978 kviknaði í heimili fjölskyldunnar á Siglufirði og dó þá faðir Geirdísar í eldsvoðanum. Veturinn 1990 missti Geirdís einnig heim­ili sitt á Ak­ur­eyri þegar kviknaði í íbúð á neðri hæðinni. Myndir: Facebooksíða Geirdísar

Nú stendur yfir söfnun fyrir Geirdísi Hönnu Kristjánsdóttur, sem missti heimili sitt í eldsvoða aðfaranótt 8. janúar í hjólahýsabyggðinni við Sævarhöfða í Reykjavík. Tvær konur á Akureyri hrintu söfnunni af stað en Geirdís er mörgum Akureyringum að góðu kunn enda bjó hún þar í rúmlega 30 ár áður.

„Geirdís er bara ein af þeim manneskjum sem hafa verið óheppnar í lífinu. Mig langaði til þess að leggja mitt af mörkum til þess að hjálpa henni og peningarnir sem safnast í þessari söfnun fara upp í nýtt hjólhýsi handa henni. Hún var með hjólhýsið sitt tryggt og fær væntanlega eitthvað út úr því, þannig að peningarnir eru hugsaðir fyrir það sem upp á vantar“, segir Inga Vala Birgisdóttir sem stendur á bak við söfnunina ásamt annarri sameiginlegri vinkonu þeirra Geirdísar eins og DV greindi frá„Nú þegar hafa safnast 360.250 krónur en það væri gaman að fara upp í 500 þúsund,” segir Inga Vala og ítrekar að Geirdís sé áreiðanleg manneskja og ekki í neinni óreglu.

Geirdís hefur margvíslega reynslu úr atvinnulífinu á Akureyri. Þá hefur hún verið á framboðslista Sósíalistaflokksins. Mynd: Facebooksíða Geirdísar

Hefur unnið margvísleg störf á Akureyri 

Geirdís er fædd og uppalin á Siglufirði en flutti til Akureyrar þegar hún var 14 ára. Hún gekk í Oddeyrarskóla, fór svo í Gagnfræðaskólann og síðan lá leiðin í VMA. Geirdís hefur unnið ýmis störf um ævina, aðallega tengt þjónustu og afgreiðslu en síðan 2008 hefur hún verið öryrki. Hún vann lengi vel í Nætursölunni á Akureyri og var um tíma framkvæmdastjóri þar. Þá vann hún á Teríunni og bæði í uppvaski og morgunverðinum á Hótel Kea, á frystihúsinu, við stórgripaslátrun hjá Norðlenska, í rækju- og ígulkeravinnslu, við ræstingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, við pitsabakstur og útkeyrslu svo fátt eitt sé nefnt. Þá rak hún um tíma fyritækið Videóborgina með fyrrverandi sambýlismanni sínum. Margir Akureyringar kannast því örugglega vel við andlit hennar.

Geirdís er bara ein af þeim manneskjum sem hafa verið óheppnar í lífinu. Mig langaði til þess að leggja mitt af mörkum til þess að hjálpa henni og peningarnir sem safnast í þessari söfnun fara upp í nýtt hjólhýsi handa henni.

Kýs búsetu í hjólhýsi sem öryrki

Geirdís á þrjá syni og eru þeir allir búsettir fyrir norðan, tveir á Akureyri og einn á Húsavík. Sjálf flutti hún til Reykjavíkur árið 2018 og lærði þar bókarann, en ein megin ástæðan fyrir því að hún flutti suður var sú að Keiluhöllin á Akureyri var rifin og þá gat hún hvergi æft sína íþrótt. Í Reykjavík hefur Geirdís verið mjög öflug í allskonar félagsstarfi. Hún er í dag formaður keiludeildar ÍR, sem og formaður kjarahóps ÖBÍ og formaður Samtaka hjólabúa. Þá hefur hún starfað með Pepp - samtökum fólks í fátækt og Sósíalistaflokknum og verið í framboði fyrir tvær alþingiskosningar og einar borgarstjórnarkosningar.

Frá 2019 hefur Geirdís búið í hjólhýsi, fyrst í Laugardalnum en síðan í hjólhýsabyggðinni við Sævarhöfða. Þar sem öryrkjar hafa ekki mikið á milli handanna segist hún kjósa sér þennan mínimalíska lífstíl. Eins og áður segir missti Geirdís allt sitt þegar heimili hennar skemmdist af völdum eldsvoða á hjólhýsasvæðinu við Sævarhöfða, en þetta er í þriðja sinn sem Geirdís missir heimili sitt í eldi. Árið 1978, þegar Geirdís var fjögurra ára, kviknaði í heimili fjölskyldunnar á Siglufirði og faðir hennar lést í eldsvoðanum. Þá kviknaði einnig í heimili Geirdísar á Akureyri árið 1990 þegar eldur kom upp í íbúð fyrir neðan hana.

Fjögur ferðahýsi urðu fyrir tjóni í eldsvoðanum á Sævarhöfða. Heimili Geirdísar var eitt þeirra. Eldsupptök eru enn ókunn. Geirdís er nú heimilislaus en flakkar á milli vina og vandamanna á höfuðborgarsvæðinu. Peningarnir sem safnast í söfnunni verða notaðir upp í nýtt hjólhýsi. 

Vill styrkja Pólverjann sem missti allt sitt

Geirdís var í viðtali í þættinum Rauða borðið á útvarpsstöðinni Samstöðinni í vikunni en þar sagðist hún vera að bíða eftir niðurstöðu síns tryggingafélags varðandi bætur vegna hjólhýssins. Þá sagði hún jafnframt að ef það safnaðist það há upphæð að eitthvað stæði út af eftir að hún væri búin að kaupa sér nýtt hjólhýsi myndi hún vilja láta þá fjárhæð renna til pólska mannsins sem missti allt sitt í brunanum, en fjögur hýsi urðu fyrir tjóni í eldsvoðanum.

Þeir sem vilja styrkja Geirdísi geta lagt söfnunni lið með því að leggja inn á reikninginn hér að neðan sem er á nafni Ingu Völu:

Reikningur: 2200 – 26 – 115511
Kennitala: 080370-4159