Fara í efni
Fréttir

Saffran opnar á Norðurtorgi í maí

Tölvugerð mynd sem hvernig verður umhorfs á veitingastaðnum. Mynd: Saffran

Veitingastaðurinn Saffran verður opnaður á Norðurtorgi á Akureyri í maí. Saffran er einkum þekktur fyrir kjúklingarétti en þar eru m.a. pítsur einnig á boðstólum.

Tveir Saffran staðir eru á höfuðborgarsvæðinu, í Fákafeni í Reykjavík og við Dalveg í Kópavogi, og Bjarni Gunnarsson framkvæmdastjóri Saffran, segir að það hafi lengi verið í skoðun að opna veitingastað á Akureyri. „Þegar okkur bauðst að opna á Norðurtorgi þá ákváðum við að slá til. Það hefur verið mikil uppbygging á þessu svæði og við teljum að Saffran verði frábær viðbót við kjarnann,“ segir Bjarni.

„Við vitum að Akureyringar eru með mikið og gott íþróttastarf og við hjá Saffran leggjum mikla áherslu á hollan og næringarríkan mat sem stendur með fólki í amstri dagsins. Við erum því mjög spennt að geta aukið framboð og fjölbreytni á heilsusamlegum mat fyrir fólk á Norðurlandi.“

Veitingastaðurinn Saffran verður í byggingunni sem risin er vestast á lóð Norðurtorgs. Mynd: Saffran

LifeTrack

„Við erum afar spennt að fá Saffran á Norðurtorgið,“ segir Ari Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Klettási, fasteignafélaginu sem byggði upp Norðurtorg. „Það eykur þjónustuna að fá góðan veitingastað á svæðið og við teljum að þetta muni vekja mikla lukku.“

Þess má til gamans geta að Saffran er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi með LifeTrack vottun, skv. upplýsingum frá fyrirtækinu. LifeTrack er nýtt íslenskt heilsuapp sem aðstoðar fólk við alla grunnþætti heilsu. Ákveðin heilsubylting sem hjónin og Akureyringarnir Ingi Torfi Sverrisson og Linda Rakel Jónsdóttir stofnuðu.

„Saffran leiðir veginn með hollum og næringarríkum valkostum sem styðja við heilbriðgan lífsstíl og við erum einstaklega spennt að fá Saffran hingað til okkar á Akureyri,“ segir Ingi Torfi.

Akureyri.net fjallaði ítarlega um LifeTrack í nóvember eins og sjá má hér:

LifeTrack – Nýtt norðlenskt heilsuapp

Vilja auka heilsulæsi með nýju smáforriti

Mynd: Saffran