Fara í efni
Íþróttir

SA Víkingar með enn einn sigurinn

Andri Már Mikaelsson fyrirliði og samherjar hans í SA Víkingum eru lang efstir á Íslandsmótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

SA Víkingar unnu lið Fjölnis á Íslandsmótinu í íshokkí karla, Hertz-deildinni, í gær. Akureyringar eru langefstir í deildinni með 49 stig, en lið Skautafélags Reykjavíkur kemur næst með 30 stig. Fjölnir hefur 26 stig og því ekki ljóst enn hvoru Reykjavíkurliðinu SA Víkingar mæta í úrslitarimmunni sem hefst upp úr miðjum mars.

SA Víkingar hófu leikinn í gær af krafti og voru komnir með þriggja marka forystu í fyrsta leikhluta. Fjölnismenn minnkuðu  muninn í öðrum leikhluta, en norðanmenn sigldu sigrinum í höfn með tveimur mörkum í lokaþriðjungnum. 

Fjölnir - SA 2-5 (0-3, 1-0, 1-2)
Leikskýrslan (ihi.is)

  • 0-1 Jóhann Már Leifsson (03:24). Stoðsending: Gunnar Arason.
  • 0-2 Uni Steinn Blöndal Sigurðarson (14:10). Stoðsending: Andri Már Mikaelsson, Gunnar Arason.
  • 0-3 Róbert Hafberg (19:52). Stoðsending: Baltasar Hjálmarsson, Unnar Hafberg Rúnarsson. 
    - - -
  • 1-3 Martin Simanek (36:54). Stoðsending: Róbert Pálsson, Sölvi Egilsson.
    - - -
  • 1-4 Unnar Hafberg Rúnarsson (49:02). Stoðsending: Baltasar Hjálmarsson.
  • 2-4 Andri Helgason (51:44). Stoðsending: Róbert Pálsson, Viggó Hlynsson.
  • 2-5 Birkir Einisson (58:56). 

Róbert Steingrímsson varði 32 skot í marki SA, eða rúm 94% þeirra skota sem á markið komu. Þórir Aspar varði 36 skot í marki heimamanna í Fjölni, eða tæp 88%. Þegar skammt var eftir af leiknum fengu tveir leikmenn Fjölnis 20 mínútna refsingu eftir orðaskipti við dómarana. Refsimínútur Fjölnis voru því samtals 84, en SA Víkingar máttu dúsa í refsiboxinu í 24 mínútur samanlagt.