Fara í efni
Mannlíf

Risakýrin Edda á góðu skriði

Beato Stormo og Edda á hlaðinu heima á Kristnesi. Ljósmynd: Arna Valsdóttir

Risakýrin Edda er verðandi sameiningartákn Eyjafjarðarsveitar. Ferðamálafélag Eyjafjarðar réði listakonuna Beate Stormo, Evrópumeistara og margfaldan Íslandsmeistara í eldsmíði til að hanna og smíða kúna. Hrundið var á stað söfnun fyrir listaverkinu og var markmiðið að safna fimm milljónum. Því markmiði hefur nú verið náð!

Kýrin fullgerð næsta vor

Í samtali við Akureyri.net sagði Beate að fyrsti smíðadagur kýrinnar hafi verið 1. júní 2021 að undangengnum 8 mánuðum við hönnun og teikningu. Beate tilkynnti jafnframt að eftir að hafa fundað með sjálfri sér hefði verið tekin ákvörðun um að kýrin yrði tilbúin 1. maí 2023.

Risakýrin Edda er járnskúlptúr, þrír metrar á hæð og fimm metrar á lengd. Á hliðum hennar er víravirkismynstur og borðar með textum úr ljóðum og sögum um kýr. Nafnið Edda varð fyrir valinu þar sem nafnið þýðir formóðir og er þannig vísað í Eddukvæðin; ættmóður íslenskra ritverka. „Á sama hátt er kýrin Edda frjósöm og allt um vefjandi móðir sem hefur fætt okkur í gegnum aldirnar,“ eins og segir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

Beate og Simon systursonur hennar sem hefur aðstoðað hefur við smíðina undanfarið. Ljósmynd: Anita Stormo Olsen

Hver einasti bútur sérsmíðaður

Það er gífurleg vinna að smíða járnskúlptúr sem þennan. Hver einasti bútur er sérsmíðaður. Beate segir það nauðsynlegt þar sem þetta er jú kýr en ekki kassi: „Ekkert hallamál og enginn vinkill“ segir hún og bætir við: „Þetta kemur allt með æfingunni því ég er vissulega að gera eitthvað sem ég kann ekki og miklu stærra en ég hef nokkru sinni gert.“

Beate þarf að nota vinnupall vegna hæðar kýrinnar og segir að það geti orðið mikið trimm þegar hún er að vinna ofarlega á henni: Trimm upp, máta, trimm niður, hita, beygja, aftur upp, máta og svo framvegis.

Mikil hvatning þegar fleiri vinna saman

Vegna stærðar og þyngdar sumra bútanna getur Beate ekki unnið ein. Hún hefur fengið gott fólk til liðs við sig. Til að mynda voru tveir eldsmiðir frá Svíþjóð og Sviss að vinna með henni allan apríl og einnig hann Björn J. Sighvatz frá Sauðárkróki. Beate segir það mikla hvatningu fyrir sig að hafa fleiri með. Þá sé hægt að velta upp hlutunum upphátt í stað þess að hún sé bara ein að hugsa.

Nú í júní hefur systursonur Beate frá Noregi smíðað mikið með henni en hann er húsasmiður. Þau vinna vel saman og hann á auðvelt með að setja sig inn í hvernig listakonan sér þetta fyrir sér, sem er dýrmætt því „listaverkin eru inn í höfðinu á þeim sem skapar þau.“

Verklokum verður fagnað

Framtíðarstaður risakýrinnar Eddu hefur ekki verið endanlega ákveðinn en það er líklegt að hún muni standa innarlega í Eyjafjarðarsveit. það verður Ferðamálafélagið sem mun finna henni endanlega staðsetningu.

Að lokum er Beate spurð hvort haldið verði upp á verklok. Hún svara að það verði örugglega mikil opnunarhátíð: „Þessu verður fagnað grimmt!“

Beate Stormo við járnskúlptúrinn glæsilega, kýrina Eddu. Ljósmynd: Anita Stormo Olsen