Fara í efni
Mannlíf

Rifrildisþáttur varð að bridsþætti!

Björn Þorláksson á sínum heimavelli. Ljósmyndir: Pétur Fjeldsted.

Þættirnir Bridge fyrir alla á sjónvarpsstöðinni Hringbraut hafa vakið verðskuldaða athygli undanfarið. Mývetningurinn Björn Þorláksson, fjölmiðlamaður og fyrrum íbúi á Akureyri í aldarfjórðung, heldur þar um stjórnartauma.

„Tilurð þessara þátta er svolítið skemmtileg,“ segir Björn við Akureyri.net

„Við Sigmundur Ernir vorum að ræða hvort ég ætti að stjórna einhverjum svona klassískum rifrildisþætti í sjónvarpi, pólitískum debatt. Þá segir ritstjórinn og ljóðskáldið ljúfa: „Bjössi! Af hverju gerirðu ekki bridsþátt?“ Þetta var snjallt hjá Simma því það er nóg af rifrildisþáttum en aldrei fyrr hafði verið gerð sjónvarpsþáttaröð fyrir almenning um brids hér á landi,“ segir Björn.

Þættirnir Bridge fyrir alla hafa farið sigurför á heimilum landsmanna, segir Björn. Hin magnaða hugaríþrótt sem Íslendingar kunna öðrum þjóðum betur hefur vakið athygli langt umfram þá sem spila brids samkvæmt áhorfstölum.

„Já, þetta er búið að vera ótrúlega gaman og Akureyri á reyndar nokkurn þátt í þessu verkefni, beint eða óbeint,“ segir hann.

Með því segist Björn eiga við að hann flutti norður frá Reykjavík árið 1996, þá miðlungsspilari að sögn. „Minn harðasti skóli var þegar ég fór að spila í Bridgefélagi Akureyrar. Norðanmenn hreinlega hóprassskelltu mig í spilinu, en smám saman lærði ég af þeim og þá kom sennilega sjálfstraustið sem þarf til að gera svona þætti,“ segir Bjössi Þorláks eins og hann er jafnan kallaður og hlær.

Ekki var Björn fyrr fluttur suður á ný fyrir nokkrum misserum en hann vann Íslandsmeistaratitil í tvímenningi í bridge með Akureyringnum Páli Þórssyni sem einnig er þekktur fyrir skákhæfileika.

Tryggvi Ingason sálfræðingur sem um skeið bjó á Akureyri og Gabríel Gíslason koma meðal margra annarra við sögu. 

„Akureyri og nágrenni hefur alið af sér hálft landsliðið í brids,“ segir Björn „Við erum að tala um Soffíu okkar heitna Guðmundsdóttur, Sigurbjörn Haraldsson, Magnús Magnússon, Anton Haraldsson, Pétur Guðjónsson, Guðmund Halldórsson, Reyni Helgason, Frímann Stefánsson, Skúla Skúlason, Stefán Stefánsson ... ég gæti þulið endalaust upp.“

Bridge fyrir alla þáttaröðin er ekki sniðin að þörfum bestu spilara landsins heldur eru þættirnir fremur hugsaðir sem innlit í áhugaverðan menningarkima að sögn Björns, þar sem félagslífið og glaðværðin er höfð að leiðarljósi svo allur almenningur njóti.

„Við fjöllum um mesta íþróttaafrek Íslandssögunnar, heimsmeistaratitilinn í Yokohama, það er í eina skipti sem Ísland hefur orðið heimsmeistari í hópíþrótt,“ segir Björn. „En fyrst og fremst er um að ræða efni sem vonast er til að áhorfendum finnist áhugavert, burtséð frá því hvort fólk kann brids eða ekki.“

Hann heldur áfram: „Hins vegar vil ég halda því fram að ef einhvern langar að læra þetta magnaða spil, sem gengur ekki út á heppni heldur rökhugsun, minni, talningu – en líka sálfræði og sköpun – þá er ekki eftir neinu að bíða. Þetta er svo skemmtilegt.“

Fjöldi fólks lagði Bridge fyrir alla lið en Björn nefnir sérstaklega ómetanlegt framlag framkvæmdastjóra Bridgesambands Íslands, Matthíasar Imsland og Péturs Fjeldsted pródúsents.

„Eftir að ljóst varð að þáttaröðin yrði ein sú vinsælasta sem Hringbraut hefur framleitt þá eru góðar líkur á fleiri þáttaröðum,“ segir Björn sem sinnir sjónvarpsmennsku daglega á Hringbraut auk þess að vera blaðamaður á Fréttablaðinu.

Fjöldi fólks aðstoðaði við spilamennsku og fleira í þættinum. Meðal annars landsliðsspilararnir Guðmundur Snorrason, Helga Helena Sturlaugsdóttir prestur og Sigþrúður Blöndal viðskiptafræðingur.