Fara í efni
Mannlíf

Reitur við Lundargötu hefur tekið stakkaskiptum

Gunnar Árnason hefur lagt hjarta og sál í að gera upp gömul hús á Oddeyri. Hann er múrari og eigandi fyrirtækisins Verkvík-Sandtak ehf. Í fyrstu ætlaði Gunnar bara að kaupa sér íbúð á Akureyri til að þurfa ekki alltaf að gista hjá félögunum en það hefur undið upp á sig því hann er búinn að gera upp fjögur hús á Oddeyrinni og er nánast fluttur hingað norður.

Í byrjun árs 2021 keypti Gunnar Lundargötu 6 og byrjaði að gera upp. Æskufélagi hans úr Kópavoginum, Bjarni Björnsson bifvélavirki, keypti Lundargötu 2 sem var búið að gera upp að utan að mestu en var orðið mjög lélegt að innan.

Akureyri.net heimsótti Gunnar í Lundargötuna og fékk góða skoðunarferð með leiðsögn; um reit sem hefur tekið algjörum stakkaskiptum í höndum þeirra félaga.

Gunnar Árnason hefur staðið að ótrúlegri uppbyggingu í Lundargötu á Eyrinni.

_ _ _

GRÁNUFÉLAGSGATA 19

Fyrsta húsið, Gránufélagsgötu 19, keypti Gunnar Árnason árið 2016 og segir það mögulega hafa verið ljótasta húsið við hringveginn! Gunnar bætir við: „Ég vissi að það væri hægt að gera það fínt og byrjaði að dunda eitthvað. Gerði miklu meira en ég ætlaði og húsið var algjörlega endurbyggt. Ætlaði að búa á efri hæðinni en vissi ekki hvað ég ætlaði að gera við neðri hæðina,“ segir hann. Húsið var nánast algerlega endurbyggt frá grunni og er sem nýtt í dag.

Myndin að ofan er af húsinu í dag - hér að neðan má sjá nokkrar sem teknar voru á meðan endurbyggingunni stóð.

Hér eru svo nokkrar myndir innan úr Gránufélagsgötu 19.

_ _ _

LUNDARGATA 11

Meðan Gunnar var enn að gera upp Gránufélagsgötu 19 keypti hann næsta hús austan við, Lundargötu 11. Hann flutti þangað inn meðan á endurbyggingu Gránufélagsgötu 19 stóð. Lundargata 11 hafði verið gerð upp fyrir aldamót að stórum hluta en komið var tími á talsvert viðhald og endurbætur.

Lundargata 11 til hægri, Gránufélagsgata 19 vinstra megin.

_ _ _

LÁRUSARHÚS, EIÐSVALLAGATA 18 (Heiðreksbúð – Samfylkingarhúsið)

Gunnar keypti Lárusarhús, sem stendur á horni Eiðsvallagötu og Norðurgötu af Samfylkingunni þegar endurbyggingu Gánufélagsgötu 19 var að ljúka. Húsið var þá í mjög döpru ásigkomulagi þó svo það hafi ekki verið eins slæmt og fyrsta húsið. Lárusarhús var allt gert upp að utan og ráðist var í miklar breytingar og endurbætur að innan. Einnig var lóðinni, sem var í mikilli órækt, mokað í burtu, jarvegsskipt og hellulagt með hitalögn.

Lárusarhús, Eiðsvallagata 18 í dag.

_ _ _

LUNDARGATA 6 (byggt 1897)

Lundargata 6 var talsvert endurnýjuð seint á síðust öld og var húsið þá hýft af sökklinum, sem var mjög lélegur, og nýr kjallari steyptur undir það. Síðan þá hafði lítið verið gert og var húsið töluvert farið að láta á sjá bæði að innan og utan. Gunnar byrjaði að innan á að endurgera rishæð og baðherbergi og lagt upp úr að halda gömlum stíl. Þegar voraði var svo farið í að lagfæra og mála að utan. 

„Ég fór ekki í heildarframkvæmdir inni núna“, segir Gunnar, „vildi ekki snúa öllu við hjá mér meðan allt var á hvolfi í húsinu hans Bjarna félaga á Lundargötu 2.

Planið er svo að rífa allt innan úr neðri hæðinni, opna hana meira og gera stiga niður í kjallara þannig að það verður öllu snúið við hér. Eins og staðan er núna er ekki innangengt í kjallarann; þar sem er séríbúð.“

Vantaði frekar bar en hjónaherbergi

Á efri hæðinni var stofa og hjónaherbergi hússins en Gunnar taldi sig ekki þurfa neitt svoleiðis og segir: „Ég er ekki hjón svo ég þurfti ekkert á því að halda – ég þurfti frekar bar! Það er oft gestkvæmt hérna“, útskýrir Gunnar. „Bæði ég og Bjarni eigum mikið tengslanet fyrir sunnan svo það er oft mikið af gestum hérna, sérstaklega á sumrin. Við drögum töluvert af fólki að frá suðurlandinu. Bjarni er að detta í sömu gildru og ég, hann vill alltaf koma norður þegar hann getur slakað á“, segir Gunnar og hlær.

Á efri hæðinni eru falleg húsgögn í retro stíl og skemmtileg hue-lýsing sem undirstrikar barstemninguna. Þar stendur líka stór og myndarlegur skápur með plötuspilara og innbyggðu stereo útvarpi. Það var keypt til Akureyrar þegar faðir Gunnars, Árni Sigurðsson, fyrrv. flugstjóri, fermdist en hann er 73 ára í dag. Árni ólst upp á Eyrinni en flutti síðan upp á Brekku. Gunnar rifjar upp að fólk hafi komið í heimsókn til afa hans og ömmu gagngert til að hlusta á stereo. Útvarpið er nú bilað en Gunnar ætlar að skrúfa það í sundur og setja nútíma innvols með bluetooth inn í það.

_ _ _

LUNDARGATA 2 (byggt 1879)

„Félagi minn, Bjarni Björnsson, var búinn að spyrja mig nokkum sinnum hvort ég vissi ekki um eitthvað hús hérna fyrir norðan sem hann gæti keypt“, segir Gunnar.

Þegar ég frétti að Lundargata 2 væri hugsanlega til sölu setti ég mig í samband við eigandann og kom síðan honum og Bjarna félaga saman. Það tók ekki langan tíma að handsala samkomulag um kaupin. Húsið, sem upphaflega er byggt 1879, hafði verið gert smekklega upp að utan en var orðið ansi lúið að innan. Gunnar bætir við: „Svo sagði ég Bjarna bara að þetta yrði ekkert mál og að hann yrði bara að gera eins og ég segði, þá færi allt vel að lokum.

Það var allt hreinsað út úr þessu húsi - líka gólfin milli hæða, og allt endurbyggt.“ Þarna voru tveir strompar, timburgólf, og skriðkjallari með moldargólfi undir húsinu en búið var að taka það í gegn að utan. Húsið stækkaði um 40 cm. norður suður veggja á milli vegna þessa að það var svo oft búið að setja nýtt og nýtt lag utan á veggina.

Þegar búið var að hreinsa allt innan úr Lundargötu 2 var húsið fyllt af sandi sem þeir félagar dreifðu, þjöppuðu og einangruðu. Þá bökkuðu steypubílar að og platan var steypt með hitalögn. Búið er að endursmíða allt inni í húsinu og mikið lagt upp úr að halda gömlum stíl.

„Til gamans má segja frá að húsið stóð upphaflega við Strandgötuna en var borið hingað á höndum“, segir Gunnar.

_ _ _

LUNDARGATA 4 – HÚSIÐ SEM BRANN

Lundargata 4 brann í janúar 1965. Húsið var aldrei endurbyggt heldur var gert plan þar til að auðvelda aðgengi að Lundargötu 4b og 6b. Á þeim tíma var töluverður rekstur í bakhúsunum og aðgengið batnaði mikið eftir að planið kom.

_ _ _

BAKHÚSIN LUNDARGATA 4B OG LUNDARGATA 6B

„Svo keypti ég Lundargötu 4b og síðan að lokum Lundargötu 6b, af sitt hvorum aðilanum“, segir Gunnar. Það tók talsverðan tíma og fortölur. En nú er allur reiturinn í okkar höndum.“

Bakhúsin eru enn óuppgerð en það verður næsti áfangi, árið 2023. Þau verða einnig gerð upp í gömlum stíl. Það þarf algjörlega að endurbyggja húsin og Gunnar ætlar að gera eitthvað skemmtilegt þar, segir hann, t.d. útbúa gistiaðstöðu fyrir alla gestina sem hann þarf að koma fyrir. Auk þess á Gunnar gamla bíla og mótorhjól og segist ekki eiga í vandræðum með að nýta svona skemmur. Þessi gömlu hús sem hafa hýst alls kyns starfsemi í gegnum árin, til að mynda járnsmiðju, húsgagnabólstrun, dráttavélaverkstæði, trésmíðaverkstæði o.fl., fá fljótlega nýtt hlutverk svo sagan geti haldið áfram.

1. apríl 2021

_ _ _

GARÐURINN OG PLANIÐ

Bakgarðurinn og planið var í mikilli óreiðu, „endalaus órækt, mold og rusl“, eins og Gunnar orðar það. „Hér var einu sinni gömul járnsmiðja og það var járnarusl út um allt þegar við fórum að moka. Hér var líka frumskógur af kerfli svo það var ekki hægt að ganga um garðinn.“

„Við lögðum hita, hellulögðum og steyptum og þetta vatt upp á sig“, segir Gunnar og útskýrir: „Bak við, og milli húsanna var jarðvegsskipt og einnig í plani. Allar lagnir endurnýjaðar í jörð og gengið frá nýjum lögnum inn í Lundargötu 6b og 4b. Við lögðum alls kyns lagnir hérna, niðurföll og ídráttarrör yfir í hin húsin, endurnýjuðum allt og Norðurorka kom og endurnýjaði lagnirnar inn. Maður fór alla leið – það var ekkert skilið eftir.“

Á lóðunum eru hellur, hleðsluveggir, pottar, gufubað og fleira. „Þetta var átak og fólk áttaði sig ekki á þessu“, segir Gunnar. „Við vorum alltaf að brasa hérna og eins við værum bara að hræra í drullunni, þangað til allt í einu fór eitthvað að gerast. Við mokuðum allt niður á fast svo þetta kemur ekki til með að fara af stað“, bætir hann við. Þeir röðuðu steinum í steypuna og bjuggu þannig til náttúrulega stétt – „endalaust föndur.“

14. apríl 2022

16. apríl 2022

8. maí 2022

20. maí 2022

21. maí 2022

22. maí 2022

5. júní 2022

6. júní 2022

11. júní 2022

12. júní 2022