Mannlíf
Reggie Watts mætir með sumarið í farteskinu
04.04.2024 kl. 18:00
Bandaríski grínistinn og tónlistarmaðurinn Reggie Watts verður með uppistandstónleika í Samkomuhúsinu á Akureyri sumardaginn fyrsta, 25. apríl.
Margir kannast án efa við Watts af sjónvarpsskjánum; hann var hljómsveitarstjóri í Late Late Show, skemmtiþætti James Corden sem sýndur var á CBS stöðinni.
Þetta er í annað sinn sem Reggie Watts kemur fram á Íslandi; listamaðurinn var hér árið 2010 áður en honum skaut upp á stjörnuhimininn. Áður en Watts starfaði í Late Late Show var hann með grínþættina Comedy Bang! Bang!
Í tilkynningu er nefnt að bandaríska dagblaðið New York Times hafi sagt uppistand Watts, Spatial á Netflix, vera „rússíbana af vitleysu og veruleikaflótta“ og blaðið hafi sagt Reggie vera „áhrifamesta absúrdistann í grínheiminum.“
Reykjavík - Akureyri - Flateyri
Kvöldið í Samkomuhúsinu verður blanda af uppistandi, beat boxi, tónleikum og spuna þar sem nær allt er búið til á staðnum, segir í tilkynningunni. „Skemmtanirnar á Íslandi eru lokahnykkur á Evrópuferðalagi hans, en hann hefur komið fram í München, Stokkhólmi, Berlin, Osló, Kaupmannahöfn og Amsterdam. Á Íslandi skemmtir hann í Reykjavík, á Akureyri og Flateyri, auk þess að kenna í Lýðháskólanum á Flateyri ásamt Margréti Maack, vinkonu sinni til margra ára.“
Haft er eftir Björgvini Franz Gíslasyni að hann mæli eindregið með sýningu Watts. „Ég vissi ekki hvert ég ætlaði, hafði aldrei séð svona absúrd tónlistargrín áður en varð alveg heillaður! Hef fylgst með honum síðan rísa upp í hæstu hæðir.
Meðal þess sem Watts hefur samið er þematónlistin fyrir grínþættina Key and Peele og fyrir uppistand bæði John Mulaney og Jim Gaffigan. „Reggie sló einnig í gegn með Ted-Talkinu sínu https://www.youtube.com/watch?v=BdHK_r9RXTc sem 10 milljónir manns hafa horft á.“