Ragnar Hólm fékk verðlaun í Córdoba

Akureyringurinn Ragnar Hólm Ragnarsson hlaut í gærkvöldi sérstaka viðurkenningu fyrir vatnslitamynd sína af Staðarbyggðarfjalli á vatnslitahátíðinni í Córdoba í Andalúsíu á Spáni sem lauk í dag.
Ragnar segist því miður ekki hafa verið viðstaddur þegar nafn hans var kallað upp yfir um 200 manna sal þar suður frá. „Ég var að sjálfsögðu upp á hótelherbergi að horfa á beina útsendingu á YouTube frá þriðja úrslitaleiknum í einvígi SA og Fjölnis í meistaraflokki kvenna um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí! Því miður töpuðu stelpurnar okkar en við klárum þetta bara í næstu tveimur leikjum,“ sagði Ragnar þegar Akureyri.net sló á þráðinn til hans fyrr í dag þar sem hann var á leiðinni með lestinni til Madrídar. Dóttir Ragnars, Aðalheiður Anna, er í liði Skautafélags Akureyrar.
Ragnar Hólm á hótelinu í Córdoba í morgun með pakka af vatnslitavörum sem hann hlaut í viðurkenningarskyni fyrir myndina sína.
„Þegar ég fékk skilaboð um viðurkenninguna hélt ég fyrst að þetta væri bara grín en svo reyndist ekki vera. Ég held að það hafi verið um 220 vatnslitamyndir á sýningunni og við vorum víst 10 sem fengum svona viðurkenningu fyrir myndirnar okkar. Þetta er auðvitað mikill heiður og hvatning fyrir mig. Ég er bara auðmjúkur og þakklátur,“ sagði Ragnar glaður í bragði, en bætti við í snatri: „Aðalatriðið er hins vegar næsti leikur SA gegn Fjölni núna á þriðjudag í Skautahöll Akureyrar. Þá mætum við öll til að öskra Áfram SA! af öllum lífs og sálar kröftum. Við látum ekki deigan síga,“ sagði Ragnar Hólm, að minnsta kosti hálfnaður heim í huganum og farinn að hlakka til leiksins á þriðjudaginn.
Ragnar hlaut pakka með ýmsum vatnslitavörum í viðurkenningarskyni, m.a. töluvert af vatnslitapappír. Hann var auðvitað hæstánægður með það en sá galli er á gjöf Njarðar að góður vatnslitapappír er engin léttavara og pakkinn býsna fyrirferðarmikill. „Ég gat varla loftað töskunni upp í leigubílinn! Þetta er líka dálítið stórt, ég þarf kannski að kaupa mér aðra ferðatösku til að koma góssinu heim... “
Heimasíða Ragnars: ragnarholm.art