Fara í efni
Menning

Ræflar heimsveldisins á erlendan markað

Hinrik Þór Einarsson (trommur), Stefán Gunnarsson (bassi), Magni Ásgeirsson (söngur), Hörður Halldórsson (gítar) og Sveinn Ríkharður Jóelsson (gítar).

Norðlenska metalbandið Punks of the Empire – sem einn vina bandsins þýddi sem Ræfla heimsveldisins – hefur gert samning við erlent útgáfufyrirtæki, Sliptrick Records, um útgáfu á níu laga plötu á geisladisk og vínyl, kynningu og fleira spennandi í framhaldinu. Geisladiskurinn kemur út erlendis í dag og vínyllinn væntanlegur, myndband á föstudag og vonandi tónleikar áður en langt um líður.

Það sem þeir vildu var að gefa út þungarokk á vínyl. Sú ósk mun rætast á næstunni, en þeir fengu líka meira með þessum samningi við Sliptrick Records, útgáfu plötunnar, vænlegan kynningarpakka og aðgang að kynningarfyrirtækjum og tónleikatengiliðum. Allt ferlið við plötuna, frá hugmyndavinnu yfir í útgáfu og markaðsstarf er jafnframt orðið að löngu og yfirgripsmiklu skólaverkefni hjá Herði, sem stundar nám við Tónlistarskólann á Akureyri.

Byrjuðu sér til gamans

Það sem átti að vera eitt eða tvö lög til gamans þegar tónlistarmennirnir Hörður Halldórsson og Magni Ásgeirsson stofnuðu Punks of the Empire árið 2020 hefur síðan þá orðið að smáskífu og svo framleiðslu-, dreifingar- og sölusamningi um fyrstu stóru plötu bandsins, Gehenna, sem kom út á streymisveitum fyrr á árinu og á geisladisk hjá Sliptrick Records í dag – smellið á myndina af plötuumslaginu til að fara inn á sölusíðu útgáfunnar. 


„Við höfum ekkert endilega verið í felum með þetta band,“ segir Hörður þegar Akureyri.net falast eftir upplýsingum um bandið og sögu þess. Upphafið að bandinu var bara hugmynd um að skemmta sér sem síðan hefur undið upp á sig. „Hugmyndin var að semja þungarokk, en líka að skoða ólíka bakgrunna milli okkar og nýta þá í lögunum,“ segir Hörður.

Hann á að baki langan tónlistarferil í hljómsveitum eins og Skurk á Akureyri og Changer í Reykjavík. „Þar spilum við þreskjurokk og dauðamálm,“ segir Hörður og bætir við að Magna þurfi ekki að kynna fyrir lesendum. „Fyrir utan að vera duglegasti tónlistarmaður Íslands er hann líka skólastjóri og meðeigandi í Tónræktinni á Akureyri. En til að skerpa aðeins á minni þeirra sem hafa legið undir steini síðustu áratugina þá er Magni söngvari Á móti sól, hann er í Killer Queen og tekur þátt í ótalmörgum verkefnum allt árið um kring.“ Hörður nefnir sem dæmi að Magni hafi talið upp níu virk tónlistarverkefni sem hann vann að í viðtali í fyrra.

Fundu farsælan farveg

Hörður og Magni hófu samstarf í tónlistinni fyrir fjórum árum. „Fljótlega fundum við mjög farsælan farveg og 1. október 2021 gáfum við út einhleypuna Why We’re empty. Fljótlega upp úr því gáfum við út smáskífuna Facade, fjögurra laga útgáfu sem fékk fínustu viðtökur, en á henni nutum við liðsinnis trymbilsins Heiðars Brynjarssonar.“

Hörður og Guðmundur Ó. Pálmason, tónlistarmaður og ljósmyndari, sömdu textana við lögin fjögur. Eftir útgáfuna á Facade íhuguðu þeir aðeins að stofna band utan um verkefnið, en það varð þó ekki úr strax. Þeir áttu bara saman þessi fjögur lög og voru ekki tilbúnir að skuldbinda sig alveg strax þar sem þeir voru í nægum verkefnum og langaði frekar að vera áfram í hljóðveri og vinna meira í sköpun og þróa bandið áfram.

„Á árunum 2021 og 2022 söfnuðum við í riffbankann og seint á árinu 2022 vorum við tilbúnir með efni á heila plötu og hófum upptökur um veturinn.“ Tónlistin á plötuna Gehenna var tilbúin síðla árs 2023 og var gefin út á streymisveitum 10. febrúar á þessu ári. Viðtökurnar komu þeim á óvart.

Fram úr björtustu vonum

Það sem þeir vildu var að gefa út þungarokk á vínyl. Sú ósk mun rætast á næstunni, en þeir fengu líka meira með þessum samningi við Sliptrick Records, útgáfu plötunnar, vænlegan kynningarpakka og aðgang að kynningarfyrirtækjum og tónleikatengiliðum. Allt ferlið við plötuna, frá hugmyndavinnu yfir í útgáfu og markaðsstarf er jafnframt orðið að löngu og yfirgripsmiklu skólaverkefni hjá Herði, sem stundar nám við Tónlistarskólann á Akureyri.

„Viðtökurnar á Gehenna voru framar okkar björtustu vonum og platan fékk þónokkra spilun á streymisveitum og ágætis einkunn í blöðum og vefritum um allan heim, 7-8 af tíu,“ segir Hörður.

Gehenna var spiluð út um allan heim og víða mun meira en af Íslendingum. „Skemmtileg staðreynd um það er að þegar streymisrennslið var sem mest var Ísland í 70.-80. sæti yfir það hvaðan flestar spilanir fóru fram og átta af níu lögum á plötunni fóru inn á algorythmíska spilunarlista á Spotify sem segir okkur að fólk sem hlustaði hafi staldrað nógu lengi við á öllum lögum plötunnar til að gervigreindin tæki eftir henni,“ segir Hörður.

Þemaplata um sorg, fordóma og ofbeldi

Hörður segir Gehenna vera þemaplötu með níu lögum um einstakling sem hefur ekki þrek eða kraft til að eiga við sorgina og sogast inn í fordóma og ofbeldi þar til að hann hættir að gera greinarmun á ímyndun og raunveruleika. „Platan er nokkuð viðamikið verkefni og lögin endurspegla textana sem við Magni sömdum saman og það er svolítið ferðalag að hlusta á hana frá upphafi til enda, margir stílar koma fram og andrúmsloftið síbreytilegt,“ segir Hörður.

Hann segir gagnrýnendur sammála um að platan sé góð, en minnist oft á að erfitt sé að staðsetja stíl hljómsveitarinnar út frá hverju lagi fyrir sig. „Við erum minnst að hugsa um það enda er tónlist tónlist í okkar huga og á að endurspegla tilfinningar, sem geta verið margslungnar,“ segir Hörður.

Lentu inn á radar útgáfufyrirtækja

„Fljótlega eftir að við gáfum út plötuna fórum við að fá tölvupósta um samninga, en hófum viðræður í vor við ítalskt fyrirtæki, Sliptrick Records,“ segir Hörður um tilurð samningsins. Sliptrick Records er alþjóðlegt útgáfufyrirtæki, upphaflega frá Ítalíu, en höfuðstöðvar þess eru í Lettlandi og skrifstofur hér og þar.

„Við skrifuðum undir samning um framleiðslu og alþjóðlega dreifingu og sölu plötunni Gehenna á geisladiskum og vínyl. Eina sem við vildum var að gefa út þungarokk á vínyl, þannig að allt annað var góður bónus,“ segir Hörður. Óskin um vínylinn rættist og gott betur, ekki aðeins með útgáfu á geisladiski heldur fá þeir að auki allgóðan kynningarpakka að hans sögn og aðgang að kynningarfyrirtækjum og tónlistartengiliðum.

Plata Punks of the Empire, Gehenna, ásamt fleiri plötum sem komið hafa út hjá Sliptrick Records að undanförnu. 

„Fram undan er því þónokkur gleði í að sinna kynningu á bandinu og æfingum á tónlistinni. Við getum vonandi staðfest tónleikahald fljótlega,“ segir Hörður. Hann segir þá hlakka gríðarlega til að spila efnið sitt á tónleikum. Sköpunin heldur svo auðvitað áfram og þeir eru stöðugt að setja saman einhver stef og vinna úr hugmyndum.

Langt skólaverkefni

Hörður er í námi við Tónlistarskólann á Akureyri og hefur þar notið liðsinnis Hauks Pálmasonar, yfirleiðbeinanda síns og góðs vinar, við vinnslu plötunnar frá grunni. Haukur er deildarstjóri rytmískra og skapandi deilda við skólann, sér auk þess um hljóðver tónlistarskólans og kennir hóptíma í hljóðupptökutækni og einkatíma í hljóðlist, en það orð er notað yfir ýmis konar hljóðversvinnu.

„Þessi plata er búin að vera langt skólaverkefni allt frá hugmyndavinnu, upptökutækni, hljóðvinnslu og masteringu. Á seinni stigum höfum við Haukur verið að skoða algorythmapælingar á streymisveitum með tölfræðiupplýsingum af plötunni sem og kynningarstarf í nútíma tónlistarumhverfi,“ segir Hörður. Skólaverkefnið heldur áfram og á komandi vetri, sem er lokaárið hans í þessu námi, segir hann líklegast að þeir muni einbeita sér að eftirvinnu og áframhaldandi markmiðasetningu og markaðssetningu þeirra sem tónlistamanna og hljómsveitar.

„Ég mæli eindregið með þessu námi því það hefur gefið mér ótrúlega mikið,“ segir Hörður einnig um námið.

Myndband á YouTube á föstudaginn

Næsta skref er svo útgáfa á myndbandi við eitt laganna af Gehenna. Kristján Kristjánsson hjá Kraumar leikstýrði myndbandinu og klippti, en þeir Hörður fengu hugmynd að myndbandi við lagið Rage og fengu aðgang að yfirgefnu húsi þar sem þeir settu upp eldvélar og reyk, fengu Örnu Sif Þorgeirsdóttur og Þorstein Gíslason í lið með sér til að dansa og leika í myndbandinu. Guðrún Huld Gunnarsdóttir sá um danshönnun og leikstýrði dönsurum afar vel að sögn Harðar.

Myndbandið verður gefið út á YouTube næstkomandi föstudag, 9. ágúst. Í framhaldinu mun Sliptrick sjá um kynningu á því í tengslum við plötuútgáfuna.

Nýja myndbandið er væntanlegt á YouTube-rás Punks of the Empire á föstudaginn, en þar til að því kemur geta lesendur kynnst laginu og textanum sem nú þegar er að finna á YouTube-rásinni.

Akureyrsk framleiðsla

Platan var að mestu tekin upp á Akureyri. Hljóðvinnsla og mastering var unnin í Stúdíói TónAk. Ásamt þeim Herði og Magna spilar Stefán Gunnarsson á bassa í upptökunum. Audrey Freyja Clarke og Hlynur Örn Zophaníasson komu inn sem gestasöngvarar.

Inngangurinn að plötunni er ásláttarverk þar sem þeir fengu Hauk Pálmason, Valgarð Óla Ómarsson og Val Halldórsson til að taka upp trommurnar í Hömrum í Hofi.

Einnig kom Hörður Bragason (Apparat) að upptökum á laginu The Path sem var tekið upp á gamalt orgel í hans eigu síðan hann var í pönkrokkinu fyrir nokkru síðan. „Það var svolítil áskorun að taka það upp þar sem það var orðið afar úr sér gengið og þreytt, en það var hugmyndin að nota þann tón sem það gaf í lagið,“ segir Hörður Halldórsson, annar höfuðpaura og stofnenda hljómsveitarinnar Punks of the Empire.

Hörður Bragason nostrar við orgel sem hann á og er komið til ára sinna, en var notað við upptöku á laginu Path. Orgelið á sér líka eigin merkilegu sögu með Herði og hljómsveitinni Oxsmá og reyndar Júpíters einnig, en ljósashowið í orgelinu tengist notkun þess með þeirri síðarnefndu. 

Á myndinni hér að neðan er nostrað við orgelið, dálítið óvenjulegt sjónarhorn, en stúlkan á myndinni er dóttir Harðar, Steinunn, einnig þekkt sem Dj Flugvél og Geimskip.