Ráðstefnugestur er verðmætur ferðamaður
„Ráðstefnuferðamaður eyðir mun meiru heldur en venjulegur ferðamaður,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri MAk, Menningarfélags Akureyrar. „Samkvæmt greiningu KPMG á þessum markaði árið 2022 eyðir svo hvataferðamaður meiru heldur en bæði ráðstefnuferðamaður og almennur ferðamaður til samans. Virðiskeðjan er auk þess mikil og löng.“
„Fyrir 240 manna ráðstefnu, eru tekjurnar um það bil 80 milljónir,“ segir Kristín Sóley, sem vitnar enn í greiningu KPMG. „Sú upphæð er fyrir utan ferðalagið til og frá Íslandi.“ Það eru mikil tækifæri til þess að fá ráðstefnur og hvataferðir til Akureyrar, þar sem aðstaðan er svo sannarlega fyrir hendi, en í Hofi er allt til alls fyrir bæði stórar og litlar ráðstefnur. Menningarfélagið fór því í umfangsmikla vinnu ásamt Akureyrarbæ, til þess að þróa sameiginlegt verkefni, 'Ráðstefnubæinn Akureyri'.
Kristín Sóley, viðburðastjóri MAk. Mynd: Unnur Anna Árnadóttir
Heimasíða með öllum upplýsingum í lykilhlutverki
„Við höfum tvisvar sinnum fengið úthlutun úr Uppbyggingarsjóði SSNE, til þróunarvinnunnar,“ segir Kristín Sóley. „Úr þessari vinnu varð til upplýsingasíðan radstefna.is, heimasíða í kringum ráðstefnuhald í bænum, þar sem allt er til staðar, á aðgengilegan hátt.“ Að skipuleggja ráðstefnu, fundi, fyrirtækjaferð eða hvataferð er mikil vinna, sem Kristín Sóley þekkir mjög vel sjálf. „Á þessari síðu erum við með allt á einum stað, sem er draumastaða fyrir skipuleggjandann,“ segir hún. „Greinargott yfirlit yfir þá aðstöðu sem er í boði, upplýsingar um gistingu, samgöngur, veitingar og ýmislegt annað hagnýtt.“
Á ráðstefnusíðunni, sem er hluti af www.halloakureyri.is , er hægt að skoða þá sali sem eru í boði í Hofi, með helstu upplýsingum sem þarf að hafa í huga. Á myndinni, sem er skjáskot, er hluti þeirra.
„Skipuleggjendur geta verið allskonar,“ segir Kristín Sóley. „Það geta verið einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, sem eru einmitt einn af þeim hópum sem okkur langar að ná meira til. Það eru til dæmis alþjóðleg félagasamtök eins og Soroptimistar, Lions, Zonta, Kiwanis og fleiri sem eru hluti af alþjóðlegum hreyfingum og halda stærri ráðstefnur með reglulegu millibili. Það er gott dæmi um viðburði sem eiga einkar vel heima hér í Hofi.“
Ef fólk velur Hof sem vettvang fyrir ráðstefnu, þá er allt í göngufæri
„Eins og þessi greining sem ég nefndi áðan sýnir svart á hvítu, þá eru snjóboltaáhrifin af ráðstefnuhaldi mjög mikil,“ segir Kristín Sóley. „Þjónusta í bænum nýtur góðs af því að fá þessa gesti í heimsókn. Það er svo líka þetta, sem gestir okkar hafa nefnt, að Akureyri sé svolítið svona eins og útlönd, allavegana fyrir Íslendingum. Ef fólk velur Hof sem vettvang fyrir ráðstefnu, þá er allt í göngufæri. Fólk dreifist um og upplifir bæinn, og langar jafnvel að koma aftur seinna.“
Nálægðin er kostur á Akureyri
„Við höfum líka heyrt það frá ráðstefnugestum okkar, að nálægð menningarhússins við miðbæinn og gistingarmöguleika, skapi meiri nánd innan hópa sem koma hingað í ráðstefnu- og hvataferðir,“ segir Kristín Sóley. „Það er ekki verið að missa fólk út um allar trissur, sem skipuleggjendum finnst mjög eftirsóknarvert. Við erum með fyrirmyndarvettvang, frábært starfsfólk sem er þjónustulundað og lausnamiðað og erum vel tækjum búin.“
„Heildarupplifunin er mikilvæg og hluti af henni eru veitingarnar,“ segir Kristín Sóley. „Við leysum það líka innanhúss, en hér er veitingaaðili í húsi, Mói, sem reiðir fram glæsilegar veitingar fyrir fundi og ráðstefnur í húsinu. Einnig er möguleiki fyrir gesti hússins á verslun í gegnum Kistu, þar sem finna má íslenska hönnun og aðrar gæðavörur.“
Ef fundaraðstaða í sölunum í Hofi dugir ekki eða hentar ekki, eru salir á fleiri stöðum í bænum sem hægt er að skoða upplýsingar um á heimasíðunni. Hér er fundarsalur á Hótel KEA/Múlabergi. Mynd: Halla Haraldsdóttir
Ráðstefnuhald gæti brúað vetrarbilið í aðsókn til bæjarins
„Það sem er svo gott líka, fyrir starfsemi eins og okkar,“ segir Kristín Sóley, „er að hús eins og Hof hýsir oftar en ekki menningarviðburði um helgar, en ráðstefnur fara lang oftast fram á virkum dögum, þannig að við erum að auka nýtingu á þessu frábæra menningarhúsi sem við höfum.“ Kristín Sóley bendir á að þó að ferðaþjónusta hafi aukist mikið á undanförnum árum, þá eru enn jaðartímabil sem vert er að gefa gaum, eins og um hávetur. „Við viljum fylla þennan tíma af fundum og ráðstefnum hér í bænum,“ segir Kristín Sóley.
Það er ekki hægt að segja annað en að tækifærin séu vaxandi og við erum spennt fyrir því að bjóða enn fleirum heim í ráðstefnubæinn Akureyri
„Við höfum verið svo heppin, að við höfum ekki þurft að auglýsa mikið,“ segir Kristín Sóley. „En nú erum við að setja aukinn kraft í það að láta vita af okkur sem fyrirmyndarvettvang fyrir fundi, ráðstefnur og hvataferðir, að ná þessum viðburður norður og ætlum til dæmis að fara með Akureyrarbæ á Mannamót, árlega ferðakaupstefnu markaðsstofanna, til þess að kynna það sem við höfum upp á að bjóða.“ Kristín Sóley fer ásamt Maríu Helenu Tryggvadóttur, verkefnastjóra ferðamála hjá Akureyrarbæ, á Mannamótið 16. janúar, en þær eru að fara saman í annað skipti. „Við höfum fengið svo góð viðbrögð við heimasíðunni, hvað aðgengið sé frábært og auðvelt að skipuleggja allt saman á einum stað.“
Áskoranir felast helst í skorti á gistirýmum og ferðamöguleikum
„Ein helsta áskorunin varðandi ráðstefnumarkaðinn á Íslandi almennt er skortur á gistirými,“ segir Kristín Sóley. „Hingað norður myndum við svo vilja sjá meira beint flug frá útlöndum, en það er frábær byrjun, það sem nú þegar er komið á dagskrá. Það sem við myndum vilja sjá meira af, væri beint flug til og frá Norðurlöndum. Það eru mikil samskipti þangað.“ Kristín Sóley segir að það séu góðar fréttir að uppbygging hér heima varðandi hótelbyggingar sé á fullu, með stækkun á Hótel Akureyri og tvær nýjar hótelbyggingar í farvatninu. „Það er ekki hægt að segja annað en að tækifærin séu vaxandi og við erum spennt fyrir því að bjóða enn fleirum heim í ráðstefnubæinn Akureyri,“ segir Kristín Sóley að lokum.