Fara í efni
Mannlíf

Púla í hrútakofanum í góðra vina hópi

Þrír af púlurum dagsins, Sigurgeir Ísaksson, Valdemar Thorarensen og Sveinn Sigurbjörnsson. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Við köllum þetta að púla,“ segir Sveinn Sigurbjörnsson, löggiltur púlari í hrútakofanum í Sölku, félagsmiðstöð fólksins í Víðilundi. Í kjallaranum hafa þeir karlarnir fengið fínt herbergi inn af málunarvinnustofunni, þar sem poolborðið stendur, íþróttatreyjur hanga á veggjunum, píluspjald er innan seilingar og þægilegur sófi. Þar er Sveinn þegar blaðamaður Akureyri.net villist inn í hrútakofann, en þar eru ásamt honum Svanberg Þórðarson, Sigurgeir Ísaksson, Valdemar Thorarensen og Örlygur Ingólfsson, og leikar standa sem hæst.

Ég gerði mig sjálfkrafa að kennara

„Það var kona á efri hæðinni sem spurði okkur einn daginn hvort við værum að fara niður í hrútakofann, og nafnið festist einhverra hluta vegna,“ segir Svanberg. „Við erum hættir að vinna og núna erum við að púla,“ segir Sveinn, en hann býður sig fram í að tala við blaðamanninn. Hinir strákarnir segja að hann sé þjálfarinn. „Ég lærði pool af Gunnari Halldórssyni fyrir þremur árum og ég hef fengið skírteini sem hangir upp á vegg, sem gerir mér kleift að kenna öðrum.“ Téður Gunnar mætir stundum og er næsta ósigrandi, segir Sveinn. „Nema, ef ég næ honum hérna klukkan hálftólf, þá vinn ég hann. En bara þá.“


Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku.

 

Sveinn er sjálfskipaður kennari og munar ekki um að hefja leikinn. Mynd: RH

Gunnar Halldórsson, en blaðamaður rakst á hann síðar um daginn í hrútakofanum. Hann er ósigrandi, nema kl. 11.30. Kannski dregur svengd úr honum? Mynd: RH

Hér eru Örlygur Ingólfsson og Svanberg Þórðarson að takast á með kjuðana að vopni. Mynd: RH

Sitja í hásætum og eru flest allir með kennsluréttindi

„Ég gerði mig sjálfkrafa að kennara,“ segir Sveinn og bendir á plaggið sem hangir uppi á vegg. „Þetta er undirskrifað af sjálfum mér. Það eru svo fleiri búnir að fá svona bréf, en mismunandi hvort að menn vilja flagga því.“ Svanberg skýtur inn í að hans plagg sé upprúllað í skrifborðsskúffu, en það eru samt nokkur innrömmuð skírteini á veggjum hrútakofans. „Við erum allir nokkuð góðir hérna, allavegana við þrír,“ segir Sveinn og bendir eitthvað út í loftið. „Þessi er ágætur, þessi líka, en ég er náttúrulega bestur. Valdemar er dómarinn, hann fær besta stólinn með besta útsýninu. Við erum búnir að hækka þessa stóla svo að við sjáum betur á borðið og svo getur verið erfitt að standa upp úr lágum stólum, þar sem svona gamalt fólk eins og við erum að halda til.“

Sveinn segir að allir búi þessir drengir í 'bleiku og bláu' blokkunum, sem 60+ blokkirnar í Víðilundi eru gjarnan kallaðar. „Nema ég, ég bý út í Grýtubakkahreppi, en ég á vinkonu hérna í húsunum,“ segir hann. „Ég er svona hlaupadýr, eins og sagt er um refina.“ Sigurgeir leiðréttir málið, og segir að hlaupadýr sé tófa sem er einhleyp og flakkar á milli grenja. Sveinn flakkar vissulega á milli staða, en hefur sömu konuna með sér á báðum stöðum og geti því ekki flokkast sem hlaupadýr. Það er mikil hlegið og bersýnilega vinaleg stemning í hrútakofanum.

 

Stólarnir eru á upphækkunum sem Sveinn sá um að hanna, enda verið smiður alla tíð. Hér sést í fæturna á dómaranum Valdemar, en hann hefur þennan virðulega fótskemil til þess að undirstika valdið. Sennilega. Mynd: RH

Svanberg hefur sýnt snilli sína í því að framkvæma fullkomið speglaskot, þar sem hann kemur áttunni ofan í hliðarvasann. Sveinn viðurkennir að í þessu sé Svanberg betri en flestir. Mynd: RH

Taka stundum pásu frá púlinu

„Þegar allir eru í góðu standi, þá förum við út að tína rusl,“ segir Sveinn, aðspurður um það, hvort að þeir taki sér eitthvað annað fyrir hendur í félagsmiðstöðvunum. „Þá förum við með tangir og tínum meðfram vegunum hérna í nágrenninu. Valdemar segir okkur lygasögur á meðan.“ Valdemar reynir samviskusamlega að koma með pólitískan áróður inn í spjallið, en blaðamaður lætur ekki gabbast og kveður það niður í fæðingu. Akureyri.net er ekki málgagn pólitískra púlara.

Að lokum fáum við að kynnast púlunum aðeins betur, og blaðamaður fær nöfn drengjanna og starfstitil. Svanberg Þórðarson er fyrrum húsasmiður, dýraeftirlitsmaður hjá Akureyrarbæ og skíðastökkvari, Sigurgeir Ísaksson, fyrrum bóndi og verslunarmaður í Ásbyrgi, Valdemar Thorarensen, fyrrum starfsmaður í Gefjun og Örlygur Ingólfsson, fyrrum skipstjóri og sjómaður. Viðmælandinn Sveinn starfaði sem smiður og bóndi í Grýtubakkahreppi. 

 

Eitt af nokkrum skírteinum um kennsluréttindi sem hanga á veggjum hrútakofans. Mynd: RH


Þetta var eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku.