Fara í efni
Fréttir

Óvissustigi lýst yfir vegna veðurútlits

Uppfærð frétt.

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi  á Norðurlandi eystra, sem og á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum eftir samráð ríkislögreglustjóra við lögreglustjórana á þessum svæðum. Spáð er norðanátt sem gæti fylgt slydda og snjókoma. 

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi frá kl. 18 í dag. Á vef Vegagerðarinnar segir að ekki sé útlit fyrir að neitt ferðaveður verði á norðan- og norðaustanverðu landinu, né á miðhálendinu og er ekki mælt með ferðalögum á þeim slóðum þar til hægir á ný.

Í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir meðal annars að ljóst sé að snjó muni festa á fjallvegum í nótt en Vegagerðin muni strax í fyrramálið hefja hreinsun. Lögreglan hvetur fólk til að fylgjast vel með á síðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar hvernig mál þróast áfram og haga ferðaplönum sínum í takt við þær upplýsingar.

„Fulltrúar Veðurstofunnar hvað varðar ofanflóð og skriðurföll fylgjast jafnframt vel með þróun mála en ekki er um langt liðið að mikil úrkoma hafði áhrif á samfélagið á Siglufirði sem og Siglufjarðarveg. Viðbragðsaðilar á Norðurlandi eystra eru vel upplýstir um stöðu mála og tilbúnir að bregðast við ef þörf krefur,“ segir einnig í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar.
 
Veðurspá og viðvörunarstig Veðurstofu Íslands fyrir Norðurland eystra fyrir daginn í dag og á morgun. Fyrsta myndin hér að neðan sýnir spána í dag kl. 9-18, sú næsta er frá kl. 18 í dag til kl. 9 í fyrramálið og sú síðasta frá 9 til kl. 15 á morgun.

Sjá nánar á vef Veðurstofunnar.