Fara í efni
Mannlíf

Óvinnufær eftir Covid en nær að skrifa pistla

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrsti pistill í flokknum Tré vikunnar birtist á Akureyri.net á miðvikudag í síðustu viku í samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga. Sigurður Arnarson stjórnarmaður hefur skrifað vikulega pistla undir því heiti á vef félagsins undanfarin misseri, afar fróðlega og skemmtilega, og gerir áfram. Akureyri.net mun héðan í frá vekja athygli á þeim og birti hluta hvers pistils.

„Við byrjuðum árið 2019 með því að birta stuttar greinar á Facebook síðu félagsins um tré vikunnar. Það gat verið eitt tré eða fleiri, einstök tré eða trjátegundir. Okkur langaði að birta alls kyns fróðleik,“ segir Sigurður við Akureyri.net um tilurð pistlanna.

„Þegar heimasíða félagsins var opnuð á fyrstu dögum ársins 2021 fluttum við megnið af greinunum þangað. Meiningin var að birta áfram stutta pistla sem stjórnarmenn myndu skipta á milli sín, en ég hef að mestu séð um þá. Ég fékk svo Covid 11. mars 2022; fékk ekki bara Covid ef svo má segja heldur fór ég einstaklega illa út úr því og hef verið óvinnufær síðan. Ég get þó setið við tölvu og þess vegna hefur verið tími og tækifæri til að skrifa lengri pistla en áður,“ segir Sigurður.

Fjölbreytt efni

Sigurður starfaði í Sólskógum en er óvinnufær sem fyrr segir og óvíst hvenær hann getur snúið aftur til vinnu – eða hvort hann getur það.

„Ég hef reynt að fara aftur til vinnu en get það ekki. Ég var á Reykjalundi í níu vikur, kom heim í desember og er nú að fara [á heilsuhælið] í Hveragerði. Ég er sem sagt óvinnufær í augnablikinu og veit ekki hvernig það endar. En þess vegna hef ég haft tíma til að skrifa þessa pistla;  ég mæðist reyndar mjög mikið en eitthvað verður maður að gera og pistlarnir hafa lengst og orðið ítarlegri af því ég hef meiri tíma.“

Sigurður segir pistlana vinsæla og hann fær töluverð viðbrögð, sem hefur hvatt hann til dáða. „Fyrst stóð til að birta pistlana bara á sumrin en svo ákvað ég að hafa einn pistil á mánuði yfir vetrartímann, til þess að kynna félagið betur og vekja athygli á trjám og skógrækt. Svo endaði þetta með því að ég fór að skrifa vikulega!“

Umfjöllunarefnið er fjölbreytt. „Það er hægt að skrifa um nánast hvað sem er. Til að byrja með miðaðist efnið við það hvað ég átti af myndum en svo hef ég fengið lánaðar myndir héðan og þaðan. Ég hef stundum skrifað um erlend tré og nú fjalla ég bæði um tré sem vaxa á Íslandi, tré sem geta alls ekki vaxið á Íslandi og jafnvel tré sem áður uxu á Íslandi, fyrir ísöld.“

Næsti pistill Sigurðar birtist á morgun. Smellið hér til að sjá fyrsta pistil ársins, sem birtist í síðustu viku.