Óvenjulegur heitur pottur á Akureyri
Hjónin Hallur Gunnarsson, eigandi Saga Travel, og Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, eru með skemmtilegan sérsmíðaðan pott í bakgarðinum við heimili sitt á Brekkunni.
Steyptur ofan í stétt
Sjónvarpskonan Vala Matt heimsótti þau Andreu og Hall á heimili þeirra í Ásabyggð fyrir þáttinn Ísland í dag þar sem hjónin sýndu henni þennan óvenjulega pott. Potturinn er eins og skúlptúr á veröndinni en hann er laginu eins og kuðungur. Í kringum hann eru háir veggir sem gefa bæði næði fyrir nágrönnum og norðanátt að vetri til. Það sem er óvenjulegt við hann er að hann var steyptur í einu lagi ofan í stéttina án nokkurra teikninga. Form úr krossvið var gert á staðnum sem var lagað til þar til rétt stærð var fundin.
Útisvæðið í bakgarðinum passar vel við húsið sem er frá 1950. Skjáskot af Stöð 2.
Passar vel við húsið
Andrea og Hallur keyptu húsið árið 2015 og byrjuðu á því að gera það allt upp að innan áður en þau fóru í útisvæðið. Fljótlega kviknaði sú hugmynd að gaman væri að hafa pott í garðinum en þeim fannst hefðbundin plastskel passa illa við húsið, sem er frá 1950. Því var þessi lausn fyrir valinu.