Óskiljanleg ákvörðun – heppin að vera á lífi
„Kona á fimmtugsaldri hlaut alvarlega höfuðáverka og var lögð inn á gjörgæsludeild eftir slæmt fall á rafhlaupahjóli á Akureyri aðfararnótt sunnudags.“ Þannig hófst stutt frétt hér á Akureyri.net fimmtudaginn 10. ágúst. Þá voru nokkrir dagar liðnir og hafði strax frést að sú slasaða væri Birna Baldursdóttir og að áfengi hafi átt hlut að máli. Það kom þó ekki fram í fyrstu fréttum af slysinu.
Nokkrum dögum síðar, þriðjudaginn 15. ágúst, birti Birna pistil á Facebook-síðu sinni sem sagt hefur verið frá á Akureyri.net. Hún lýsti því að hún hafi verið undir áhrifum áfengis og tekið þá fáránlegu ákvörðun að leigja rafhlaupahjól til að komast heim til sín úr partíi í öðrum bæjarhluta. Ferðin varð sem sagt endaslepp og komu vegfarendur að henni meðvitundarlausri, ekki langt frá lögreglustöðinni.
- Þetta er fyrri hluti samtals Akureyri.net við Birnu. Seinni hlutinn birtist síðar í dag.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, tæplega 600 athugasemdir og 1.200 sem hafa gefið hjarta og knús á færsluna, fyrir utan öll einkaskilaboði og heimsóknir ættingja og vina.
Sést ekki utan á henni
Nú er að nálgast tvær vikur frá slysinu og Birna tekur á móti blaðamanni frá Akureyri.net á heimili sínu í stutt spjall. Hún lítur ótrúlega vel út miðað við þær sögur sem fóru á kreik og miðað við þau meiðsli sem hún hlaut. Kinnbeinsbrot, höfuðkúpubrot við hægra gagnauga, risastórt glóðarauga sem nú er að mestu horfið. Samt enginn skurður og ekkert sem þurfti að sauma. Útlimir og aðrir hlutar líkmanans óskaddaðir.
„Það er bara ótrúlegt að ég hafi ekki slasast á fótum og handleggjum, það sér ekki á fötunum, ekki eitt opið sár á hnjám eða olnbogum eða leðurjakkanum. Leðurjakkinn bjargaði kannski öxlunum á mér,“ segir Birna þegar hún rifjar upp atvikið.
Blæðingin var innvortis og út um nef og eyru. Það sést ekki utan á henni að hún hafi lent í umræddu slysi, fundist meðvitundarlaus á gangstétt skammt frá lögreglustöðinni, verið flutt á bráðamóttöku þar sem hún fékk flogakast og svo gjörgæsludeild. Hún er þó ekki alveg söm og áður, hreyfir sig hægar, er stirð og er að takast á við afleiðingar heilahristings, er með höfuðverk, hellu fyrir eyrum, slappleika og fleira. Hún býr líka við þá óvissu að mögulega geti einhverjar afleiðingar slyssins átt eftir að koma í ljós og hún veit ekki hve fljótt – eða seint – hún mun jafna sig og losna við einkenni höfuðhöggsins og heilahristingsins.
Birna með sonum sínum, Mikael Breka og Sigmundi Loga Þórðarsonum.
„Ég veit að ég er að koma við mig, en ég finn það ekki,“ segir Birna og strýkur hendinni yfir hægri kinnina og gagnaugað. „Það eru bara taugarnar, segir læknirinn. Það er búið að skoða, engin blæðing eða neitt. Ég fór aftur í myndatöku.“ Brotið er einfaldlega svo langt að það hefur þessar afleiðingar. Læknirinn sagði ótrúlegt að hún væri þó þetta góð eins og hún er.
Svipurinn á móðurinni sannfærði hana
Örfáum dögum eftir að hún lenti í slysinu vissu bæjarbúar flestir hver það var sem slasaðist. Sögurnar voru reyndar ekki allar réttar. Birna kveðst til dæmis hafa heyrt að hún hafi brotið í sér allar tennurnar, en er mjög glöð með að sú hafi ekki verið raunin. Tennurnar eru heilar, bara svo það sé á hreinu.
Birna kveðst hafa verið vantrúuð fyrst þegar hún var að ranka við sér á gjörgæslu og læknirinn hafi sagt henni hvað gerðist. „Ég man alveg að læknirinn minn kemur nokkrum sinnum og segir þetta. Í fyrsta skipti sem hann kemur er mamma líka þarna inni og ég skil ekkert hvar ég er. Af hverju er ég ekki heima hjá mér?“ – Læknirinn lýsir meiðslunum, en Birna er vantrúuð. Læknirinn bendir henni þá á að móðir hennar sé þarna við hlið hennar. „Um leið og ég sé andlitið á móður minni þá sé ég að það er eitthvað alvarlegt að,“ segir Birna.
Birna, lengst til vinstri, var landsliðskona í strandblaki og stundar íþróttina enn í góðra vina hópi.
Heppin að vera á lífi
Þau ræða um atvikið og meiðslin, hvernig þau gerðust. „Svo bara kemur það aftur næst þegar ég vakna og smám saman fer ég að átta mig á því þegar fólkið mitt kemur. Mér finnst samt ekkert vera að mér, er þá á lyfjum og finn ekki þannig lagað neitt til. Það er ekki fyrr en nokkrum dögum seinna sem ég átta mig á að ég er heppin að vera á lífi, miðað við lýsingarnar sem ég fékk á þessu.“ Hún lýsir því að skömmin hafi hellst yfir hana þegar hún áttaði sig á alvarleika málsins. Hún var raunverulega í lífshættu og hefði sennilega ekki mátt finnast mikið seinna því hún fékk flogakast á bráðamóttökunni. Henni hefur líka verið hugsað til þess að foreldrar hennar hafa nú þegar misst eitt barn.
Birna var í allt rúma viku á sjúkrahúsinu, hluta þess tíma á gjörgæsludeild. Hún fór heim á föstudegi, en var lögð inn aftur daginn eftir. Þegar hún kom upphaflega á bráðamóttökuna fékk hún flogakast sem tengdist meiðslunum og blæðingunni þannig að flogalyf eru á meðal þess sem hún tekur núna, ásamt verkjalyfjum. Hún hefur líka notað Kuldi-Band, sérstakt höfuðband sem kælingu á höfuðið með góðum árangri og segir það eiga stóran þátt í að minnka bólgur í andlitinu.
Þegar á allt er litið getur hún talist heppin, en hún tekur þó fram að það séu óvissuþættir varðandi langtíma afleiðingar enda hafi hún fengið heilahristing og heilablæðingu.
Gott form kemur sér vel
Formið er ekki frábært sem stendur, eins og stuttar gönguferðir hennar um hverfið með móður hennar hafa sýnt henni fram á, en Birna brosir að því að núna sé hún þakklát fyrir bekki við göngustíga. Bekki sem hún hefur séð margoft áður þegar hún hefur farið út að hlaupa eða hjóla, en aldrei þurft að nota. „Ég þakkaði fyrir bekkinn sem er hérna niður frá. Það var bara yndislegt.“
Það hjálpar henni reyndar að hafa verið í góðu formi fyrir. En hún verður að passa sig vel, fara varlega, huga að púlsinum og hún er bara rétt nýbyrjuð að prófa fasta fæðu aftur eftir slysið, um 12 sólarhringum frá slysinu. „Ég borðaði í gær, smá kjúkling, gat tuggið vinstra megin, litla bita. Það var geggjað,“ segir Birna og gleðst greinilega yfir hverju framfaraskrefi.
Ég ætla að tala um þetta
Tíminn er reyndar naumur fyrir spjallið því hún er á leið út eftir stutta stund til að fylgjast með fótboltaleik hjá yngri syni sínum, en sá eldri er staddur erlendis með U17 ára landsliði Íslands. „Ég man að ég velti fyrir mér, hvað ætla ég að segja strákunum mínum? Ég sagði þeim bara strax að ég hafi verið í glasi og þetta hafi verið röng ákvörðun. Ég hugsaði strax: Ég ætla að tala um þetta. Ég gerði þetta og þetta er búið og ég get ekki breytt því,“ segir Birna um eftirmála þessa atburðar.
Birna var á sínum tíma landsliðskona í íshokkí. Hér skorar hún, í hvítreyju keppnistreyju, í leik með Skautafélag Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Það að fara út á meðal fólks er einmitt eitt af því sem hún hefur verið að takast á við undanfarna daga enda þekkt kona, íþróttakona, fyrrum landsliðskona bæði í blaki og íshokkí, íþróttakennari við Verkmenntaskólann, móðir, einkaþjálfari og varaformaður Íþróttabandalags Akureyrar, svo eitthvað sé nefnt. Líklega þekkja flestir Akureyringar Birnu í sjón og hafi fólk ekki þekkt hana áður er það líklega breytt með umfjöllun um slysið og pistilinn hennar á Facebook.
Mikilvægt að læra af mistökum
„Ég hef ekki farið neitt og hitt neinn, en það hafa nokkrir komið hingað. Ég hef farið út að labba núna þrisvar með mömmu og allir sem hafa hitt mig tekið mér mjög vel. En ég man að mig langaði til að fara með hettu yfir mig og ekki láta neinn sjá mig. En ég ætla bara að hætta því. Þessi pepp sem ég hef fengið eftir Facebook-statusinn, Jesús minn, mig langar bara að skæla. Þetta eru mistök sem maður gerir og það er alveg sama hvort það er í vinnunni, hérna heima eða í íþróttum, mistök eru til að læra af þeim. Við verðum bara betri, er það ekki?“
Birna samsinnir því að einmitt þetta, að læra af mistökunum og nýta slysið sem forvörn hvetji hana til að koma þessum skilaboðum á framfæri: „Að nota þessi hjól ekki undir áhrifum, vera með hjálm, eins og þetta er og á að vera.“
Hún nefnir í leiðinni að í sumum Evrópulöndum hafi notkun verið takmörkuð, til að mynda hafi Færeyingar bannað hjólin, í ákveðnum löndum megi ekki leigja út hjólin eftir ákveðinn tíma og fleira í þeim dúr. Hún segir pólska vinkonu sína hafa sagt sér frá því að þar í landi séu eins konar ölvunarpróf á hjólunum, strjúka þurfi yfir skjá eftir ákveðnu mynstri eða slá inn tölur til að sýna fram á hæfni til að fara af stað. „Ég er ekki að segja að það þurfi að banna þetta,“ segir Birna, en er þó á báðum áttum varðandi einhvers konar reglur. „Kannski þurfum við svona breytingar,“ segir hún.
Mjög hissa á sjálfri sér
Birna er mjög hissa á sjálfri sér að hafa tekið þessa ákvörðun og skilur hana ekki, kveðst sjálf velta slíkum hlutum fyrir sér, það er að aka ekki undir áhrifum, ekki leigja hlaupahjól og svo framvegis. „Já, auðvitað gerir maður það. En ég hef alveg tekið þessi hjól, bara ekki í glasi, og var með þetta app í símanum. En ég skil ekki af hverju ég tek það því ég veit að vinir mínir hafa lent í slysum á þessum hjólum og ég hef alltaf hugsað: Ég ætla aldrei að gera þetta!“
Hún nefnir að mögulega sé þetta einhvers konar „það kemur ekkert fyrir mig, ég er ofurkona“ hugsun sem hafi átt þátt í þessari ákvörðun.