Örtröð í Bónus í dag – „Algjör sprengja“

Akureyringar létu ekki segja sér það tvisvar að allar vörur í verslun Bónus við Kjarnagötu í Naustahverfi yrðu seldar með 30% afslætti í dag. Auglýsing þess efnis birtist á Akureyri.net í gærkvöldi, í morgun á LED götuskilti við Þingvallastræti og vakin var athygli á þessum óvenjulegu kostakjörum í erindi á samfélagsmiðlum Bónus.
„Þetta var algjör sprengja,“ sagði Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, þegar Akureyri.net ræddi við hann í versluninni síðdegis. Alla jafna er opnað klukkan 10 fyrir hádegi „en það voru svo margir farnir að bíða hér fyrir utan að við opnuðum 20 mínútum fyrir 10,“ sagði framkvæmdastjórinn. „Það liðu ekki nema svona 15 mínútur þangað til að allt var stappað hér inni.“
Langar raðir við afgreiðslukassanna strax klukkan rúmlega 10 í morgun.
Ástæðan fyrir ótrúlegum afslætti í versluninni í dag er sú að henni verður nú lokað í um það bil tvær vikur vegna breytinga. Aðalmálið er að skipt verður um kæla. „Við ætlum að skipta út gamla kælikerfinu fyrir annað nýrra og vistvænna,“ segir Björgvin, „og notum tækifærið og til að lappa aðeins upp á búðina í leiðinni. Hún verður betri ásýndar og auk þess miklu umhverfisvænni.“
Blaðamaður gerði sér ferð að versluninni um kl. 10.30 í morgun og þá var öngþveiti á bílastæðinu. Bíll við bíl á hefðbundnum stöðum og fjölda bíla var lagt á grasblettum í grenndinni og við grenndargáma steinsnar frá versluninni. Ekki var einu sinni mögulegt að leggja ólöglega og skjótast síðan inn til að taka eina mynd. Til þess var einfaldlega hvergi pláss!
Tómlegt var í mörgum hillum síðdegis.
Björgvin segir að enginn starfsmaður hafi búist við eins gríðarlegum viðbrögðum og raun ber vitni. Örtröð hafi verið í búðinni strax frá því opnað var og langt fram eftir degi. „Það er farið að róast núna, enda ekki mikið eftir!“ sagði Björgvin síðdegis. „Þetta kom okkur mjög á óvart. Fyrirfram hefði ég ekki trúað svona áhlaupi á búðina en það er auðvitað gaman að sjá að geti sér nýtt sér svona tilboð. Kúnnarnir okkar kunna augljóslega vel að meta þetta og ég er ánægður með það.“
Allt kjöt seldist á fyrsta klukkutímanum eða þar um bil og sömu sögu er að segja af mjólk, skyri og þess háttar, að sögn Björgvins. Hann nefnir að bleyjur hafi einnig selst upp fljótlega. Ýmsar nauðsynjavörur hurfu sem sagt eins og dögg fyrir sólu en mikið var eftir sælgæti og fleira sem seint verður talist til brýnustu nauðsynja.
Síðustu viðskiptavinir dagsins klukkan átta í kvöld. Mynd: Þorgeir Baldursson