Opnar vinnustofur á Hjalteyri á sunnudögum
Alla sunnudaga fram að jólum verður listaparið Katla Karlsdóttir og Vikar Mar með opna vinnustofu í Verksmiðjunum á Hjalteyri. Listakonan og sútarinn Lene Zachariassen verður einnig með opna vinnustofu á sama tíma og fleira skapandi fólk bætist mögulega við.
Akureyri.net var með viðtal við Kötlu í sumar þar sem hún sagði frá listsköpun sinni en hún er með vinnustofu bæði á Hjalteyri og í Madrid. Vinnustofan á Hjalteyri, er staðsett í gömlu rannsóknarstofunum í Verksmiðjunni og henni deilir hún með kærastanum og myndlistarmanninum Vikari Mar. Parið er að fást við mjög ólíka hluti. Verk Vikars eru stór og unnin með frjálsri aðferð, á meðan verk Kötlu eru í fastari skorðum. Annars vegar fæst hún við skartgripahönnun og hins vegar við gerð á svarthvítum Maríu myndum.
Opið hús verður í gulu verbúðinni á Hjalteyri hjá myndlistarkonunni Hrönn Einars sunnudaginn 15. desember.
Vörur úr skinnum og myndlist
Sútarinn Lene vinnur ýmsar vörur úr skinnum og húðum og spinnur band úr ólíkum efnivið. Heimsókn í vinnustofu hennar er mikið ævintýri en hún virðist geta nýtt skinn af flestum dýrum í listsköpun sína. Auk þeirra Kötlu, Vikars og Lene verður listakonan Hrönn Einarsdóttir með opna verbúð á Hjalteyri þann 15. desember. Akureyri.net ræddi við Hrönn í byrjun árs en þá sagði hún lesendum frá ást sinni á Hjalteyri og frá listsköpun sinni.
Sunnudagsopnanir á áðurnefndum vinnustofum á Hjalteyri verða milli kl. 14 og 18.