Opnað í Hlíðarfjalli á laugardaginn
Nú stefnir í að loksins verði hægt að dusta rykið af skíðunum eða snjóbrettunum, þar sem áætlað er að opna í Hlíðarfjalli á laugardaginn kemur. „Það verður opnað á neðra svæðinu um helgina,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í samtali við Akureyri.net. „Staðan er allt í lagi. Úrkoma hefur þó verið talsvert minni hérna uppfrá heldur en í bænum, þannig að við erum í rauninni að opna með nánast eingöngu tilbúnum snjó.“
Opnunartíminn er 10-16 á laugardögum, og þegar Brynjar talar um 'neðra svæðið', á hann við um allar brekkur frá Strýtuskálanum og niður. Samkvæmt vedur.is er ekki neinn hiti í kortunum næstu daga, þannig að ekkert ætti að geta komið í veg fyrir áætlanir um opnun.
HÉR er hægt að sjá opnunartíma í Hlíðarfjalli.
Snjóvélarnar hafa verið duglegar undanfarið. Mynd af Facebook síðu Hlíðarfjalls