„Ómetanlegt að koma plötunni út“
Akureyrska hljómsveitin Toymachine gefur loks út plötu í dag, 20 árum eftir að það stóð upphaflega til. Atli Hergeirsson, bassaleikari, hefur sagt frá ævintýrum hljómsveitarinnar tvo síðustu daga á Akureyri.net og frásögninni lýkur hér með, þegar platan langþráða, Royal Inbreed, er loksins orðin að veruleika. Þar eru á ferðinni eins og í gamla daga, Jens Ólafsson söngvari, Kristján Elí Örnólfsson gítarleikari, trommarinn Baldvin Zophoníasson og Atli, sem leikur á bassa.
Þegar frásögn gærdagsins lauk var hljómsveitin komin heim úr eftirminnilegri ferð til New York, þar sem draumurinn var að stíga síðasta skrefið að heimsfrægðinni. Það fór reyndar á annan veg; ferðin var algjörlega misheppnuð vegna afleitrar frammistöðu strákanna á sviði fyrir framan fulltrúa stórra útgáfufyrirtækja Vestanhafs. Þegar heim kom héldu þeir lífi í öðrum draumi um stund, að gefa út plötu, en ekkert varð úr. Þetta var um aldamótin og þá skildu leiðir að mestu.
Kannski, hugsanlega, mögulega ...
„Þegar Trausti Björgvinsson, sviðsmaður hljómsveitarinnar, gifti sig svo árið 2007, fékk hann okkur til að spila í brúðkaupinu og þá kviknaði einhver neisti,“ segir Atli. „Ég var lítið að spila á þessum tíma en lék reyndar inn á fyrstu sólóplötu Rúnars Eff, FARG, sem kom út um þetta leyti. Toymachine var bara gömul saga af gömlu bandi sem meikaði það næstum því, kannski, hugsanlega, mögulega!“ segir hann og hlær.
Guðmundur Cesar, annar umboðsmanna Toymachine á sínum tíma, lést í sjóslysi í desember 2009. „Við náðum aldrei að þakka honum nægilega vel fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur og við eigum raunverulega eftir að þakka Svan, hinum umboðsmanninum okkar, miklu meira en við höfum gert. Þetta voru tímar sem ég myndi ekki skipta út fyrir neitt í dag,“ segir Atli. Hann fékk svo þá hugmynd, þegar um áratugur var liðinn af öldinni, að strákarnir kæmu saman og lékju plötuna Crippled Plaything í fullri lengd á Græna hattinum en félögunum leist ekkert á það. Platan kom út 1997 í nafni Gimp, eins og hljómsveitin hét áður en nafnið Toymachine varð að veruleika, og fékk vægast sagt lélega dóma eins og Atli rifjaði upp í fyrstu greininni í fyrradag.
„Ég held samt enn í þá von að við gerum þetta einhvern tíma; það yrði sögulegt kvöld! En í stað þess að spá meira í þetta fóru menn að velta fyrir sér hvort ekki væri rétt að Toymachine myndi bara halda tónleika á Græna hattinum í staðinn. Sú hugmynd var samþykkt og við héldum eftirminnilega tónleika þar í apríl 2015.“
Að klára dæmið
Atli segir að alvöru neisti hafi kviknað á ný með þeim tónleikum og strax hafi verið farið að ræða um að taka upp þráðinn á ný, „að klára þetta dæmi sem við byrjuðum á. Við spiluðum svo á sérstöku hátíðarkvöldi Iceland Airwaves 2018 þegar því var fagnað að hátíðin var haldin í 20. skipti – aftur með hljómsveitunum Dead Sea Apple og Carpet, alveg eins og í Sjallanum þarna um árið. Það kvöld var einfaldlega endurskapað og nokkrir af þeim erlendu útgefendum sem gældu við okkur í gamla daga voru mættir, sem var mjög skemmtilegt. Sumir hverjir hafa mætt á hverja einustu Airwaves hátíð síðan í mars 1999.“
Þegar Atli hélt upp á fertugsafmælið 2. apríl 2019 leigði hann Bæjarbíó í Hafnarfirði og Toymachine hélt tónleika. „Þetta var á þriðjudagskvöldi, ég var nokkuð viss um að framboðið væri meira en eftirspurnin og bauð því um 500 manns, ef ég man rétt. Um 200 mættu og kvöldið var rafmagnað. Við skemmtum okkur að minnsta kosti vel og ég fékk drengina meira að segja til þess að spila þrjú lög af Crippled Plaything. Þú veist, It´s my birthday og allt það!
Eftir þetta gigg fékk ég þá hugmynd að við myndum gefa út gömlu Toymachine upptökurnar á vínyl og sendi þessa pælingu á strákana. Kristján svaraði um hæl með þessum fleygu orðum: Ég væri frekar til í Toymachine, The album. Þá hófst umræðan af alvöru og mórallinn var eiginlega þessi: Gerum bara lokins þessa plötu sem við áttum alltaf eftir að gera.
Við hófum leit að rétta hljóðverinu og fengum verðtilboð frá hinum og þessum. Það var svo kvöld eitt að ég lá í baði og hlustaði á podcast þar sem Einar Vilberg var í viðtali, maður sem ég hafði lítið heyrt um, hvað þá um Hljóðverk, hljóðver sem hann á og rekur.“
Þetta er maðurinn
Tilviljanirnar eru magnaðar. „Allan tímann sem ég hlustaði á viðtalið hugsaði ég með sjálfum mér að þetta væri maðurinn sem við værum að leita að,“ segir Atli. „Ég talaði við strákana og man að ég sagði þeim að ef þessi Einar Vilberg ynni þó ekki væri nema 50% af því sem hann segðist gera, þá væri hann klárlega maðurinn fyrir okkur. Úr varð að við Baldvin fórum að hitta hann og spurðum hvort hann væri til í að taka upp plötu fyrir okkar, gömlu karlanna.“
Í ljós kom að Einar var heldur betur til í tuskið. „Við Baldvin fundum líka þá tilfinningu sem við höfðum verið að leita að þegar við gengum inn í Hljóðverk. Þetta var staðurinn! Áður vorum við meira að segja búnir að skoða aðstæður í Hofi á Akureyri, af því okkur fannst einhver rómantík í því að taka plötuna jafnvel upp í heimabænum en tengdum ekki við skólastofufílínginn sem okkur fannst vera þar.“
Það varð því úr að Einar tók upp plötuna langþráðu. „Við spurðumst fyrir um störf Einars með öðrum böndum, allir létu vel af honum, hann lagðist vel í okkur og við vorum ánægðir með verðið. Þess vegna ákváðum við að leita ekki lengur að rétta manninum. Hann var fundinn.“
Strákarnir undirbjuggu söfnun á Karolina Fund sem sett var í gang í upphafi þess árs. „Söfnunin kláraðist svona kortér fyrir Covid, sem betur fer, við náðum að safna yfir 10.000 evrum og hver einasta króna hefur nýst hrikalega vel í verkefnið.“
Platan var tekin upp í ágúst. „Þar sem Jenni býr í Danmörku þurftum við auðvitað að fljúga honum hingað heim, vegna Covid leit það ekki vel út á tímabili, en við náðum í raun að gera þetta á milli bylgja og Jenni náði svo heim aftur rétt áður en Danmörk skellti í lás. Það var eins og þetta ætti að gerast, eins og maður upplifir oft. Við áttum pantaða viku í hljóðverinu hjá Einari Vilberg og áttum að mæta á mánudagsmorgni. Jenni kom til landsins á föstudagskvöldi, við fengum að æfa í húsnæðinu hjá Brain Police á laugardag og sunnudag og þar æfðum við samtals í 13 tíma.“
Í gegnum tíðina. Frá vinstri: Atli þegar hann hélt upp á fertugsafmælið í fyrra með tónleikum Toymachine, hljómsveitin á sviðinu í Bæjarbíói það kvöld og lengst til hægri hamast hann á bassanum á fyrstu árum hljómsveitarinnar.
Gekk eins og í lygasögu
Atli segir þá hafa varað Einar við að Toymachine væri ekki starfandi hljómsveit og hann þyrfti líklega að sýna mikla þolinmæði. „Við mættum á mánudagsmorgni og Einar var þá búinn að stilla öllu upp enda höfðum við sagt honum að við hugðumst taka plötuna upp live eins og það heitir. Þá spilum við allir saman í einu og tökum hvert lag upp nokkrum sinnum og bætum svo fleiri gíturum og slíku ofan á, auk söngs í lokin.
Við vorum reyndar farnir að hallast að því, eftir æfingar helgarinnar, að betra yrði að gera þetta á annan hátt; að taka fyrstu upp trommur, svo bassa og þannig koll af kolli. En þar sem Einar var með allt tilbúið fyrir live upptöku sögðum við ekki eitt einasta orð og ákváðum bara að láta vaða! Við sjáum ekki eftir því vegna þess að krafturinn skilar sér 100% betur svona, og þar sem við vorum vel æfðir gekk þetta eins og í lygasögu. Einar stóð sig líka svakalega vel og í raun tók hann utan um okkur og leiddi okkur í gegnum ferlið, sérstaklega mig, Baldvin og Kristján. Jenni hefur auðvitað gert nokkrar plöturnar og er því vanari svona upptökum.“
Lögin á plötunni eru öll samin á árunum 1998 til 2001 og útsetningarnar eru líka flestar frá þeim tíma. „Meira að segja umslagið er unnið upp úr sömu pælingum og við vorum með fyrir 20 árum, en það er góðvinur okkar, Arnar Sigurðsson – Addi Rokk – hönnuður á Akureyri, sem á heiðurinn af því. Hann dustaði rykið af gömlu pælingunum og setti upp á ný, fáránlega fær náungi hann Addi.“
Á plötunni er finna enn eina útgáfuna af laginu Bitter, sem nefnt var í fyrri greinum. Lagið var á Crippled Plaything sem áður var nefnd með Gimp, og þeir gáfu það út aftur á lítilli plötu sem Gimp sendi frá sér ári eftir að Crippled kom út. „Nú heitir það Bitter III og er svolítið á skjön við annað á plötunni, algerlega viljandi. Við förum pínu í Gimp fílíng í þessu lagi og textinn er uppgjör Jenna við þessa gömlu tíma.
Aftur á eitt lag sérstakan sess í mínu hjarta, í þetta skipti titillagið, Royal Inbreed; ég fékk þann heiður að semja hluta textans, þar sem ég orti til föður míns. Þeir skilja sem skilja.“
Akureyrskur framleiðandi í Danmörku
Þegar strákarnir hófu leit að vinylplötuframleiðanda fundu þeir einn slíkan í Danmörku. „Við fundum ekki bara Íslending sem á slíkt fyrirtæki í Danmörku heldur Akureyring! Hann heitir Guðmundur Ísfeld og rekur RPM Records og það var engin spurning að láta hann framleiða – platan verður enn akureyrskari fyrir vikið! Guðmundur mundi vel eftir Toymachine frá sínum yngri árum og var heldur betur til í samstarf. Mæli með honum fyrir alla sem ætla sér að framleiða vinyl plötu.“
Nú orðið eru þeir bara fjórir í Toymachine, eins og í upphafi. „Árni Elliott er ekki með. Honum var alltaf boðið þegar við vorum að spila, hvort sem var á Græna hattinum 2015, Airwaves 2018 eða í afmælinu mínu í fyrra, en hann kom ekki. Við fórum líka í hljóðver hjá Adda 800 og tókum upp lag fyrir mynd Baldvins, Lof mér að falla, þar sem Árna var líka boðið að taka þátt en hann sýndi því ekki mikinn áhuga.“
Atli er geysilega ánægður með plötuna sem loksins er að koma út. „Royal Inbreed er eitthvað sem við getum svo sannarlega verið sáttir við og stoltir af. Sándið er frábært á plötunni og Jenni sannar enn og aftur að hann er sennilega besti rokksöngvari Íslands. Þá skemmir ekki fyrir að ég er í hljómsveit með uppáhalds gítarleikaranum mínum og uppáhalds trommaranum mínum,“ segir hann.
„Það, að koma þessari plötu frá okkur núna, er ómetanlegt fyrir mig. Sú vinátta sem myndast í svona hljómsveit er eitthvað sem fáir skilja nema að prófa það. Mér þykir óendanlega vænt um þessa drengi. Vináttan er algjörlega ósvikin, alveg sama hvað kemur upp á erum við alltaf bestu vinir. Allir! Það hefur gengið á ýmsu í gegnum tíðina og meira að segja í ferlinu við gerð þessarar plötu, en þegar menn eru orðnir þetta þroskaðir, eins og ég vil meina að við séum í dag, þá bítur ekkert á okkur.“
Hringnum lokað
Atli segir að fyrir sig persónulega sé útkoma plötunnar mjög mikilvæg. „Þetta gerist á hárréttum tíma fyrir mig. Síðustu þrjú árin eða svo hafa verið mér afar erfið, og ferlið við að gera plötuna hefur hjálpað mér ótrúlega mikið við að vinna úr málum sem ég hef enn ekki tjáð mig um opinberlega, en mun gera einhvern daginn, þegar ég verð tilbúinn til þess. Í þessum erfiðleikum var gott að eiga vini mína í Toymachine og geta alltaf leitað til þeirra, og auðvitað að eiga yndislega eiginkonu, aðra vini og fjölskyldu sem styður við mann.“
Þótt ekki verði haldnir útgáfutónleikar núna, vegna heimsfaraldursins, sér Atli fram á betri tíð. „Ég get ekki beðið eftir því þegar allir verða búnir að skála í bóluefni og við getum haldið útgáfutónleikana okkar. Við munum gera þá fáránlega vel og tjalda öllu til. Það verða tvennir útgáfutónleikar, annars vegar á Græna hattinum á Akureyri og svo á einhverjum góðum stað á höfuðborgarsvæðinu. Ég hvet alla til að tryggja sér eintak af Royal Inbreed en Tónabúðin á Akureyri mun sjá um sölu hennar fyrir heimabæinn. Svo kemur platan í heild á Spotify en reyndar ekki fyrr en á nýju ári. Þó gefum við út smáskífu á Spotify á útgáfudegi vínylsins, fyrrnefnt titillag.“
Hringnum verður að vissu leyti lokað í dag. Segja má að óvissuferðin mikla, sem hófst í Sjallanum föstudagskvöldið 12. mars 1999, sé loks á enda.
FYRRI GREINAR