Olga Ágústsdóttir fornbókasali látin
Olga Ágústsdóttir, fyrrum fornbókasali og kennari, er látin. Hún fæddist fæddist í Bolungarvík 29. júlí 1935 en ólst upp á Ísafirði og í Æðey. Olga lést síðastliðinn föstudag, 24. janúar, á 90. aldursári.
Eiginmaður Olgu var Kristján Hannesson. Þau gengu í hjónaband 1964 og bjuggu fyrstu hjúskaparár sín í Reykjavík en keyptu jörðina Kaupang í Eyjafirði 1965 og fluttu þangað á fardögum 1966. Kristján lést 2013. Börn Olgu og Kristjáns eru sex; Valgerður rekstrarfræðingur, Sigríður skipulagsfræðingur, Helga hagfræðingur, Hannes tölvunarfræðingur, Ágúst flugmaður og Laufey lögfræðingur.
Foreldrar Olgu voru hjónin Valgerður Kristjánsdóttir húsmóðir og kennari, og Sigurður Ágúst Elíasson kennari, fyrrum yfirfiskmatsmaður á Vestfjörðum, síðar á Akureyri og kaupmaður í Reykjavík. Eftirlifandi systur Olgu eru Auður, fyrrum ferðaskrifstofukona og Ásgerður, fyrrum starfsmaður hjá Flugleiðum. Systkini Olgu sem eru látin eru, í aldursröð, Rannveig Guðríður, fyrrv. framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands, Helga Kristín, fyrrv. framkvæmdastjóri fyrir STEF í Reykjavík, Guðrún, fyrrv. landsímaritari í Reykjavík, Elías Valdimar, fyrrv. bifreiðastjóri og starfsmaður Skeljungs í Reykjavík, Guðmundur, hagfræðingur og fyrrum útibússtjóri Íslandsbanka.
Olga lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands og samvinnuskólanum Vaar Gard í Stokkhólmi. Hún stundaði verslunar- og skrifstofustörf hjá KEA, starfaði í gjaldeyrisdeild sænska sambandsins KF í Stokkhólmi og síðan í fræðsludeild þar, síðan hjá fræðsludeild SÍS. Þá starfaði hún hjá skipafélaginu MS Thore í Gautaborg og fór í heimsreisu, sigldi í kringum hnöttinn árið 1959. Olga var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga á Akranesi 1961-62. Hún starfaði jafnframt hjá ferðaskrifstofunni Útsýn auk þess að hafa verið ritari hjá Jóni Leifs tónskáldi þegar hann vantaði einhvern sem gæti vélritað á sænsku.
Eftir að Olga fluttist norður ásamt eiginmanni sínum kenndi hún vélritun og bókfærslu um árabil við Oddeyrarskóla og Glerárskóla á Akureyri.
Olga keypti rekstur fornbókaverslunarinnar Fróða á Akureyri árið 1984 og var fornbókasali í tæp 40 ár, lengst af í Kaupvangsstræti - Listagilinu.
Olga starfaði að kvenfélagsmálum og var ritari Sambands eyfirskra kvenna, var dálkahöfundur í Tímanum í tvö ár, skrifaði greinar í Hlyn, blað samvinnustarfsmanna og í Samvinnuna, auk þess sem hún var með fasta þætti um matreiðslu í Degi á Akureyri.