Fara í efni
Menning

Ólafía Hrönn og Króli tannlæknirinn og Baldur

Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur tannlækninn í Litlu Hryllingsbúðinni, söngleiknum sem Leikfélag Akureyrar setur upp í Samkomuhúsinu í haust. Áður hefur komið fram að Kristinn Óli Haraldsson, Króli, tekur þátt í uppsetningunni og leikur Baldur blómasala.

Litla Hryllingsbúðin verður frumsýnd í október. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson.

„Ég hlakka mikið til að ganga til liðs við Leikfélag Akureyrar. Ég hef leikið í fallega Samkomuhúsinu og veit að hljómburðurinn er sérstaklega góður. Nú fæ ég að æfa þar upp leikrit ! Það er svakalega notaleg tilhugsun að fá að dvelja svona lengi á Akureyri,“ segir Ólafía Hrönn á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar. Hún leikur tannlækninn sem fyrr segir. „Þetta er auðvitað geggjað hlutverk og að fá að vera með Bergi leikstjóra og hans áhöfn er bara æði.“

Kristinn Óli hefur áður starfað með LA; lék Tóta Tannálf í fjölskyldusöngleiknum um Benedikt búálf. „Ég get ekki beðið eftir því að koma aftur norður! Þetta er minn lang mest uppáhalds söngleikur, með eindæmum heiður að fá vera með. Ég hef lengi litið upp til Bergs og því draumur í dós að fá að vinna með honum. Sjáumst í Samkomuhúsinu,“ segir Kristinn Óli á vef MAk.