Fara í efni
Menning

ÓKEI - Þekktasta orðatiltæki í heimi

Nýlega kom út bókin ÓKEI — uppruni og saga þekktasta orðatiltækis í heimi. Höfundur er Sigurður Ægisson, guðfræðingur og þjóðfræðingur. Bókaútgáfan Hólar gefur út.

Sigurður hefur sent frá sér nokkrar áhugaverðar og fallegar bækur á undanförnum áru. Þessi er vissulega óvenjuleg en sannarlega áhugaverð enda fyrirbærið sem um er fjallað líklega þekkt hvarvetna á byggðu bóli. Enginn veit þó fyrir víst hvað þaðan er upprunnið – eða hvað?

Á bókarkápu segir: „OK eða O.K., ýmist ritað með lág- eða hástöfum, er sagt vera þekktasta útflutningsafurð Bandaríkjanna, fyrr og síðar. Alla vega er þessi stafasamsetning fyrir löngu komin um gjörvalla Jörð og mun í ofanálag vera fyrsta orðið sem heyrðist mælt á Tunglinu. Það er ekki lítið afrek. Hvað með aðrar reikistjörnur verður, á eftir að koma í ljós.“

Sigurður Ægisson, rithöfundur, guðfræðingur og þjóðfræðingur.

Afdrifaríkur enskutími í MA

Í Vesturheimi fæddi það bráðlega af sér okay og okey, sem og oke um 1930 og síðan þá hafa komið a-o.k., a-ok, doke, hoke, hokey, hokey-dokey, hokie-dokie, keoke, oak, oakadidoke, oakie-doke, oh-key, oka, okay-doke, o-ke-doke, oke-doke, okedoke, okee-doke, okeh, okely-dokely, okey doke, okey-doke, okeydoke, okey-dokey, okey-dokey artichokey, okey dory, okey-poke, okey-pokey, okie doke, okie-dokie, okie-dory, okily-dokily, okle-dokle, oksy-doksy, okums-dokums, oky-doke, oky-doky, oky-dory og okydoke – og einhverjar fleiri útgáfur, þar á meðal styttingin K.

Varla þarf að taka fram, að umrætt orð er fyrir löngu búið að sigra heiminn. Í enskri tungu er það ýmist notað sem atviksorð, lýsingarorð, nafnorð, sagnorð eða þá upphrópun.

Til Íslands hefur orðið eflaust borist sem talmál, eins og víðast hvar annars staðar, en ekki er ljóst nákvæmlega hvenær. „Á prenti sést það hins vegar fyrst á 4. áratug 20. aldar. Síðar eignaðist það afkvæmi hér – sambandið allt í kei(inu),“ segir Sigurður.

 


Upphafið að rannsókn Sigurðar Ægissonar er atvik eða minning úr enskutíma í Menntaskólanum á Akureyri, en hann var þar í námi frá 1974 til 1978. O.K. hafði borist í tal einhverju sinni og aðdragandinn að fæðingu þess, og hann langaði frá því andartaki að lesa sér betur til um upphaf þessa orðalags eða hvað á að nefna blómið – frasa, orðatiltækis, setningarliðar, talsmáta – sem þá var tekið að festa rætur í íslensku máli. Það hafði reyndar komið mjög við sögu haustið 1950, hafði verið notað til að koma áleiðis afar mikilvægum skilaboðum, eftir að Geysir, millilandaflugvél Loftleiða, hafði brotlent á Vatnajökli, með sex manna áhöfn. Þegar leitarmenn á Catalina-flugbátnum Vestfirðingi fóru þar yfir, gaus allt í einu upp reykstrókur af báli sem áhöfn Geysis – Magnús Guðmundsson flugstjóri, Dagfinnur Stefánsson flugmaður, Einar Runólfsson vélamaður, Guðmundur Sívertsen loftsiglingafræðingur, Bolli Gunnarsson loftskeytamaður og Ingigerður Karlsdóttir flugfreyja – hafði kveikt til að vekja á sér athygli þegar flugvél myndi nálgast. Orðrétt segir flugstjórinn, Jóhannes Markússon, þegar hann rifjar þetta upp: „Ég lækkaði flugið og þá sáum við áhöfnina við flakið. Við trúðum varla okkar eigin augum. Þegar við flugum yfir sáum við að áhöfnin gaf okkur merki um að allir væru á lífi; hún myndaði OK.“

Old Keokuk og ýmsir fleiri

Í bókinni, sem er rúmar 300 blaðsíður að lengd, eru reifaðar 50 kenningar, sem allar hafa það að markmiði að reyna að svara henni. Farið er um allan heim í þeim tilgangi, m.a. til fjölmargra landa Afríku, Evrópu og jafnvel Asíu, og kafað langt aftur í mannkynssöguna, allt til daga Forn-Grikkja, Rómverja og Spartverja, og að auki leitað aðstoðar í þeirri glímu til Ástralíu og Suður-Ameríku.

Til dæmis er sagt frá Old Keokuk, indíánahöfðingjanum magnaða, sem á að hafa undirritað alla samninga með upphafsstöfum sínum, Aux Cayes á Haítí, þar sem fékkst betra kaffi, tóbak og romm en annars staðar í heiminum, Martin Van Buren, áttunda forseta Bandaríkjanna, sem hafði viðurnefnið Old Kinderhook og nýtti sér það í kosningabaráttu árið 1840, þegar hann leitaði endurkjörs, Olgu Kiréeff, hinum dularfulla hvít-rússneska diplómata, blaðamanni og rithöfundi, sem fór mikinn í efri lögum stjórnmálaheimsins í Rússlandi og á Englandi á 19. öld og byrjun þeirrar 20. og notaði iðulega felunafnið O.K., og að auki tengjast þessu Obadiah Kaufman, Oscar Kent, Orrin Kendall, Otto Kaiser, Onslow og Kilbracken, Ohm Krüger, Oliver Killory og mörg fleiri.

Um Otis Kane í Heimskringlu

Ein þessara kenninga tengist meira að segja Íslandi, því snemma árs 1934 birtist pistill í vestur-íslenska fréttablaðinu Heimskringlu, í Winnipeg í Kanada. Hann bar yfirskriftina „O.K.“ og var eftir Magnús Björnsson (1869–1943) lækni, sem fæddur var að Úlfsstöðum í Loðmundarfirði en hafði flust yfir Atlantsála, nánar tiltekið að Mountain í Norður-Dakóta, með foreldrum sínum, árið 1884, frá Hauksstöðum í Vopnafjarðarhreppi í Norður-Múlasýslu. Síðar tók hann þar upp nafnið Magnús Björnsson Halldórsson. Áðurnefnt skrif hans er á þessa leið:

„Þetta afar einkennilega orðatiltæki sem þýðir samþykki og að samþykkja, jafnvel undirskrifa, hefir smásaman læðst inn í enska tungu á síðari árum, þó auðvitað heyrist það oftast í Canada og Bandaríkjunum, þar sem það átti upptök sín. Mun það sanni næst að það sé nú notað hvar sem enska er töluð, þannig er það haft eftir biskupinum í London, eftir að hann kom til baka frá Canada síðast liðið haust, og hafði lært að nota orða tiltækið O.K. að hann ætlaði sér hvenær sem tækifæri byðist að segja: „O.K. Chief“ við yfirboðara sinn, Erkibiskupinn í Canterbury. Sýnir þetta hvað jafnvel aldraðir og alvarlegir kirkjuhöfðingjar dázt að þessu orða tiltæki.

Ýmsar sögur eru til um það hvaðan O.K. hafi komið í fyrstunni, en af mörgum ástæðum tel eg þá er fylgir sannasta.

Í innanríkis stríði Bandaríkjanna [en það var háð frá 1861 til 1865] og í mörg ár þar eftir var bryti (commissary officer) í Bandaríkjahernum sem hét Otis Kane. Hann var svo áreiðanlegur að engum sem þekti hann datt í hug að efast um nokkurt hans orð, og svo duglegur og samvizkusamur var hann að hann braut upp og skoðaði hvern kassa sem herstöðvum hans var sendur. Ef innihaldið var óaðfinnanlegt, negldi hann yfir kassann aftur og skrifaði O.K. á lokið, ef ekki sendi hann hlutinn vægðarlaust til baka hver sem í hlut átti. Vöndust menn smásaman á að taka þetta fangamark sem algilda sönnun fyrir því að innihald hverrar þeirrar hirzlu er það bar væri óyggjandi að gæðum og fóru svo að tala um þá hluti sem O.K. þ. e. óyggjandi. Síðar snerist svo þýðing orðatiltækisins við svo menn fóru að kalla óyggjandi og óaðfinnanlega hluti O.K. og þar næst að vitna um og sanna ágæti og réttmæti með því að marka með O.K. og skrifa nafn sitt undir, einnig að samsinna með því að segja blátt áfram O.K.

Mér þykir vænt um þessa sögu því hún sýnir að mannskapur og trúmenska eins manns þó ekki sé í hárri stöðu geta haft svo víðtæk áhrif að orsaka nýtt orðatiltæki í jafn fjöltalaðari tungu sem enskan er. Ætti það að vera hvatning hverjum manni til þess að temja sér þær dygðir.

Auðvitað get eg ekki beinlínis borið vitni um að þessi saga sé sönn, en hitt veit eg að úr Bandaríkja hernum er O.K. komið. Sá sem kendi mér það fyrst fyrir 40 árum síðan var Pétur Johnson [1876–1925], sem nýlega dó í Sand Point, Idaho, þar sem hann hafði lengi verið ríkissóknari. Hafði hann lært það af hermönnum í Pembina [í Norður-Dakóta], því þá var þar dálítil herstöð og veit eg að þeir sem lengi hafa í Pembina búið geta borið um þetta vitni. Söguna las eg einhverntíma löngu seinna.

Skrítið er það að íslenzkan á orðatiltæki nokkuð hliðstætt þessu þó á annan hátt sé. Hún kallar erfiðleika og mótstöðu þránd í götu eftir hinum kaldráða Færeying fornaldarinnar, Þrándi í Götu.“

Sigurður Ægisson segist ekki hafa fundið, þrátt fyrir mikla leit, önnur rit sem minnast á Otis Kane í þessu sambandi. „Fyrir vikið eru téð orð þeim mun áhugaverðari og mikilvægari, nokkurs konar íslenskur gluggi inn í seinni hluta 19. aldar þarna í Vesturheimi,“ segir hann.

„Hins vegar er þetta orðatiltæki komið fram löngu áður, en þessar pælingar sýna ótvírætt, að menn hafa verið að leita og spyrjast fyrir og að þetta hafi verið niðurstaðan um hið sanna í málinu. Hinar kenningarnar flestar eru á svipuðum nótum, rannsóknin er tekin alvarlega, það er verið að grúska til að reyna að finna svarið við hinni miklu gátu um upphafið,“ segir Sigurður.