Fara í efni
Fréttir

Óheimilt að skipta sér af kjarasamningum

Hópur kennara gengur niður kirkjutröppurnar í samstöðugöngu á mánudagskvöldið, á leið að Ráðhústorgi. Mynd: Þorgeir Baldursson

Akureyrarbær hefur vakið athygli á því með tilkynningu á heimasíðu bæjarins að bærinn hafi ekki beina aðkomu að kjaradeilum ríkis, sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Samband íslenskra sveitarfélaga er með fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd Akureyrarbæjar við öll stærstu stéttarfélög landsins, samkvæmt samkomulagi frá 9. janúar 2023.

„Akureyrarbæ og öðrum sveitarfélögum sem undirritað hafa samkomulagið er samkvæmt umboðinu ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð. Sveitarfélagið skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins,“ segir meðal annars í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Samkvæmt áðurnefndu samkomulagi hefur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fullt umboð til að annast allar kjaraviðræður, ganga frá kjarasamningum og annast útgáfu þeirra í samráði við viðkomandi stéttarfélög. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir bæjaryfirvöld upplýst um gang mála, en þessi vinna sé alfarið í höndum samninganefndarinnar. „Okkur er hreinlega ekki heimilt samkvæmt samkomulaginu að hlutast á nokkurn hátt til um þessar kjaradeilur sem leysast vonandi von bráðar,“ segir Ásthildur.