Ævintýri á Wembley sem aldrei gleymist
Karlotta Sif Sveinsdóttir, níu ára Reykjavíkurstúlka með sterkar akureyrskar rætur, datt heldur betur í lukkupottinn á dögunum. Hún var í hópi barna sem gekk inn á Wembley leikvanginn í London fyrir úrslitaleik Evrópumóts kvenna í knattspyrnu 31. júlí og stóð fyrir framan leikmenn Englands og Þýskalands á meðan þjóðsöngvar landanna voru leiknir.
„Ég sá á Facebook að hægt var að skrá börn í leik ef maður var í viðskiptum við Arion banka. Ég skráði því tvær dætur okkar en bjóst alls ekki við því að önnur hvor þeirra yrði dregin út,“ segir móðir Karlottu Sifjar, Akureyringurinn Katrín Hólm Árnadóttir við Akureyri.net.
„Það var svo í byrjun júlí sem ég fékk símtal þar sem tilkynnt var að Karlotta Sif hefði verið dregin út. Ég trúði því reyndar ekki og hringdi til baka klukkutíma seinna og fékk það þá staðfest,“ segir Katrín. Hún starfar á leikskóla og þannig vildi til að Karlotta var með móður sinni í vinnunni þennan dag. „Hún vissi að ég hafði skráð þær systur í leikinn en var reyndar búin að gleyma því. Karlotta horfði bara á mig og fór að hlæja, þegar ég sagði henni tíðindin. Hún trúði þessu ekki heldur til að byrja með,“ segir Katrín.
Vill búa á Akureyri!
Það var Visa, eitt samstarfsfyrirtækja UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, sem stóð fyrir þessum skemmtilega leik fyrir börnin. Að sögn Katrínar voru 20 barnanna ensk, eitt frá Þýskalandi og svo Karlotta frá Íslandi!
Katrín „fékk að fara með“ til London, þar sem þær mæðgur dvöldu í góðu yfirlæti í þrjá daga. „Okkur hafði verið sagt að krakkarnir myndu leiða leikmenn inn á völlinn en það var misskilningur. Hópurinn beið niðri við völlinn, gekk svo inná á undan liðunum og stóð fyrir fram leikmennina niðri á vellinum áður en leikurinn byrjaði.“
Foreldrar Katrínar eru Akureyringarnir Árni Harðarson og María Tryggvadóttir, hún hefur verið búsett í Reykjavík síðan 2005 og Karlotta Sif því aldrei búið nyrðra „en hún myndi reyndar vilja búa á Akureyri ef hún fengi að ráða!“ segir móðir hennar. „Öllum stelpunum okkar þremur líður mjög vel fyrir norðan þegar þær fara til ömmu og afa.“
Wembley og einkabílstjórar
Mæðgurnar fórum út snemma á laugardagsmorgni, leikurinn var á sunnudegi og þær héldu heim á ný á mánudagskvöldi.
Stundin á Wembley var ógleymanleg, segir Katrín, þar sem mæðgurnar voru á meðal tæplega 90 þúsund áhorfenda, en dóttur hennar fannst ekki síður merkilegt að þær voru sóttar á flugvöllinn af einkabílstjóra á glæsilegri Mercedes Benz bifreið og var ekið þangað af öðrum slíkum á BMW þegar þær héldu heim á leið! „Karlotta upplifði margt þessa daga og var í stanslausu samband við pabba sinn til að sýna honum allt sem við upplifðum. Ég held hún hafi hringt 27 sinnum í hann!“ Faðirinn, Sveinn Ólafur Lárusson, gat því fylgst spenntur með öllu heima á Íslandi, bæði þegar mæðgurnar voru á leiknum og daginn eftir þegar þær skoðuðu sig um í stórborginni.
„Við héldum auðvitað með Englandi og það var ólýsanleg upplifun þegar fyrsta markið var skorað; maður skynjar það ekki í gegnum sjónvarpið hvernig það er að upplifa þetta í raun og veru með því að vera á staðnum. Við vorum frekar neðarlega í stúkunni og sáum því allt mjög vel.“
Mjög vel var haldið utan um allt varðandi börnin, segir Katrín. „Á leikdaginn fór Karlotta með rútu frá hótelinu rétt fyrir hádegi og ég hitti hana ekki fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleikinn, nokkrum klukkutímum seinna.“
Karlotta hefur ekki verið í fótbolta en segist ætla að fara að æfa í haust með Fjölni, að sögn móður hennar. „Hún verður að minnsta kosti í réttum litum, gulu og bláu; KA-hjartað í mömmunni er ánægt með það!“ segir Katrín og hlær.
Karlotta í hópnum sem fékk að standa framan við leikmenn Englands og Þýskalands fyrir úrslitaleik EM á Wembley.