Mannlíf
Of gott tækifæri til að gera ekki neitt!
25.06.2023 kl. 15:30
Feðginin Alexandra Diljá Eiríksdóttir og Eiki Helgason í nýju gjafavöruverslun Braggaparksins við Laufásgötu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Nýjasta verslun bæjarins og sennilega sú minnsta var opnuð fyrir hálfum mánuði í Braggaparkinu við Laufásgötu, steinsnar frá Oddeyrarbryggju og Tangabryggju, þar sem fjöldi skemmtiferðaskipa leggst að í sumar. „Þegar fyrstu skemmtiferðaskipin komu var hrúga af túristum hér fyrir utan og við hugsuðum með okkur – hingað koma um 280 skip í sumar og við verðum að gera eitthvað; þetta er of gott tækifæri til að gera ekki neitt!“ segir Eiki Helgason, snjóbrettameistari og eigandi Braggaparksins við Akureyri.net.
Eiki opnaði minjagripaverslun í Braggaparkinu og segir erlendu ferðamennina hrifna af uppátækinu. „Hér var lítill gluggi sem snýr út að götunni, þar sem við vorum með snjóbrettaleigu í vetur.“ Eiki tók rúðuna úr og smíðaði framhlið sem minnir á torfbæ.
„Ég er meðal annars að selja Braggaparkshúfur, græjaði mér líka Íslandshúfur og fleira í þeim dúr, en túristarnir vilja bara lókalbrandið; þeir meta það mikils að geta keypt Braggaparkshúfur af litlum, lókal brettagarði. Þeim finnst það skemmtilegri minjagripur en eitthvað venjulegt.“
Braggaparkið er alltaf jafnvel vinsælt að sögn Eika, ekki síst hjá ungu kynslóðinni. Þar hefur nú verið tekinn upp sumartími; opið er frá klukkan 11.00 til 16.00 alla daga vikunnar.
Nokkrir ferðamenn af skemmtiferðaskipi fengu að skoða Braggaparkið þegar Akureyri.net var á staðnum fyrir helgi og hrifust af.
Alexandra Diljá Eiríksdóttir í litlu versluninni.