Fara í efni
Mannlíf

Nýtt hlaðvarp – Innri og ytri sátt mestu lífsgæðin

Lífsgæði felast í því að lifa í bæði innri og ytri sátt, að mati Valgerðar. Sátt við sjálfa sig, við aðra og við náttúruna.

Valgerður H. Bjarnadóttir hefur verið öflug liðskona kvennabaráttu og jafnréttismála í 40 ár, fyrst 20 ár innan „kerfsins“ en síðustu 20 árin sem sjálfstætt starfandi með eigin rekstur undir heitinu: Vanadís, rætur okkar og draumar.

Valgerður er fyrsti viðmælandinn í nýju norðlensku hlaðvarpi, Transformia – Sjálfsefling og samfélagsábyrgð, þar sem fjallað er um hvernig hægt er að bæta eigin lífsgæði á sama tíma og tekin eru skref til góðs fyrir umhverfi og samfélag.

  • Stjórnandi hlaðvarpsins er Auður H. Ingólfsdóttir, sem lesendur kannast við sem pistlahöfund Akureyri.net.

Valgerður er félagsráðgjafi, með meistarapróf í menningarsögu og trúarheimspeki. Hún hefur líka lært um og kynnt sér Shamanisma, sem er hugmyndafræði frumbyggja víða um heim og felur í sér heimsmynd sem rammast inn af sterkum og djúpum tengslum menningarinnar við náttúruna.

Jafnvægi og sátt, bæði innra með sér og við hið ytra, er rauður þráður í allri hennar vinnu og nálgun á lífið. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að samþykkja og skilja bæði myrkrið og ljósið og forðast ekki það sem er erfitt. Sjálf á hún þá erfiðu lífsreynslu að baki að hafa upplifað alvarlegt heimilisofbeldi í nánu sambandi og segir að þó hún óski engum að upplifa slíkt hafi reynslan dýpkað hana, víkkað og hjálpað sér að skilja bæði sjálfa sig og manneskjuna.

Hún leggur áherslu á að til að vinna að breytingum á samfélaginu þurfi að byrja á sjálfum sér:

„Ég breyti ekki heiminum öðruvísi en að hafa á einhvern hátt skapað þá breytingu sem ég vil sjá á heiminum í mér. En þegar ég – eða við – höfum gert það. Þegar við náum að jarðbinda og lifa þá breytingu sem við viljum sjá. Þá erum við raunverulegt afl til þess að breiða þá breytingu út. En ekki fyrr.“

Smellið hér til að hlusta á spjallið við Valgerði á Transformia hlaðvarpinu.