Fara í efni
Fréttir

Nýjárskveðja frá Aflinu

Þegar nýtt ár hefst er ákveðin eftirvænting í sálinni, eitthvað nýtt, einhverjar breytingar eða ný tækifæri. Verða ferðalög framundan? Vinn ég í happdrætti? Eða við finnum til þakklætis fyrir að fá að lifa enn ein áramótin. Minningar hrannast upp og ylja okkur. En líka sorgin vegna þeirra sem ekki náðu þessum áramótum en héldu til annarra heima á árinu eða öðrum árum.

Mörg okkar setjum okkur takmörk fyrir árið, áramótaheit. Nú skal heldur betur tekið á því og draumarnir látnir rætast. Þannig áramót eigum við mörg ... en ekki öll.

Sum kvíða komandi tíma. Lifa í stöðugum ótta við aðilann í sínu nána sambandi. Tekst mér að komast hjá árekstrum við hann? Verður það slæmt? Get ég haldið honum góðum ef ég hef allt fínt og vel þrifið á heimilinu? Ég má ekki segja nei við hann, þá verður hann reiður. Ég verð að sleppa því að hitta vinina, það reitir hann til reiði. Ef ég verð búin að svæfa barnið áður en hann kemur heim, þá kannski verður þetta í lagi. Ef, ef, ef? Fáar minningar að orna sér við, en fleiri af ofbeldi, kúgun, niðurlægingu, öskrum og reiði sambýlingsins.

Alltof margar konur og kvár þekkja þennan ótta, gjörþekkja hann. Auk þeirra, einstaka karlmenn.

Fyrir þetta fólk starfar Aflið. Við erum hér fyrir þig. Ef þú ert ekki viss um hvort það sem þú býrð við er ofbeldi eða ekki, fáðu þá tíma hjá ráðgjafa Aflsins og ræddu málin. Þar færðu ráðgjafa- og stuðningsviðtöl fagaðila sem hafa þekkingu á þolendamiðaðri nálgun og áfallahjálp. Þar geturðu að loknum einstaklingsviðtölum átt kost á að sækja valdeflandi námskeið og tekið þátt í stuðningshópum. Allt þetta miðar að því að þú náir fótfestu á ný.

Ef þú býrð ekki við öryggi heima hjá þér, er Kvennaathvarfið með opinn síma allan sólarhringinn alla daga. Leitaðu ráða hjá þeim.

Bjarmahlíð er opið á dagtíma eins og Aflið og veitir ráðgjöf um næstu skref. Greinir hvaða þjónustu þú óskar eftir og getur komið þér í samband við þá aðila á hraða ljóssins.

Árið 2025 getur líka orðið þitt ár!

Aflið: aflidak.is

Kvennaathvarfið: kvennaathvarf.is