Nýir Ráðhúsgluggar fyrir 42 milljónir
Gluggaskipti hafa staðið yfir í Ráðhúsinu á Akureyri í sumar en verið er að skipta út öllum gluggum hússins fyrir nýja. Elstu gluggarnir eru frá því að húsið var byggt árið 1956. Að sögn Guðríðar Friðriksdóttur, sviðstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, er um eðlilegt viðhald að ræða og er vinna langt komin.
Fjórða hæðin eftir
Frá því að húsið var byggt hefur verið skipt um einhverja örfáa glugga en öllum gluggum verður þó skipt út í einu núna til að fá sama útlit. Alveg á eftir að skipta um glugga á fjórðu hæð og þá er langi glugginn á framhlið hússins einnig eftir en hann verður sá gluggi sem síðast verður skipt um. Auk gluggaskiptanna er að sögn Guðríðar einnig verið að setja upp brunastiga á norðurhlið hússins. Þá segir Guðríður að til standi að mála húsið að utan á næsta ári.
Nauðsynlegt hefur verið að spenna trén frá sem næst standa húsinu þegar vinna hefur farið fram við glugga á fyrstu hæð.
Unnið heima í mesta raskinu
Framkvæmdirnar í Ráðhúsinu í sumar hafa valdið einhverri truflun á vinnufriði í húsinu en starfsmenn hafa leyst það með því að vinna að heiman þá daga sem rask hefur staðið yfir á þeirra deildum. Þá hefur gluggavinnan líka hist vel á því margir starfsmenn hafa líka verið í sumarfríi þegar framkvæmdir hafa staðið yfir. Að sögn Guðríðar er áætlaður kostnaður við gluggaskiptin um 42 milljónir.
Það eru ófáir gluggar í Ráðhúsinu á Akureyri. Verkið er langt komið en fjórða hæðin er eftir.