Ný bílaþvottastöð Löðurs við Grímseyjargötu
„Við erum alveg í skýjunum með að vera búin að opna á Akureyri,“ segir Hörður Ingi Þórbjörnsson, rekstrarstjóri Löðurs, en ný bílaþvottastöð á þeirra snærum opnaði við Grímseyjargötu 2 í desember. „Það er klárlega eftirspurn fyrir norðan og við viljum mæta því.“
Áður var bílaþvottastöð Löðurs við bensínstöð N1 við Hörgárbraut, en fyrirtækið missti húsnæðið á síðasta ári. „Það var alveg svolítill hausverkur að finna nýjan stað,“ segir Hörður. „Það er ekki hægt að setja upp svona stöð hvar sem er, það þarf að vera með ákveðinn búnað sem þarf sérstakar aðstæður.“
„Við auglýsum okkur sem umhverfisvænni bílaþvottastöð, í raun umhverfisvænni en þegar þú þrífur bílinn á planinu heima hjá þér,“ segir Hörður. „Tjaran og efnin sem eru notuð fara þá náttúrlega bara í almennt frárennsli, en við erum með búnað sem skilur þetta frá. Svo erum við með aðila sem kemur og sækir það sem við skiljum frá og fargar á viðeigandi hátt.“
Löður er með þvottastöðvar í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Fitjum í Reykjanesbæ og núna á Akureyri líka. Viðskiptavinir geta greitt snertilaust á staðnum eða í Löður appinu. „Svo erum við með vinsæla nýjung núna sem er í raun áskriftarleið. Þá borgarðu mánaðargjald og þá má koma með bílinn eins oft og þig lystir. Það er í samstarfi við Parka appið, og keypt í gegnum það,“ segir Hörður. Hann bætir við að áskriftin sé orðin mjög vinsæl, en um það bil 4000 manns eru í áskrift á landsvísu hingað til.
„Það sem er í boði á stöðinni eru í raun tveir þvottar, gull og silfur,“ segir Hörður. „Munurinn er sá að það er líka tjöruhreinsun í gullþvottinum. Stundum er talað um sumar- og vetrarþvott, en það er meiri þörf fyrir tjöruhreinsun á veturna. Svo er vert að minnast á að stöðin er snertilaus, það er að segja ekki með neinn búnað sem fer á sjálfan bílinn.“
„Við leggjum áherslu á að það sé ekki tímafrekt að koma með bílinn til okkar,“ segir Hörður. „Það tekur sirka sex mínútur að fara í gegn, þannig að þó að það skapist röð, þá ætti ekki að þurfa að bíða svo klukkutímum skipti.“
„Eins og ég bjóst við, þá voru viðtökurnar frábærar og allt ferlið við uppsetningu stöðvarinnar var unnið í góðum samskiptum við heimafólkið,“ segir Hörður. „Akureyringar mega eiga það að þeir eru gestrisnir. Allir til í að koma og prófa þegar við vorum að stilla vélina og skilningur á því að þetta sé ný vél og við líka að læra.“ Þó að Löður sé með uppsetningateymi sem fer á milli til þess að setja upp, þá var heimafólk líka ráðið í verkefni.
„Við þurftum náttúrlega rafvirkja, pípara, stálsmiði og fleiri sérfræðinga, sem við gátum ráðið á staðnum,“ segir Hörður og er ánægður með gott ferli við uppsetningu stöðvarinnar.
„Mig langar að benda á að við erum með gríðarlega gott þjónustuteymi sem svara í símann og geta aðstoðað með hvað sem er. Það má alltaf hringja í okkur í síma 568-0000,“ segir Hörður Ingi Þórbjörnsson að lokum.