Fara í efni
Menning

Nú mega stjörnurnar fara að vara sig

Pálmi Ragnar við leiði föður síns, Péturs Jökuls Pálmasonar, verkfræðings, í kirkjugarðinum á Naustahöfða. Pétur Jökull varð aðeins 51 árs – var fæddur 1933 og lést 1984.

Akureyringurinn Pálmi Ragnar Pétursson sendi nýverið frá sér ljóðabókina Árniður að norðan. Eins og fram kom í fyrra hluta viðtals Akureyri.net við Pálma í gær hefur hann lengi fengist við að setja saman ljóð og prósa; byrjaði á því þegar mikil sorg knúði dyra fyrir margt löngu. Pálmi hefur hins vegar aldrei birt eigin skrif fyrr en nú, sextugur að aldri.

Faðir Pálma, Pétur Jökull Pálmason, lést skyndilega árið 1984, langt um aldur fram. Pétur var aðeins 51 árs og var fjölskyldu sinni harmdauði. Fráfall hans var gífurlegt áfall og breytti lífinu til frambúðar, sagði Pálmi í gær.

„Það var þarna í sorginni, eftir fráfall pabba, að ég fór að setja saman texta og reyna mig við kveðskap og prósa. Það eru víst fjörutíu ár síðan! Ég hef samið tækifærisvísur í hefðbundnum stíl, ferskeyttar vísur og limrur – svona eins og Íslendingar gera, en ég vildi hafa innihaldið í öndvegi og ekki vera heftur af forminu og því skrifa ég prósa. Svo hef ég lesið þýsku skáldin og gert svolítið af því að þýða úr þýsku á íslensku. Hef líka leikið mér að því að þýða Bubba á þýsku – meira í gamni en alvöru – en Bubbi á það skilið. Var það ekki Sigurður Pálsson ljóðskáld sem sagði að ljóðlist væri eins og myndlist sem langaði að vera tónlist?“

Pálmi Ragnar og Katrín eiginkona hans með synina þrjá á milli sín á heimili þeirra í Garðabæ. Þeir eru, frá vinstri, Pétur Jökull, Pálmi Albert og Matthías Hildir. 

„Á þrítugsaldri fór ég að halda þessu til haga, skrifa í skúffuna, og þá vissi ég innra með mér að ég myndi gefa út ljóðabók einhvern tímann á ævinni. Fólkið mitt hvatti mig, konan mín og tengdafaðir sérstaklega. Sá góði maður Matthías Frímannsson heitinn. Fæddur í Grímsey og alinn upp í Hrísey. En þetta er þó á endanum undir manni sjálfum komið. Hefur maður þörf til þess að fara á þessi mið? Vill maður það? Það varð vonum seinna en hér er hún komin í dóm ljóðunnenda og lesenda,“ segir Pálmi.

Námskeið hjá Þorvaldi uppljómun

„Einnig vil ég nefna, að konan mín gaf mér námskeið í ritlist hjá listamanninum Þorvaldi Þorsteinssyni fyrir 12 árum. Það var opinberun og þar fékk ég örvun og hvatningu. Síðan hef ég sótt ritsmiðjur þar sem ég hef fengið frekari hvatningu og þjálfun, meðal annars hjá Ásdísi Káradóttur.

Var eitthvað sérstakt sem varð til þess að þú tókst skrefið og gafst út núna? Ef til vill sextugsafmælið í sumar?

„Já, það hafði áhrif. Ef ég ætlaði að gefa út bók, þá var það núna. Ég hóf undirbúning fyrir ári og lauk við bókina síðasta vetur. Í vor hafði ég svo samband við minn góða vin Tómas Hermannsson, Tomma í Sögum, félaga í skák- og menningarfélaginu Mátum, Akureyring par excellence, sendi honum handritið og þá fóru hjólin að snúast. Að sjálfsögðu voru það svo Mátar mínir sem lásu próförk að ljóðabókinni. Miklir vinir og snillingar.“

Í bókinni er mjög fallegt ljóð um pabba þinn. Eru ljóðin að miklu leyti einhvers konar sögur úr fortíðinni, endurminningar?

„Kærar þakkir. Þetta prósaljóð um pabba, Lúðurinn, kom einn morguninn í upphafi aldar. Ég settist og skrifaði það niður. Las yfir og fór að gráta. Sendi systkinum mínum, sem táruðust öll við lesturinn. Skáldskapur er sameign okkar allra, enginn á hann en skáldin og þeir sem það vilja verða, leggja sig eftir honum. Skrá þetta sammannlega, reynslu okkar sem oft er keimlík í sorg og gleði. Það að setja sig í spor einhvers annars er öllum hollt, samúð og samhygð eru fallegar tilfinningar og góðar.“


Lúðurinn

Ég minnist þess gjarnan

þegar pabbi kallaði okkur
bræður inn frá útileikjum æskunnar.
 
Þá gekk hann út á svalir blokkarinnar
og blés í lófa svo gall við
líkt og í löngum alpalúðri.
 
Hljóðið barst um allt Þorpið
daladrög þess og heiðar
jafnvel yfir Glerána.
 
Hvar sem við stóðum
litum við hvor á annan.
Þetta hljóðmerki þekktum við.
Það var tími til að fara heim.
 
Nú hefur hann verið hljóður lengi
sá æskunnar ómur.
En oft dreymir mig hann
og sakna tónarans
sem hvarf af lífsins svölum
svo snemma.
 
Einhvern tímann gellur hann við aftur
hinn ljósi lúðurhljómur.
Þá mun ég leggja frá mér verkfæri mín
og hlýða kalli.
 
Þá verður aftur tími til að fara heim.
 

Pálmi við sextugsafmælisgjöfina frá fjölskyldunni, forláta stjörnusjónauka að gjöf frá fjölskyldunni. Gáir þarna til sólar, segir hann, og kveðst hafa saknað hennar í sumar ...  

Ástin og dauðinn
 

Er einhver þráður í ljóðunum, gegnumgangandi stef – Akureyri, þú og þitt fólk? Eða ferðu um víðan völl?

„Ástin og dauðinn, hin endalausa uppspretta. Árniður að norðan er sannarlega bók að norðan en þó kem ég víða við. Sum ljóðanna eru ort á ferðalögum; önnur hafa dvalið með mér lengi. Hughrif og myndir sem ég hef dregið upp á lífsins vegi. Gleráin niðar þarna undir eins og dróttkvæður háttur eins og Helgi Indriðason frændi orðaði það og ef svo er, þá eru þau flutt konungi tíma, Rex Tempore. Við erum víst öll í hirð hans, hlítum honum og hlýðum. Annar frændi minn segir aftan á bókarkápu að ljóðin mín séu engin Eddukvæði og það eru orð að sönnu. Hvort ég er skáld eins og hann heldur þar fram er spurning sem hver og einn lesandi verður að gera upp við sig.“

Er bókin ef til vill einskonar uppgjör við þessi fyrstu 60 ár?

„Svona að einhverju leyti. Þrjátíu ljóð á sextíu árum; hljómar eins og þrítugur hamar í veldi skáldskapar þar sem allt er mögulegt, meira að segja að sextugur verkfræðingur sendi frá sér fyrstu ljóðabók sína , skjálfandi á beinunum yfir viðbrögðunum! Ég er sannarlega að fara út fyrir þægindarammann – leggja ljóð mín í lesenda dóm – og sjálfsagt kemur það mörgum á óvart að verkfræðingur sendi frá sér ljóðabók en verum minnug þess að allt er í öllum og í það minnsta ein ljóðabók í sérhverju okkar. Nú hefur konan mín, sem er hjúkrunarfræðingur á hjartadeild og myndlistarkona – portrettið á kápu er eftir hana – sett mér fyrir að ljúka við næstu ljóðabók áður en ég ... verð allt of gamall!“

Stjörnurnar

Hvað sem verður, segir Pálmi, er hann sáttur við útkomuna. „Ljóðin eru öðrum þræði fortíðarþrá, minningar úr æsku, frá gömlu Akureyri, frá því allt var svo stórt, eins og minning mín af því þegar ég fór með pabba í Sundlaug Akureyrar í fyrsta skipti kornungur og hann missti tak á mér í tröppunum niður í gamla heita pottinn og ég fór á bólakaf, pabbi var fljótur að ná taki á mér aftur og hífa mig upp fyrir yfirborðið. Þá varð aftur allt gott.“

Á menntaskólaárunum ól Pálmi með sér þann draum að verða stjörnufræðingur, eins og kom fram í gær. Hin elsta af vísindagreinunum heillaði og Þórir Sigurðsson, kennari og stjarneðlisfræðingur, náði vel til hans.

Hann fetaði þó aðra braut og verkfræðingurinn verður varla stjörnufræðingur úr þessu. Að minnsta kosti ekki formlega en áhuginn er enn fyrir hendi og ákveðið ævintýri í lífi áhugamannsins hófst í sumar.

„Þegar ég varð sextugur í ágúst fékk ég forláta stjörnusjónauka að gjöf frá fjölskyldunni. Kíki sem ég veit að ég mun nota mikið. Það er mikil rómantík fólgin í stjörnuskoðun og stjörnuhimninum og fátt kennir okkur betur auðmýkt eða sýnir örsmæð okkar og mikilvægi þess að vernda hvert annað og gæta að öllu lífi. Það virðist vera sjaldgæft í hinu stóra gímaldi.“

Nú mega stjörnurnar fara að vara sig!