NPA miðstöðin hefur opnað útibú á Akureyri

NPA miðstöðin hefur opnað nýtt útibú miðstöðvarinnar á Akureyri, nánar tiltekið á 6. hæð í Hafnarstræti 97, á sama stað og Grófin geðrækt. Þar er aðstaða til þess að taka á móti fólki, halda fundi og sinna fræðslu. Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar getur einnig nýtt aðstöðuna til þess að taka atvinnuviðtöl, halda starfsmannafundi, skipuleggja fræðsluerindi o.fl., segir í fréttatilkynningu frá NPA miðstöðinni. Útibúið er það fyrsta utan höfuðstöðvanna, sem eru við Urðarhvarf í Kópavogi.
Breki Arnarson, ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni verður með fasta viðveru á skrifstofunni á Akureyri. Breki er menntaður vinnusálfræðingur og hefur starfað sem NPA ráðgjafi hjá miðstöðinni frá janúar 2023. Hans helsta hlutverk verður að veita félagsfólki NPA miðstöðvarinnar á Norðurlandi og Vestfjörðum ráðgjöf og aðstoðarfólki þess, auk þess að byggja upp starfsemi miðstöðvarinnar á Norðurlandi.
Með opnun skrifstofunnar á Akureyri gefst NPA miðstöðinni nú enn betra tækifæri til þess að veita öfluga nærþjónustu við félagsfólk sitt á Norðurlandi en áður. Fulltrúar NPA miðstöðvarinnar hlakka mikið til að styrkja enn frekar sambandið við félagsfólk miðstöðvarinnar á landsbyggðinni og að geta einnig verið til staðar fyrir fatlað fólk sem hefur áhuga á að fræðast meira um NPA og fá ráðgjöf um allt sem því við kemur.
Fyrir frekari upplýsingar, eða ósk eftir ráðgjöf, er hægt að hafa samband við Breka. Síminn er 570 7243, og netfangið breki@npa.is.
Ef það eru lesendur sem ekki þekkja til NPA, þá er hér útskýring á því, fengin af vefnum www.npa.is
Notendastýrð persónulega aðstoð (NPA) er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Fatlað fólk stýrir því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvað aðstoð er veitt við, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana.