Fara í efni
Menning

Nostalgía og glimmer á teiknimyndatónleikum

Jónína Björt er spennt að færa okkur fjölskyldusýninguna 'Teiknimyndalögin okkar'. Mynd: aðsend

Á morgun gefst tækifæri til að hverfa inn í heim teiknimyndanna með Rún viðburðum, þar sem fjölskyldusýningin 'Teiknimyndalögin okkar' verður sýnd. Það er hún Jónína Björt Gunnarsdóttir sem á hugmyndina, en hún segist hafa verið að hugsa um það lengi, hvað það væri gaman að setja þessi ástsælu lög sem flestir krakkar þekkja á svið í Hofi. Svo ekki sé talað um fullorðna fólkið, en mörg eigum við eflaust einhverjar uppáhalds teiknimyndir. Sýningin verður í Hamraborg í Hofi, kl. 16.00 á morgun, sunnudag.

„Gestir mega búast við gleði, glimmeri, dansi, söng og leik,“ segir Jónína spennt. „Litríkir búningar og sviðsmynd og bara gott í hjartað. Fyrir mína kynslóð og næstu kannski fyrir ofan mig er þetta svo ótrúlega mikil nostalgía þegar klassísku lögin koma, þú ferð svona óvart að syngja með. Í bland er svo líka nýrri lög úr t.d. Frozen og Trolls svo tónleikarnir eru fyrir breiðan aldurshóp.“

 

Arnþór Þórsteinsson, leikari og söngvari tekur þátt í sýningunni. Einnig Kolbrún Lilja Guðnadóttir leikkona. Búast má við að heyra eitthvað úr Konungi ljónanna, en Jónína segir að það sé ómögulegt að sleppa 'Hakuna matata'. Myndir: aðsendar/ netið

Fjölmenn sýning

„Ég byrjaði að spá í þessu 2018, og gerði fyrsta lagalistann þá,“ segir Jónína Björt við blaðamann Akureyri.net. „Hann hefur tekið ýmsum breytingum síðan, það er til svo mikið af ofsalega fallegum lögum í teiknimyndum og það var svo erfitt að gera upp á milli allra þessara laga. Ég gat ómögulega valið lag úr Tarzan, til dæmis, þannig að við gerðum bara syrpu þar sem snert er á 3 lögum.“

„Þar sem ég fer ekkert af stað í svona verkefni nema að gera það hundrað prósent, þá erum við auðvitað með 5 manna hljómsveit, 4 dansara, 11 manna kór, 3 einsöngvara, sögumann og eina 11 ára ofurdömu í söng, dansi og leik,“ en ásamt Jónínu eru flytjendur á tónleikunum þau Arnþór Þórsteinsson, Magni Ásgeirsson, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Sönghópurinn Rok og Rakel Heiða Björnsdóttir, en það verður gaman að sjá hana spreyta sig, hún er aðeins 11 ára gömul. 

Fékk styrki til þess að koma verkefninu áfram

Það var loksins eftir að Jónína fékk styrk til þess að hrinda verkefninu í framkvæmd, að þessi draumur frá 2018 kemst á fjalirnar. „Ég fékk stærðarinnar styrk frá Verðandi, listsjóði MAk. Í kjölfarið fékk ég styrk frá KEA, Skógarböðunum og Kjarnafæði svo það var ekkert annað í stöðunni en að kýla loksins á þetta verkefni. Akureyrarbær er líka að styrkja okkur og svo höfum við verið heppin að fá búninga lánaða hjá STEPS og aðstöðu til að æfa í DSA.“

„Til að ég geti búið til töfraveröldina á sviði og í búningum fékk ég snillinginn Margréti Sverrisdóttur til þess að hjálpa mér,“ segir Jónína. „Hún er alveg búin að bjarga mér og hjálpa mér svo mikið með allskonar hugmyndir fyrir sviðið, búningana og svo aðstoðar hún mig líka í að leikstýra því sem þarf að leikstýra.“

 

Magni Ásgeirsson, nýkrýndur söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokki rokks/popps/hipp hopps tekur þátt. Rakel Heiða Björnsdóttir er aðeins 11 ára, en hún syngur í sýningunni líka. Myndir: aðsendar

Fleiri þáttakendur:

  • Dansari og danshöfundur: Eydís Gauja Eiríksdóttir
  • Dansarar: Jóhanna Bjarkardóttir Lind, Helga Ólafsdóttir & Elfa Rún Karlsdóttir.

Hljómsveitina skipa:

  • Þórður Sigurðarson á píanó
  • Eyþór Alexander Hallson á píanó
  • Stefán Gunnarsson á bassa
  • Valgarður Óli Ómarsson á trommur
  • Hallgrímur Jónas Ómarsson á gítar