Norðurhjálp: „Við erum ekkert af baki dottnar!“
Sjálfboðaliðarnir í nytjamarkaðnum Norðurhjálp eru ekki nálægt því að leggja árar í bát, þó að sverfi að. Húsnæði þeirra að Dalsbraut 1 hefur hentað frábærlega fyrir markaðinn, en því miður var leigusamningnum sagt upp nýverið. „Við þurfum að vera farin út 28. febrúar,“ segir Sæunn Ísfeld, ein af stofnendum Norðurhjálpar, við blaðamann Akureyri.net. „Það eru vissulega ekki gleðifréttir, en bjartsýnin ræður ríkjum og við erum alveg viss um að finna hentugt húsnæði í staðinn.“
Viðskiptavinir okkar og skjólstæðingar eru dásamlegasta fólk í heiminum
Sæunn stofnaði Norðurhjálp ásamt Stefaníu Fjólu, Guðbjörgu Thorsen og Önnu Jónu Vigfúsdóttur í október árið 2023. Markaðurinn var opnaður og starfræktur fyrstu mánuðina að Hvannavöllum, í gamla Hjálpræðishershúsinu, en flutti í núverandi húsnæði í júní síðastliðnum. „Viðskiptavinir okkar og skjólstæðingar eru dásamlegasta fólk í heiminum,“ segir Sæunn. „Við fáum mörg skilaboð á dag frá þeim, með hugmyndum að nýju húsnæði eða tilboði um geymslurými ef til þess kæmi.“
F.v. Anna Jónu Vigfúsdóttir, Stefanía Fjóla, Guðbjörg Thorsen og Sæunn Ísfeld, stofnendur og sjálfboðaliðar Norðurhjálpar. Myndin var tekin á opnunardegi Norðurhjálpar við Dalsbraut. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Starfsemin helst óbreytt út mánuðinn
Sæunn segir að það verði óbreytt starfsemi hjá þeim stöllum út mánuðinn, en ennþá er tekið við hlutum til endursölu. Eins eru þau ennþá að útvega fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á hjálp að halda, í formi korta í matvörubúðir. Á árinu 2024 gaf Norðurhjálp 26 milljónir til efnaminni bæjarbúa, ýmist í formi inneignarkorta, fatnaðs eða matar. „Við gætum náttúrulega þurft að loka í einhvern tíma á meðan við flytjum, en það verður vonandi ekki langur tími,“ segir Sæunn. „Ég býst við að við verðum svo með einhverjar pokasölur eða eitthvað slíkt undir lok mánaðarins.“
Starfsfólk Norðurhjálpar vinnur allt sitt starf endurgjaldslaust, en það sem þau myndu þiggja akkúrat núna, er dálítið gott karma og ábendingar um hugsanlegt húsnæði fyrir markaðinn. Sæunn segir að 300-400 fermetrar séu nauðsynlegir, en núverandi húsnæði er 400 fermetrar og mætti vart minna vera.
HÉR er Facebook síða Norðurhjálpar, ef lesendur eru með ábendingu.
Einnig er hægt að hafa samband í tölvupósti á nordurhjalp@gmail.com.
Nóg er til af fallegum og forvitnilegum hlutum á nytjamarkaði Norðurhjálpar. Nokkrar myndir frá markaðnum í dag fylgja hér með: