Fréttir
Norðurhjálp opnuð á ný í dag – við Dalsbraut
21.06.2024 kl. 09:25
Norðurhjálp opnar aftur í dag, í nýju húsnæði við Dalsbraut. Mynd: Facebook
Eftir mikla leit að nýju húsnæði er nytjamarkaðurinn Norðurhjálp loksins að opna á ný eftir að lokað var í apríl síðastliðnum. Þá var markaðurinn til húsa við Hvannavelli, í Hjálpræðishershúsinu sem stendur til að rífa. Nýja heimilisfangið er við Dalsbraut 1 og þar eru sjálfboðaliðar Norðurhjálpar komnir í stærra pláss en áður, en plássleysi háði þeim svolítið við Hvannavellina.
Opnunarhátíð verður haldin í dag, föstudaginn 21. júní kl. 13.00 og boðið verður upp á léttar veitingar. Norðurhjálp tekur við og selur allskyns notaðar vörur; fatnað, heimilisbúnað, einhver húsgögn, bækur, smádót, listaverk og margt fleira. Allur ágóði fer í að styrkja einstaklinga og fjölskyldur á svæðinu sem ekki hafa mikið á milli handanna. Í lýsingu opnunarviðburðarins á Facebook segir að frá því að Norðurhjálp opnaði þann 23. október á síðasta ári, hafi um það bil 6 milljónum króna verið útdeilt til fólks í formi innkaupakorta í Bónus og Nettó.
Stofnendur Norðurhjálpar þiggja ekki laun fyrir störf sín, en það eru þær Sæunn Ísfeld, Stefanía Fjóla, Guðbjörg Thorsen og Annu Jónu Vigfúsdóttir, sem allar hafa um árabil tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi.
Leiðbeiningar varðandi staðsetningu nýrrar verslunar Norðurhjálpar. Mynd af Facebook.