Norðanmenn fengu brons á Íslandsmótinu
Þrír Akureyringar og Mývetningur, búsettur í höfuðstað Norðurlands í árafjöld, hlutu bronsverðlaun í sveitakeppni Íslandsmótsins í bridge um nýliðna helgi.
Bronsdrengirnir eru Pétur Guðjónsson, Frímann Stefánsson, Reynir Helgason og sá úr Mývatnssveitinni, Björn Þorláksson. Sveitin keppti í nafni Kjöríss.
Að þremur spiladögum loknum var sveit Kjöríss ein fjögurra efstu og keppti því til úrslita. Þar fóru norðanmenn afleitlega af stað, töpuðu fyrstu viðureign með miklum mun en bitu í kjölfarið í skjaldarrendur, eins og Björn orðar það, unnu tvo síðustu leikina með töluverðum mun og þar með var bronsið þeirra. Aðeins munaði einum impa að Kjöríss-piltarnir hrepptu silfrið, svo mjótt var á munum. Þetta skilja þeir sem kunna bridge!
Sveit Infocapital varð Íslandsmeistari. Einn liðsmanna hennar var Akureyringurinn og landsliðsmaðurinn Sigurbjörn Haraldsson. Sveit Tick Cad endaði í öðru sæti.
Langt er síðan sveit norðan úr landi hefur gert það jafn gott á Íslandsmótinu, sterkasta móti ársins, og vert að geta þess að Reynir, Frímann og Björn spreyttu sig nú allir í fyrsta skipti í fjögurra sveita úrslitum. Pétur, einn öflugasti bridgespilari landsins, er hins vegar margfaldur Íslandsmeistari.
Rétt er að nefna að fjórir fyrrnefndir spiluðu alla úrslitakeppnina fyrir Kjörísliðið en þrenn pör skipuðu hin liðin, þannig að eitt þeirra fékk reglulega hvíld. Þetta reyndi á úthald Norðlendinganna, að sögn Björns Þorlákssonar, en hinn mikli, norðlenski baráttuvilji reyndist dýrmætur og ekki síður góður liðsandi í sveit Kjöríss. Svo skemmtilega vildi til að úrslit réðust á afmælisdegi Björns og bronsverðlaunin því enn ánægjulegri en ella í hans augum. „Það var sérlega skemmtilegt að verðlaunin kæmu loks á degi þegar ég átti afmæli. Félagar mínir eiga stærstan þátt í skemmtilegustu afmælisgjöf lífs míns. Þeir spiluðu allir frábærlega,“ sagði Björn við Akureyri.net og bætti við í léttum dúr: „Ég var nú svona og svona!“
Hvað sem hógværð afmælisbarnsins líður er ástæða til þess að óska fjórmenningunum öllum til hamingju með bronsið.