Fara í efni
Fréttir

Máltíðirnar: Niðurstaða um eða eftir helgi

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpar nemendur þegar nýtt leiksvæði við Síðuskóla var tekið í notkun. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir það ekki komið á hreint hvernig útfærslan verður á „fríum skólamáltíðum“, í framhaldi af umfjöllun á Akureyri.net fyrr í dag og fyrirspurn um það hvort þær feli í sér eingöngu hádegisverð eða aðrar máltíðir, svo sem morgun- og síðdegishressingu. Hins vegar hafi ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga lofað niðurstöðu varðandi þetta atriði um eða eftir helgina.

Ásthildur leggur áherslu á að nú sé beðið eftir þessari niðurstöðu og Akureyrarbær muni að sjálfsögðu fara eftir því sem þar kemur fram.

Aðeins hádegisverðurinn er skylda

Í þessu sambandi skiptir mögulega máli að sveitarfélögunum er ekki skylt samkvæmt grunnskólalögum að bjóða upp á aðrar máltíðir en hádegisverð. Þangað til með lagabreytingu í vor í framhaldi af undirritun kjarasamninga var sveitarfélögunum skylt að bjóða upp á hádegisverð og höfðu heimild til að innheimta gjald fyrir það, en þeirri heimild var breytt vegna samkomulags um fríar skólamáltíðir. Hvað varðar annað en hádegisverð er það ákvörðun hvers sveitarfélags fyrir sig hvað annað er í boði í grunnskólunum.

Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að hafragrautur að morgni er nú þegar nemendum að kostnaðarlausu í grunnskólum Akureyrar. Einnig ber að hafa í huga að hressing í frístund er mjög mismunandi á milli skóla og bæjarfélaga.

Þarf að endurreikna framlag ríkisins?

Framlag úr ríkissjóði á landsvísu er 1.725 milljónir króna á síðustu fjórum og hálfum mánuði þessa árs, eins og fram kom í frétt Akureyri.net fyrr í vikunni. Við útreikning á þessu framlagi er aðeins tekið mið af kostnaði vegna hádegisverðar í grunnskólum, eftir því sem næst verður komist, þannig að ef niðurstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga verður sú að miða við allar máltíðir í grunnskólunum þarf væntanlega að fara fram að nýju samtal milli sveitarfélaganna og ríkisins um fjárhæðir.