Fara í efni
Fréttir

Neytendasamtökin halda fræðslufundi um land allt

Mynd: Heimasíða Neytendasamtakanna

Sterkir, öruggir og fróðir neytendur eru forsenda fyrir heilbrigðu hagkerfi, öflugu atvinnulífi og sjálfbærri þróun í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti,“ segir í stefnu Neytendasamtakanna á heimasíðu þeirra. Stór hluti af starfi samtakanna felst í samtali og fræðslu við fólkið í landinu, neytendur.

Í byrjun maí ætla samtökin að fara í ferð um landið og halda opna fundi. Hér á Akureyri verður boðið til fundar á Kaffi LYST í Lystigarðinum, þann 6. maí kl. 17. Í fréttatilkyninngu frá samtökunum segir að tilgangur ferðarinnar sé að efna til samtals um neytendamál við neytendur og sveitarstjórnir vítt og breitt um landið. Samtökin ætla að kynna sér helstu mál sem brenna á fólki á landsbyggðinni og segja frá baráttumálum sínum og þann ávinning sem sterkur hagur neytenda færir fólki, fyrirtækjum og samfélaginu öllu.

Umræðuefnin eru fjölmörg: heildarstefnumótun í neytendamálum, samkeppnismál, flutningskostnaður, raforkuöryggi og -verð, dýrtíðin og svo mætti lengi telja. Auk opinna funda með neytendum verður fundað með á annan tug sveitarstjórna víðs vegar um landið.
 
Hér er linkur á viðburðinn á Akureyri: Neytendasamtökin á LYST