Fara í efni
Fréttir

Neyðarkallinn í ár með skíðagleraugu og skóflu

Sjálfboðaliðar frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, selja Neyðarkallinn næstu daga. Þær Claudia og Hrafnhildur stóðu vaktina við Bónus Kjarnagötu í dag. Þess má geta að jörgunarsveitin Súlur fagnar 25 ára afmæli sínu í dag.

Sala á Neyðarkalli björgunarsveitanna hófst í dag. Er þetta í 19. skipti sem almenningi er boðið að styðja starf björgunarsveitanna með kaupum á Neyðarkallinum.

Seldur í fimm daga

Sjálfboðaliðar frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, voru mættir til að selja Neyðarkallinn við stórverslanir á Akureyri í dag en salan stendur til 3. nóvember.

Claudia Lobindzus stóð vaktina fyrir framan Bónus við Kjarnagötu ásamt Hrafnhildi Ingvarsdóttur. Hrafnhildur er á nýliðanámskeiðinu hjá Súlum,  en Claudia, sem hefur verið í meðlimur í Súlum í fimm ár, segist ekki vera mjög virk í starfsemi sveitarinnar en missi þó aldrei af sölu Neyðarkallsins. Miðað við reynsluna undanfarin ár klárast salan yfirleitt fyrir hádegi á laugardag að sögn Claudiu, svo þeir sem vilja eignast eintak af Neyðarkallinum ættu ekki að hugsa sig of lengi um. 

Margir safna Neyðarkallinum en hægt er að kaupa eldri eintök á heimasíðu Landsbjargar. 

Með skíðagleraugu og skóflu

Neyðarkallinn er árlegt fjáröflunarátak björgunarsveitanna og eru það sjálfboðaliðar frá björgunarsveitunum sem selja hann um land allt.  Neyðarkallinn er aldrei eins frá ári til árs og að þessu sinni er hann með skíðagleraugu á höfði og með skóflu í hönd. 

Þá er hægt að kaupa stóran Neyðarkallinn með því að senda Súlum skilaboð á Facebook eða póst á medstjorn1@sulur.is en eins og sjá má á Facebooksíðu Súlna þá  hafa nú þegar nokkur fyrirtæki keypt slíkan kall og styrkt þar með björgunarsveitina. 


Claudia frá björgunarsveitinni Súlum tekur alltaf þátt í árlegri sölu Neyðarkallsins. Sjálfboðaliðar verða við stórmarkaði við sölustörf næstu daga. 


Stefna er eitt þeirra fyrirtækja sem keypt hafa stóran Neyðarkall. Skúli Árnason, til vinstri, og Björn Gíslason, framkvæmdastjóri Stefnu. Mynd: Facebooksíða Súlna