„Náttúra Íslands heillaði mig mest“
Yfir kaldan eyðisand, einn um nótt ég sveima... segir í vísunni sem við þekkjum flest. Hálendið okkar og auðnir Íslands eru í senn heillandi og ógnvekjandi. Hvað gerist þarna þegar enginn sér? Lyftast jöklarnir upp? Lifnar eitthvað við? Týnist einhver? Ný og forvitnileg sýn á líf og tilveru hálendisins er nú til sýnis í menningarhúsinu Hofi, þar sem listakonan Rebekka Kühnis hefur opnað sýninguna 'Hverfult'. Hún er upphaflega svissnesk, en Ísland hefur náð tökum á henni. Svo rækilega, að nú býr hún hérna alkomin, og málar ævintýralegt landslag eldfjallaeyjunnar eins og hún hafi alla tíð átt að gera það.
„Ég hef aldrei málað fólk,“ segir Rebekka. „Það hefur alltaf verið rými, náttúran og einhverjar línur sem ég hef leitað í. Þegar ég var yngri voru þessar línur og tilfinning fyrir dýpt og rými komnar til mín, en ég var enn leitandi að viðfangsefni. Það var ekki fyrr en ég kynntist náttúrunni á Íslandi, sem ég fann það sem heillaði mig mest.“ Í dag býr listakonan í Vaðlaheiðinni, í óvenjulegu húsi sem hún hannaði sjálf með góðri aðstoð. Þar hefur hún hreiðrað um sig í faðmi heiðarinnar, og tekur á móti blaðamanni ásamt hundinum sínum Drífu, sem eltir hana eins og skugginn.
Hús Rebekku rís upp fyrir trjátoppana í grónum hlíðum Vaðlaheiðarinnar og þannig fær hún bæði huggulegan faðm skógarins og glæsilegt útsýni yfir fjörðinn á sama stað. Mynd RH
Sýning Rebekku var opnuð í Hofi í október og mun prýða veggi menningarhússins til 9. janúar. „Ég er ekki bara að mála, ég er líka að kenna í Hrafnagilsskóla,“ segir Rebekka. „Þar er ég bæði að kenna smíðar og myndlist. Það er eiginlega svolítið fullkomið, ég held að ég yrði mjög skrítin ef ég væri alltaf á vinnustofunni! Það er ekki mjög félagslegt og ég sekk mér alveg í myndirnar mínar. Svo er Hrafnagilsskóli yndislegur vinnustaður.“
Ég var alltaf svolítið ranglega staðsett í Sviss
Rebekka er fædd og uppalin í Sviss, en flutti til Íslands árið 2015. Hún er menntuð sem myndlistarkennari á framhaldsstigi og vann við kennslu í tólf ár í heimalandinu áður en hún flutti endanlega til Íslands. Kynni hennar við landið hófust þó nokkuð fyrr, þegar hún kom til landsins tvítug að aldri árið 1997 til þess að vinna við hestamennsku og ferðaþjónustu rétt fyrir utan Höfn í Hornafirði. Óhætt er að fullyrða, að eyjan kalda náði tökum á henni strax.
Sýning Rebekku í Hofi verður uppi til 9. janúar. Viðfangsefnið sækir hún allt í íslenska náttúru. Mynd: Facebook
Íslenski hesturinn og ferðaþjónusta á Höfn í Hornafirði
„Ég frétti af Íslandi hjá danskri vinkonu sem gerði alltaf allskonar hluti sem enginn annar gerir,“ rifjar Rebekka upp. „Við vorum báðar í hestum og hún hafði komið til Íslands til þess að vinna á bóndabæ með hesta. Ég elti hana og sé ekki eftir því, vegna þess að mér leið strax eins og ég væri komin heim. Ég var tvö sumur í vinnu á Íslandi, og nýtti tækifærið til þess að ferðast eins og ég mögulega gat um landið á meðan. Ég var alltaf svolítið ranglega staðsett í Sviss.“
Ég þarf eitthvað villt og spennandi, þar sem er ekki búið að ákveða allt og skapa allt. Eitthvað lifandi.
„Áður hafði ég alltaf verið eitthvað leitandi. Eitthvað ótengd,“ segir Rebekka. „Ég tók eftir því, að óvissan og hræðslan við að deyja hvarf alveg hérna á Íslandi, sem dæmi. Mér fannst ég í miklu meiri sátt við náttúruna og umhverfið. Ég upplifði þessa sátt ekki í Sviss. Fjöllin þar eru svo þung, stíf og há. Einhver ósveigjanleiki.“ Rebekka talar um að það einkenni líka Sviss, hvað allt sé fínt og skipulagt. Leiðinlegt. „Ég þarf eitthvað villt og spennandi, þar sem er ekki búið að ákveða allt og skapa allt. Eitthvað lifandi.“
Ísland er einn af fáum stöðum þar sem fullkomin einvera með náttúrunni er auðveldlega innan seilingar. Hér hefur Rebekka hreiðrað um sig við rætur hafsins. Mynd: aðsend.
„2012 ákvað ég að koma til baka til Íslands til þess að ganga um hálendið,“ segir Rebekka, en hún tók þáverandi kærasta með sér. „Þá upplifði ég landið alveg upp á nýtt, en ég elska að væflast um og reyna að lesa kort. Uppáhalds svæðið mitt er Fjallabak.“ Eftir þessa heimsókn gekk Rebekka í gegn um ýmsar persónulegar breytingar og tók sér þriggja mánaða frí frá vinnu til þess að koma aftur til Íslands. Þá gekk hún ein um landið með tjald á bakinu og lét stjórnast af veðurspánni og hvatvísinni eins og sönnum Íslendingi sæmir.
Það er gaman að týnast
„Ég hafði eiginlega engan áhuga á því að ganga í Sviss,“ segir Rebekka. „Þannig að þetta var alveg nýtt, þessi þörf fyrir að ganga og upplifa náttúruna í eigin persónu. Ég keypti mér almennilegan göngubúnað og kort, en ég er ekki mjög tæknileg og nota ekki GPS. Enda hef ég margoft týnst! En mér finnst gaman að týnast og ég passa bara að hafa nóg af mat og gott tjald. Ég hef aldrei lent í neinum stórkostlegum vandræðum.“ Rebekka segist ekki ákveða neina sérstaka leið sem hún ætlar að ganga, heldur leyfir hún innsæinu að ráða ferð. Hún tekur fram að hún hafi keypt sér mjög góðan búnað og verið vel búin af vistum, en hún hvetur að sjálfsögðu til ábyrgra ferðalaga þó að henni þyki gaman að týnast!
Íslensk auðn öðlast nýtt líf með pensli Rebekku. Þessi mynd er á sýningunni 'Hverfult' í Hofi. Mynd: mak.is
Eftir þessa heimsókn fór að bera á tilvísunum í íslenskt landslag í myndlist Rebekku. „Ég tók mikið af ljósmyndum í gönguferðunum mínum,“ segir hún. „Svo þegar ég kom næst til Íslands leigði ég litla íbúð í húsinu í Hafnarstræti þar sem tónlistarskólinn var einu sinni. Það var eiginlega minn uppáhalds tími í myndlist af því að ég hafði saknað Íslands svo mikið og þarna gat ég verið tímunum saman að búa til stórar kúlupennateikningar sem ég byggði á ljósmyndunum. Ég var einfaldlega komin aftur á staðinn þar sem myndin var tekin í huganum.“ Rebekka segir að hún sakni þess stundum í dag að upplifa þessa þrá. „Maður fer alltaf að taka því sem sjálfsögðum hlut sem maður umgengst alla daga! En ég sakna alltaf hálendisins þegar ég er ekki þar.“
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Rebekku. Seinni hlutinn birtist á morgun á Akureyri.net. Þá heyrum við meira um listsköpun og náttúrutengingu listakonunnar.
- Á MORGUN – „Er eitthvað á bak við það sem ég sé?“