Fara í efni
Fréttir

N4 og fréttafólk RÚV úti á landi verði TV2

María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri sjónvarpstöðvarinnar N4 á Akureyri, lagði til í erindi til fjárlaganefndar Alþingis nýverið að stofnuð yrði sjónvarpsstöð, TV2 að danskri fyrirmynd, þar sem N4 sameinaðist því „litla sem er eftir af landsbyggðarfréttafólki RÚV“ á Akureyri og Austurlandi.

Í sama bréfi, sem María sendi frá Kaupmannahöfn 1. desember, óskaði hún eftir 100 milljóna króna styrk til N4 sem fjárlaganefnd samþykkti og vakið hefur miklar deilur. Fjallað verður um það mál í annarri frétt.

María segir í áðurnefndu erindi að ef ekki eigi að „kasta burt allri umfjöllun utan af landi þarf að grípa til úrræða eins og Danir framkvæmdu í þessari sömu stöðu og þeir voru í árið 1985. Þá stóð til að loka einu landsbyggðastöð DR og reis upp gífurlega mikil mótmælaalda. Lagt var fram frumvarp 1986 þar sem ákveðið var að búa til TV2 sem að hluta yrði ríkisrekin og hluta til rekin á auglýsingafé en skilyrði að hún væri með höfuðstöðvar úti á landi.“

María segir danska ríkisútvarpið, DR, ekki á auglýsingamarkaði heldur sinna sínu lögbundna hlutverki. „TV2 og DR eru í hörku samkeppni um áhorf og gerð vandaðra frétta og fréttaskýringa sem að sögn þeirra gerir allt fjölmiðlastarf faglegra og betra,“ skrifar María Björk og leggur fram þessar tillögur:

  • Skattleggja erlendar veitur um 6% líkt og Danir eru að fara að gera.
  • Nota hluta þeirra tekna til að tryggja að RÚV framleiði enn meira íslenskt efni og vandaðri fréttir og fréttaskýringarþætti
  • Taka RÚV af auglýsingamarkaði og gera þannig frjálsum stöðvum kleift að lifa og vera í samkeppni við RÚV.
  • Stofna TV2 með höfuðstöðvar á Akureyri og sameina þar undir það litla sem er eftir af landsbyggðafréttafólki RÚV (á Akureyri og Austurlandi) með N4. Bjóða öllum litlu fréttamiðlunum sem berjast fyrir lífi sínu og fer sífellt fækkandi að koma þarna inn undir hattinn.
  • Skipta útvarpsgjaldinu 70-30 milli RÚV og TV2 .