Fara í efni
Fréttir

N1 opnar þvottastöð við Hörgárbraut

Ný þvottastöð N1 með sjálfvirkri þvottavél var á dögunum opnuð við bensínstöð félagsins við Hörgárbraut. Nýlega voru samskonar stöðvar opnaðar á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

„Við höfum lagt mikinn metnað í stöðvarnar. Vélarnar eru nýjar, bæði í þvottavélum og -básum, og við reynum að standa eins vel að þessu og hægt er – eins og N1 er von og vísa, allt snyrtilegt og fínt,“ segir Guðbergur Björnsson, þjónustustjóri þvottastöðva hjá N1 í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hann hvetur fólk til að koma og prófa nýju stöðvarnar en til 13. desember er boðið upp á 20% kynningarafslátt.

Í sjálfvirku þvottastöðvunum er hægt að velja burstaþvott eða snertilausan þvott, með eða án tjöruhreinsis. Verðið fer eftir því hvers konar þvottur er valinn og er á bilinu 3.090–3.690 kr. Síðan er ekið inn í þvottastöðina og beðið í bílnum á meðan þvottavélin þvær.

„Þetta er finnsk smíði og mjög vandaðar vélar sem hafa verið notaðar lengi á Norðurlöndunum,“ segir Guðbergur. „Þvottaefnin eru einnig mjög vönduð og koma frá sama framleiðanda og vélarnar. Flest efnin eru Svansvottuð,“ segir í tilkynningunni.

Þvottastöðvarnar eru ómannaðar og opnar alla daga frá klukkan 8 að morgni til miðnættis. „Ef eitthvað kemur upp á er vegaaðstoðin okkar til taks,“ segir Guðbergur í tilkynningunni.