Fara í efni
Mannlíf

Morðgáta á Berjaya: Glamúr, spenna og dulúð

Morðgátukvöldin á Berjaya þann 14. og 15. mars verða í þessum anda. Gestir eru hvattir til að mæta klæddir í takt við þemað.

Spenna, dulúð og glamúr verður allsráðandi á Hótel Berjaya á Akureyri um næstu helgi þegar morðgátuleikur í anda Great Gatsby fer þar fram. Gestir fá þá tækifæri til að klæða sig upp í hlutverk og leysa dularfulla ráðgátu.

Það er söng- og leikkonan Hlín Pétursdóttir Behrens sem sér um að stjórna kvöldinu en viðburðurinn hefur nú þegar sannað sig sem vinsæl kvöldskemmtun á landsbyggðinni. „Við höfum haldið þetta tvisvar áður, á Höfn og Egilsstöðum, og það hefur gengið gríðarlega vel. Nú er komið að Akureyri,“ segir Hlín. Lágmarksþátttöku hefur nú þegar verið náð fyrir bæði kvöldin en enn er pláss fyrir fleiri þátttakendur.

Gull og glamúr New York 1920

Þegar Hlín er beðin um að útskýra betur út á hvað leikurinn gengur segir hún að um hlutverkaleik sé að ræða þar sem allir þátttakendur fá úthlutað hlutverki áður en mætt er á hótelið. Leikurinn gerist á klúbbi frá tíma Great Gatsby (ein frægasta skáldsaga Bandaríkjanna) þar sem gull og glamúr er í öndvegi ásamt Art Deco-hönnun. Morð er framið á klúbbnum og gengur leikurinn út á það að leysa morðgátuna. Gestir eru hvattir til að velja sér klæðnað við hæfi fyrir kvöldið, og klæða sig upp eins og þeir væru að mæta á klúbb með lifandi djasssveit og kampavínsturnum í New York í kringum 1920. „Þetta er ekki krafa en það eykur stemninguna til muna,“ segir Hlín og bætir við að klæðnaðurinn þurfi ekki að vera svo flókinn. Ef konur finna sér t.d. einfalda kjóla þá verða perlufestar og fjaðraskraut á hótelinu fyrir þær sem vilja bæta við sig smá glamúr. Karlmennirnir geta mætt í jakkafötum en við jakkafötin mætti t.d. bæta við hatti.

Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig fólk lifir sig inn í leikinn og hvernig mismunandi plott þróast yfir kvöldið.


Hlín stýrir leiknum en gestir fá allir sitt hlutverk. Innifalið í verði eru léttar veitingar. Reiknar hún með því  að leikurinn verði endurtekinn aftur í haust en þá með öðru þema og nýrri morðgátu sem gestir þurfa að  leysa.

Öðruvísi skemmtun

„Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að vera feiminn eða vera ekki með leiklistarhæfileika – leikurinn er þannig uppbyggður að allir dragast inn í söguna á sinn hátt,“ útskýrir Hlín en spennan fer fyrst að magnast í leiknum eftir að önnur vísbending berst en þá þurfa gestir að vinna saman, njósna og spyrja spurninga til að afhjúpa morðingjann. „Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig fólk lifir sig inn í leikinn og hvernig mismunandi plott þróast yfir kvöldið,“ segir Hlín. Hún segir að reynslan sýni að leikurinn grípi fólk af fullum krafti og að oft séu aðeins örfáir sem átta sig á því hver morðinginn er áður en gátan leysist. „Þetta er frábær leið til að njóta léttra veitinga og skemmtunar í einu, sérstaklega fyrir hópa sem vilja gera eitthvað öðruvísi,“ segir Hlín en bætir við að viðburðurinn sé kjörinn jafnt fyrir einstaklinga sem og vinahópa. Áhugasömum er bent á að bóka pláss á heimasíðu hótelsins.