Fara í efni
Mannlíf

Mömmur og möffins seldu 2.262 bollakökur

Bollakökurnar runnu hraðar út en heitar lummur á Ráðhústorginu í gær. Mynd: Snæfríður Ingadóttir.

Sjálfboðavinna 11 kvenna, þar á meðal ljósmóður sem var á næturvöktum um helgina, tveggja feðra og sjö barna, ásamt stuðningi og styrk frá Sykurverk og Axelsbakaríi voru grunnurinn að 2.262 bollakökum – möffins – sem ruku út eins og fagurlega skreyttar bollakökur gera að jafnaði á viðburðinum Mömmur og möffins á laugardegi á Einni með öllu, líklega hraðar en heitar lummur.

„Þetta gekk með afbrigðum vel hjá okkur. Þessi frábæri hópur vann eins og vel smurð vél og gekk allt vonum framar,“ sögðu þær Sigríður Ásta Pedersen og Bryndís Björk Hauksdóttir þegar Akureyri.net falaðist eftir upplýsingum um verkefni dagsins. „Skemmtilegt er að segja frá því að ein mæðranna sem aðstoðaði í bakstri og skreytingum á föstudeginum er ljósmóðir og var á næturvöktum um helgina.“


Þær Sigríður Ásta Pedersen og Bryndís Björk Hauksdóttir stýra þessu bráðskemmtilega verkefni. Myndin er af Facebook-síðunni Mömmur og möffins.

Allar bollakökur sem framleiddar voru og skreyttar fyrir viðburðinn í gær seldust. Aðstandandendur og sjálfboðaliðar við verkefnið bökuðu 1.722 bollakökur með súkkulaði og vanillu, en fengu svo að auki 200 óskreyttar frá Sykurverk, 120 óskreyttar frá Axelsbakaríi og bökuðu að auki 220 vegan og glúteinlausar bollakökur. Að venju var svo að sjálfsögðu lögð mikil ást í skreytingarnar eins og sjá má á myndunum með fréttinni, en þær eru fengnar af Facebook-síðu hópsins.

Fleiri myndir frá undirbúningnum og ekki síður af fagurlega skreyttum bollakökum má finna á Facebook-síðunni Mömmur og möffins.

 

Allur ágóði af bollakökusölunni rennur til fæðingadeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Endanleg tala lá ekki fyrir þegar þessi frétt var unnin, en salan slagar hátt í 1,5 milljónir króna, sem er um fjórðungi, eða 300 þúsund krónum meira en í fyrra. Við þetta bætast svo beinar greiðslur því þær höfðu reikningsupplýsingar sýnilegar viðskiptavinum á borðunum og því allt eins líklegt að mörg þeirra sem nutu kræsinganna hafi lagt eitthvað aukalega til með bankamillifærslum.

Þær Sigríður og Bryndís voru ekki með upplýsingar handbærar til að staðfesta hvort einhvern tíma hafi selst fyrir hærri upphæð en í gær. Næsta verkefni er svo bankaheimsókn á þriðjudag með reiðufé og uppgjör úr posum og í kjölfarið fundinn hentugur tími þar sem þær stöllur ásamt öðrum sjálfboðaliðum við verkefnið afhenda fæðingadeildinni afraksturinn.