Fara í efni
Mannlíf

Mögulegt að hægja verulega á ellinni

Mynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir

„Styrktarþjálfun er mjög mikilvæg eftir miðjan aldur. Með tækjaþjálfun er auðvelt að bæta líkamsstyrk fullorðinna verulega á aðeins nokkrum mánuðum,“ segir einkaþjálfarinn Sigurður Gestsson við Akureyri.net. Hann hvetur eldra fólk til að rífa sig í gang, mæta í ræktina og auka þannig lífsgæði sín til muna.

Lofar ekki lengra lífi – en pottþétt betra lífi

„Aukinn líkamsstyrkur hefur gríðarlega mikið að segja hvað varðar lífsgæði á efri árum. Hreyfigeta eykst, stoðkerfið styrkist, efnaskipti verða hraðari og þar með eykst fitubrennslan.“

Fólk sem stundar reglulega líkamsrækt öðlast léttara líf á efri árum. Sigurður, sem kveðst reyndasti einkaþjálfari landsins, segist ekki geta lofað fólki að það lifi lengur, en því liði allavega miklu betur og lífið verði léttara. Hann mælir eindregið með því að eldra fólk fari að lyfta og sérlega mikilvægt sé að fólk stundi reglulega líkamsrækt eftir starfslok. „Líkaminn er gerður til að hreyfa sig og ef hann er ekki hreyfður þá hrörnar hann.“

Sigurður Gestsson og Lilja Sigurðardóttir. Lilja er 75 ára, í frábæru formi og lætur ekki slitna hásin koma í veg fyrir að hún mæti á æfingu.

Sigurður hvetur eldra fólk til að rífa sig í gang. „Þetta er ekki svo flókið, að mæta á æfingastöð. Það er gott að fá sér leiðsögn til að byrja með en svo getur fólk farið að gera þetta eftir sínum þörfum. Kosturinn við að stunda líkamsrækt í tækjum er, að það getur hver og einn farið á sínum hraða, með sínar þyngdir og á sínum tíma og það er fátt sem gerir meira fyrir mann á efri árum.“

Sjötugir eins og fimmtugir

Sigurður segir að það sé aldrei of seint að byrja að stunda líkamsrækt. Elsti einstaklingurinn sem hann þjálfar um þessar mundir er 75 ára. Fólk á þeim aldri, sem heldur sér í formi, getur verið í mun betra líkamlegu ástandi en fólk um fimmtugt sem ekkert æfir, segir Sigurður.

„Við verðum að taka ábyrgð á okkur sjálfum í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi og treysta því að heilbrigðiskerfið grípi okkur þegar allt er komið í óefni.“ Það er aldrei hægt að halda í eilífa æsku, segir Sigurður, en leggur áherslu á að þrátt fyrir það, sé hægt að hægja verulega á hrörnun með stöðugum æfingum.