Fara í efni
Fréttir

Mjög mikill skortur á leiguhúsnæði

Eins svefnherbergja íbúð í Klettaborg er auglýst til leigu á 300 þúsund á leigusíðunni Myigloo. Mynd:Myigloo.is

Mikill skortur er á leiguhúsnæði á Akureyri. Margir umsækjendur eru um hverja íbúð sem auglýst er og verð hefur hækkað.

„Ef þú auglýsir eign til leigu í dag þá skaltu bara taka þér frídag til þess að fara í gegnum svörin við auglýsingunni,“ segir Björn Davíðsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Hvammi og bætir við að gríðarlegur skortur sé á leiguhúsnæði í bænum. Þetta sést glöggt ef leigusíður eru skoðaðar, til dæmis Facebooksíðurnar „Til leigu á Akureyri“ eða „Leiguíbúðir á Norðurlandi. “ Þar er lítið um auglýsingar frá fólki sem er að auglýsa húsnæði í langtímaleigu en þeim mun fleiri auglýsingar frá fólki sem er að leita. Margt af þessu fólki er í miklum vandræðum. Nýlega birtist t.d. auglýsing frá fjölskyldu sem býr í fellihýsi á tjaldstæðinu á Hömrum en er að leita sér að íbúð.

 

Mynd úr 51 fm íbúð í Melasíðu sem er til leigu á  MyIgloo.is  Mynd: Myigloo.is

Hærra leiguverð

Leiguverð hefur líka hækkað mikið á Akureyri eins og sést berlega þegar leiguvefurinn Myigloo.is er skoðaður. Þar er t.d. auglýst íbúð í Klettaborg, 73 fm með einu svefnherbergi á 300.000 kr. Á sömu síðu er auglýst 51 fm íbúð í Melasíðu með einu svefnherbergi á 225.000 krónur. Þó þessi verð séu í hærri kantinum miðað við það sem gengur og gerist á Akureyri þá segir Björn þau vera skiljanleg. „Fjármagnseigendur eru ekki að hagnast mikið á leigunni per se eins og vaxtastigið er í dag. Í einhverjum tilfellum væri hagkvæmara að geyma fjármunina inn á óbundinni bók með 8-9% vöxtum en svo er þetta fljótt að breytast þegar fasteignaverð hækkar.“

Vantar norðlenskt leigufélag

Þá hefur Akureyri.net heyrt af því að í bænum séu nokkur einbýlishús sem búið sé að stúka niður í smærri herbergi sem leigð eru til einstaklinga í kringum 100 þúsund krónur herbergið. „Þessi herbergjaleiga er oft á tíðum ekki mönnum bjóðandi. Þarna eru kannski 8-10 manns er að deila einu baðherbergi. En það er skortur á vinnuafli hér á svæðinu og einhversstaðar þarf þetta vinnuafl að búa, svo hér er bara verið að svara ákveðinni þörf, “ segir Friðrik Sigþórsson fasteignasali hjá FS fasteignum og bætir við; „Það vantar bara inn á markaðinn norðlenskt leigufélag sem er að byggja venjulegar leiguíbúðir. Það eru hins vegar ekki til lóðir hér á Akureyri fyrir slíkar íbúðir. Allar lóðir sem eru til núna og næstu tvö árin eru bara fyrir íbúðir með bílakjallara, sem eru hlutfallslega of dýrar.“