Mjög mikið af gögnum – trúnaður flækir mál

Eining-Iðja hefur mjög mikið af gögnum sem félagið segir sýna fram á launalækkanir ræstingarfólks og verið sé að vinna úr þeim. Félagið leggi áherslu á að gæta trúnaðar í öllum málum og það flæki málin. Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu og svörum Einingar-Iðju í tilefni af ummælum framkvæmdastjóra SA um að engin gögn sýni óeðlilega launalækkun ræstingarfólks.
Málefni starfsfólks ræstingarfyrirtækja hafa verið í umræðunni undanfarna daga og meðal annars hefur umræða og gagnrýni beinst að tveimur fyrirtækjum sem starfa á Akureyri. Fram kemur í frétt á vef verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju að yfir 20 félagsmenn sem starfa hjá ræstingafyrirtækjunum Hreint og Dögum hafi leitað til félagsins með kvartanir vegna lækkunar launa og að álagið á þessa félagsmenn sé ómanneskjulegt, fólkinu hafi verið hótað uppsögn samþykki það ekki launalækkun.
Þora ekki að koma fram undir nafni
Í frétt Einingar-Iðju er meðal annars haft eftir Tryggva Jóhannssyni, varaformanni félagsins að verið sé að vinna úr þeim gögnum sem félagið hafi undir höndum. „Við hjá Einingu-Iðju höfum alltaf lagt mikla áherslu á að fulls trúnaðar sé gætt í öllum málum sem koma til okkar og ekkert er gert fyrir viðkomandi félagsmann nema að hann óski eftir því. Ég skal bara játa að þessi trúnaður við okkar félagsmenn er að flækja málið. Við getum ekki lagt fram gögnin á þessum tímapunkti þar sem þessir félagsmenn þora ekki að koma fram undir nafni af ótta við afleiðingar. Við erum að vinna í því að fá leyfi til að leggja fram ákveðin gögn sem sýna fram á lækkun launa þar sem verið er að ræsta sama svæði og áður á nákvæmlega sama tíma og hraða en starfsmaðurinn fær bara 20% minna fyrir vinnuna,“ segir Tryggvi.
Þá kemur einnig fram að félagið hafi verið að vinna í svona málum frá síðastliðnu hausti og að langflest erindin tengist Dögum, en fyrirtækið þráist við að afhenda félaginu gögn. Tryggvi fundaði ásamt fulltrúum Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins með Samtökum atvinnulífsins í gær þar sem farið var yfir stöðuna.
Frétt Einingar-Iðju um málið:
Eins og fram hefur komið þá hafa yfir 20 félagsmenn sem starfa hjá ræstingarfyrirtækjunum Hreint og Dögum leitað til Einingar-Iðju vegna lækkunar launa. M.a. sagði Tryggvi Jóhannsson, varaformaður félagsins, að álag þessara félagsmanna væri ómanneskjulegt og að þeim hafi verið hótað uppsögn, samþykki það ekki lækkunina í viðtali á ruv.is sl. laugardag.
Í gær fóru fram tveir fundir þar sem Tryggvi ásamt starfsmönnum SGS og ASÍ áttu samtal við Samtökum atvinnulífsins og fyrirtækin tvö þar sem farið var yfir stöðuna. Eftir þessa fundi hefur framkvæmdastjóri SA m.a. sagt engin gögn sýni óeðlilega launalækkun ræstingarfólks, en sum fyrirtæki hafi sagt upp yfirborgunum.
Með mjög mikið af gögnum
Vegna þessara ummæla framkvæmdastjóra SA vill félagið því koma því á framfæri að Eining-Iðja er með mjög mikið af gögnum sem sýni fram á launalækkanir ræstingafólks og að félagið er að vinna úr þeim. „Við hjá Einingu-Iðju höfum alltaf lagt mikla áherslu á að fulls trúnaðar sé gætt í öllum málum sem koma til okkar og ekkert er gert fyrir viðkomandi félagsmann nema að hann óski eftir því. Ég skal bara játa að þessi trúnaður við okkar félagsmenn er að flækja málið. Við getum ekki lagt fram gögnin á þessum tímapunkti þar sem þessir félagsmenn þora ekki að koma fram undir nafni af ótta við afleyðingar. Við erum að vinna í því að fá leyfi til að leggja fram ákveðin gögn sem sýna fram á lækkun launa þar sem verið er að ræsta sama svæði og áður á nákvæmlega sama tíma og hraða en starfsmaðurinn fær bara 20% minna fyrir vinnuna,“ segir Tryggvi Jóhannsson, varaformaður Einingar-Iðju.
Langflest erindin frá Dögum
Tryggvi segir að félagið sé búið að vera að vinna í svona málum frá síðastliðnu hausti og að hann hafi nýtt tækifærið í gær og óskað enn og aftur eftir gögnum frá Dögum sem fyrirtækið þráast við að afhenda félaginu. „Langflest erindin sem komið hafa til okkar eru frá Dögum og því höfum við ítrekað óskað eftir ákveðnum gögnum frá þeim en ekki fengið. Þegar óskað var eftir því að við legðum fram okkar gögn þá minnti ég á að það hlyti að virka í báðar áttir en því miður var mjög lítið um svör. Við erum enn að bíða eftir gögnunum. Ég fór líka yfir að samfélagið hér fyrir norðan er ekki stórt og því þarf að vanda vel hvað sagt er eða lagt fram til að ekki sé hægt að sjá hvaða vinnusvæði er verið að tala um og með því persónugreina viðkomandi starfsmann.“
Vandið til verka
Dagar hafa sagt að breytingarnar hafi verið kynntar vel fyrir starfsfólki og að framkvæmd þeirra sé með réttum og löglegum hætti. Tryggvi segist hafa rætt þetta á fundunum í gær og lýst upplifun starfsfólks af einum kynningarfundi. „Fyrirtækið segir að þessar breytingar hafi verið vel kynntar fyrir starfsfólki en ég bara varð að segja fundarmönnum frá upplifun okkar félagsfólks af slíkum fundi. Í gögnum sem ég hef kemur fram að yfirmaðurinn hafi sagt að eftir marga sambærilega fundi yfir daginn væri hann þreyttur á að útskýra sama hlutinn, að starfsmenn þyrftu ekki að fara til stéttarfélagsins þar sem félagið vissi allt um málið og að allt væri löglegt. Svona lýsingar gefa til kynna að samtölin séu ekki eins vönduð og fyrirtækið heldur fram. Það er ekki í lagi að koma af fundi þar sem óskað er svara af hverju launin séu að lækka og fá svona viðmót í andlitið.“