Fara í efni
Íþróttir

Miklir yfirburðir KA en naumur sigur í Kórnum

Harley Willard, Bjarni Aðalsteinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fagna marki fyrr í sumar. Bjarni og Hallgrímur skoruðu í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn fögnuðu 2:1 sigri á liði HK í kvöld í Bestu deildinni í knattspyrnu, nældu þar með í þrjú dýrmæt stig og komu sér upp úr fallsæti. KA er með 11 stig að 12 leikjum loknum, einu stigi meira en Vestri.

Sigur KA í Kórnum í Kópavogi var naumur þegar upp var staðið en tölurnar gefa þó ekki rétta mynd af mínútunum 90 því yfirburðir KA voru miklir lungann úr leiknum. Fyrri hálfleikurinn var nánast einstefna og aðeins virtist tímaspursmál hvenær norðanmenn skoruðu, en það tókst þó ekki áður en dómarinn flautaði hálfleikinn af.

Þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik komust KA-menn yfir. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók horn frá hægri, sendi boltann alla leið yfir á markteigshornið fjær þar sem Bjarni Aðalsteinsson skaut viðstöðulaust, Arnar Freyr markvörður varði – en boltinn var kominn inn fyrir línuna að mati dómarans og KA menn fögnuðu afar sanngjarnri forystu. 

Langt var liðið á leikinn þegar Hallgrímur Mar kom KA svo tveimur mörkum yfir með skoti af stuttu færi eftir glæsilega sendingu Ásgeirs Sigurgeirssonar. Mörgum KA-manninum var án efa létt því eins marks forysta dugar sjaldnast til að róa stuðningsmenn og þarna virtist Hallgrímur vera að gulltryggja sigurinn.

Fljótlega eftir markið kviknaði hins vegar loksins á heimamönnum og þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir hinar hefðbundnu 90 mínútur skoraði Arnþór Ari Atlason. Staðan orðin 2:1 og KA-hjörtun slógu örar á ný næstu mínútur því heimamenn reyndu hvað þeir gátu og sóttu hart að KA-vörninni. Gestirnir vörðust vel en sluppu ef til vill með skrekkinn í lokin þegar boltinn virtist smella í hönd KA-manns innan vítateigs eftir skot að marki. Dómarinn sá hins vegar ekki ástæðu til að aðhafast og flautaði leikinn af skömmu síðar. Mjög sanngjarn sigur KA staðreynd.

Viðar Örn Kjartansson var í fyrsta skipti í byrjunarliði KA í dag. Hann fékk nokkur færi en náði ekki að komast á blað; kom boltanum reyndar tvisvar í HK-markið en var rangstæður í bæði skiptin og Arnar Freyr Ólafsson, stórgóður markvörður HK, varði líka frá honum úr upplögðum færum. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna