Mikilvægt framfaraskref fyrir landsbyggðina

„Það er ánægjulegt að sjá jákvæðar breytingar eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Það er mikilvægt að sjá að þegar mál eru tekin af festu og af einlægum áhuga er hægt að ná fram raunverulegum breytingum.“
Þetta skrifar Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar í grein sem Akureyri.net birti í kvöld. Tilefnið er að Háskóli Íslands (HÍ) mun í ár í fyrsta sinn bjóða upp á inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði bæði í Reykjavík og á Akureyri eins og fram kom fyrr í dag.
- Frétt Akureyri.net í dag: Læknadeildir HÍ með inntökupróf á Akureyri
Málið er Ingibjörgu skylt, eins og hún segir í greininni: „Á síðasta ári fékk ég símtal frá áhyggjufullu foreldri þar sem útlit var fyrir að barnið hans kæmist ekki í inntökupróf í læknisfræði sökum veðurs. Í framhaldi af þessu sendi ég inn fyrirspurn til fyrrverandi háskóla og nýsköpunarráðherra í tengslum við fjölgun próftökustaða til háskólanáms sem tengjast læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði en núverandi fyrirkomulag krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur.“
Síðan segir Ingibjörg:
„Nú ári síðar er verið að bregðast við þeirri áskorun og fyrsta skrefið verður tekið í vor að fjölga próftökustöðum. Þetta er mikilvægt framfaraskref fyrir nemendur á landsbyggðinni. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, hvar sem þeir eru staddir á landinu enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.“
Grein Ingibjargar: Fagnaðarskref – dropinn holar steininn