Mikil innspýting og auknir möguleikar
Stækkun gagnavers atNorth á Akureyri er fyrirhuguð, eins og áður hefur komið. Í nýrri greinargerð fyrirtækisins til bæjarstjórnar Akureyrar kemur fram að bygging fyrsta áfanga versins hafi haft í för með sér verulega innspýtingu í efnahagslífið; af 2,4 milljarða króna kostnaði við byggingu fyrsta áfanga er áætlað að tveir fimmtu, rétt tæpur milljarður króna, hafi runnið beint til þjónustuaðila fyrir norðan.
„Kostnaðarskiptingin í fyrsta áfanga er náttúrlega vísbending um framhaldið og innleggið í atvinnulífið því verulegt,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth. Hann leggur hins vegar áherslu á að ávinningurinn fyrir samfélagið nái langt út fyrir uppbyggingartímann, því gagnaverið stuðli líka að aukinni atvinnuuppbyggingu í nærsamfélaginu og hafi önnur hliðaráhrif, svo sem vegna fyrirætlana um bættar háhraðatengingar við sæstrengina sem tengja Ísland við útlönd. „Þá þurfa gagnasendingar ekki að speglast um Reykjavík áður en þær fara úr landi. Þetta er líka öryggisatriði svo tengingar haldist ef samband rofnar fyrir sunnan. Akureyri er því komið langleiðina í að verða önnur tæknimiðstöð landsins.“
Enn frekara öryggi
Sem dæmi um uppbyggingu í tengslum við gagnaverið má nefna aukna starfsemi Advania á Akureyri, en fyrirtækið er einn af fyrstu viðskiptavinum gagnavers atNorth þar.
„Uppbygging á þjónustum okkar í gagnaverinu á Akureyri undirbyggir enn frekar gagnaöryggi viðskiptavina okkar,“ segir Hafsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri rekstrarlausna hjá Advania, og bætir við að sífellt fleiri viðskiptavinir geri kröfu um að hafa sín mikilvægustu kerfi aðgengileg í landfræðilega aðskildum gagnaverum. „Núna getum við náð slíkum aðskilnaði og speglun gagna innanlands, með vistun á suðvesturhorninu og á Akureyri.“
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, fagnar þeim tækifærum sem starfsemi gagnaversins færir bæjarfélaginu, en sveitarfélagið er líka í hópi viðskiptavina Advania sem vistar gögn sín þar. „Við erum mjög meðvituð um að bættar tengingar og aukin þekking á þessu sviði upplýsingatækninnar gerir Akureyri meira aðlaðandi fyrir fyrirtæki sem vilja koma sér fyrir á öruggu svæði með öfluga innviði.“
Farice greindi frá því í desember sl. að snemma á þessu ári yrði Akureyri bætt við sem nýjum afhendingarstað þjónustu fyrir útlandasambönd fjarskiptafyrirtækja. Farice á og rekur þrjá fjarskiptasæstrengi sem tengja Ísland við útlönd, FARICE-1, DANICE og ÍRIS. Sem stendur tengjast fjarskiptafyrirtæki við netkerfi Farice í Reykjavík og á Reykjanesi og þaðan fer netumferð um sæstrengi félagsins til Evrópu.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, segir að sjálfsagt hafi fleiri en einn þáttur ýtt á fleiri tengingar innanlands við sæstrengina, en uppbygging gagnaversþjónustu fyrir norðan sé klárlega einn þeirra. „Aukin þjónusta við mjög fjölbreytta starfsemi, bæði innlenda og erlenda, þar sem öryggi er tryggt og kolefnisfótspor lágmarkað, er nauðsynleg svo efla megi íslenskan upplýsingatækniiðnað,“ segir hann. Þannig verði geirinn fær um um að taka þátt í áframhaldandi þróun þar sem örugg vistun og vinnsla gagna skiptir höfuðmáli, svo sem í tengslum við þróun gervigreindar og þjónustu sem á henni byggir.