Dreymir um að bjóða fastráðningu hjá SN
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er lifandi vinnustaður, þar sem orkan fer í fjölbreytt verkefni. Hljómsveitin heldur tónleika á eigin vegum jafnt yfir árið, en þess á milli er tekist á við ýmis þjónustuverkefni og upptökuverkefni fyrir stór og lítil framleiðslufyrirtæki um allan heim. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson er tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar.
Þetta er seinni hluti viðtalsins við Þorvald Bjarna.
„Við viljum fá fólk í Hof,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Hof er menningarmusteri landsbyggðarinnar og við viljum vera með tónleika sem vekja áhuga sem flestra. Ekki aðeins þeirra sem elska klassíska tónlist heldur líka þeirra sem aðhyllast sinfóníska tónlist almennt. Við höfum prófað að vinna með tónlistarmönnum og hljómsveitum sem koma úr öðrum geirum tónlistarinnar, bæði íslenskum sem erlendum stjörnum, einmitt til þess að höfða til stærri hóps og kynna sinfóníska hljóminn fyrir nýjum áheyrendum í leiðinni.“
Ef við náum ekki í nýja áhorfendur, börnin og unga fólkið, þá fjarar þetta bara smám saman út
Þorvaldur tekur sem dæmi að Jói P og Króli hafi sameinað krafta sína með hljómsveitinni. „Á svona tónleika mætir kannski fólk, sérstaklega af ungu kynslóðinni, sem er kannski að heyra sinfónískan hljóm í fyrsta sinn í lifandi flutningi, en kannast við hann úr bíómyndum eða tölvuleikjum. Þarna opnast gluggi til að ná til nýrra áhyrenda sem síðar munu vonandi vera opnari fyrir sinfónískri tónlist eftir að hafa áttað sig á samhenginu varðandi t.d kvikmyndir og tölvuleiki.“
Tónleikar SN og Jóa P og Króla. Mynd: MAk
Mjög mikilvægt að kynna klassíska tónlist fyrir unga fólkinu
Þorvaldur segir ókeypis sinfóníutónleika fyrir börn afar áríðandi. „Þar getum við flutt skemmtileg klassísk verk eins og t.d Karneval Dýranna og ráðið leikara sem sögumenn sem leiða börnin inn í ævintýraheim tónanna. Með þessum hætti getum við kennt nýjum áheyrendum að njóta menningar og hafa gagn og gaman af,“ segir Þorvaldur Bjarni.
„Staðreyndin er sú að aðsókn á klassíska sinfóníutónleika hefur minnkað á heimsvísu,“ segir Þorvaldur. „Einu sinni var klassísk tónlist náttúrlega tónlist samtímans, stundum jafnvel dægurtónlist síns tíma. En síðustu 100 árin hefur flóran og fjölbreytnin aukist svo gríðarlega að athygli fólks dreifist. Ef við náum ekki í nýja áhorfendur, börnin og unga fólkið, þá fjarar þetta bara smám saman út.“
Tónleikaárið hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefst á haustin og lýkur á vorin, og á þessu ári er nú þegar búið að halda eina svona cross-over tónleika, eins og þeir eru kallaðir – þar sem fólk úr öðrum geirum tónlistarinnar leikur sína tónlist með hljómsveitinni. „Við fengum Dimmu til þess að halda með okkur tvenna tónleika, og það vildi svo skemmtilega til að þeir áttu um leið 20 ára afmæli,“ segir Þorvaldur. „Hér í Hofi var uppselt og svo fórum við með tónleikana í Eldborg og fylltum húsið þar líka, góðar líkur að þar hafi kviknað áhugi hjá ungu tónlistarhjarta á sinfónískum möguleikum í framtíðinni.“
Barnafjölskyldum var boðið upp ókeypis tónleika á Akureyravöku 2024, þar sem lögin í barnaleikhúsinu voru flutt í sinfónískum útsetningum. „Vonandi voru þar krakkar sem hrifust með og verða fiðlu- og klarinettuleikarar SN í framtíðinni,“ segir Þorvaldur Bjarni.
Viðtalið er tekið í upptökuveri SinfóníuNord, þar sem hjartað í upptökuverkefnum hljómsveitarinnar slær. Hér er Þorvaldur að sýna blaðamanni aðstöðuna. Í fyrri hluta viðtalsins var rætt um upptökuverkefnin. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Hefði viljað sjá fleiri sæti í stærsta hljómleikasalnum
„Bæði þessi hús eru of lítil,“ segir Þorvaldur Bjarni, og á við stærstu tónleikasali Íslendinga; Eldborg í Hörpu fyrir sunnan og Hamraborg í Hofi fyrir norðan. „Ég hef framleitt ýmiskonar tónleika til flutnings í Eldborg, til dæmis, og það þarf stundum að halda ferna eða fimm tónleika ef við erum með eitthvað sem hittir í mark. Það er mikill aukakostnaður við að flytja tónleikana aftur og aftur og það stundum á sama deginum til að anna eftirspurn.“
Þorvaldur minnir á að það valdi líka gríðarlegu álagi á listamennina að endurtaka tónleika, sérstaklega málmblásarana. „Oft er uppselt á stóra viðburði í Hofi, og það er leiðinlegt að geta ekki annað eftirspurninni,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Það borgar sig kannski ekki að halda aukatónleika eða er einfaldlega ekki hægt af fyrrgreindum ástæðum. Þá væri augljóslega betra að geta bara selt fleiri miða á stakan viðburð.“
Ég hefði viljað sjá pláss fyrir 700 manns, en ekki 500
Þorvaldur telur að það væru fleiri stórir viðburðir sem kæmu norður í Hof, ef Hamraborg tæki fleira fólk. „Ég hefði viljað sjá pláss fyrir 700 manns, en ekki 500. Afraksturinn af miðasölunni eftir kostnað dugir varla fyrir mannsæmandi launum fyrir listafólkið á stærri sýningum.“ Hann vill þó taka það fram að hann sé afar ánægður með hvernig til tókst með báða kastalana, eins og hann kemst að orði. „Þau sem komu því í gegn að bygging þeirra var kláruð á erfiðum tímum eiga heiður skilið. Það er erfitt að ímynda sér Ísland í dag án þessara mikilvægu menningarhúsa,“ segir Þorvaldur Bjarni.
Þorvaldur segir að SN sé atvinnumannahljómsveit, en þó ekki í hefðbundnum skilningi. Atli Örvarsson stjórnar hér hljómsveitinni við upptöku. Mynd: MAk
Vinnustaðurinn Sinfó Nord
„Við erum atvinnumannahljómsveit, en við erum það þó ekki í hefðbundnum skilningi,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Að því leytinu til, að það er ekki fastráðið tónlistarfólk í hljómsveitinni. Hjóðfæraleikararnir eru verktakar. Við hjá Menningarfélaginu ákváðum fyrir svona sex árum síðan, að við ætluðum að færa starfsemina á atvinnumannasvið. Það þarf því að hafa ákveðna menntun til þess að komast að og það þarf að standast áheyrnarpróf, sem flestir gera, sem hafa farið í framhaldstónlistarnám.“ Þorvaldur segir að þannig sé tryggt að allir sem spila með hljómsveitinni sé fagfólk og sitji við sama borðið. „Við getum í raun ekki annað, vegna þess að verkefnin eru þannig,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Til dæmis, með upptökuverkefnin okkar, þá treysta þessir stóru viðskiptavinir því, að við bjóðum upp á fyrsta flokks spilamennsku. Þarna er tíminn peningar, við höfum kannski bara tvo daga og það er ekkert hægt að bæta við.“
Ég finn alveg fyrir því, hvað það eru margir tengdir við mig varðandi ráðningar í verkefni SN og það eru ekkert alltaf allir ánægðir
„Fyrirkomulagið er þannig, að þegar búið er að ákveða verkefnin, erum við með útkallslista,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Á listunum er fólkið sem er búið að fara í áheyrnarpróf eða annað sem gerir það gjaldgengt í atvinnumennsku af þessu tagi. Á þessum lista eru allir Akureyringar og nærsveitafólk sem eru atvinnufólk í klassískri tónlist, svo er líka fólk sem er í Sinfóníuhljómsveit Íslands, verktakar annarsstaðar frá, innanlands eða erlendis frá. Á listanum er nöfnum raðað í ákveðna röð, byrjum á heimafólkinu en það þarf oftast fleiri, þar sem heil sinfóníuhljómsveit telur kannski 50-80 manns, og byrjum svo að ráða fólk frá Reykjavík og víðar. Við erum að þjónusta Norðurland um sinfóníska tónlist og viljum standa okkur í því.“
Þorvaldur segir að listinn hafi verið að þróast í tíu ár og hann reynir að hafa það þannig að sama fólkið sé að spila sem mest saman og sem oftast. „Þetta er ekki ólíkt íþróttaliði, það er best að spila og æfa með þeim sem maður þekkir þó alltaf verði að vera nýliðun, það er líka mikilvægt.“ Þorvaldur segir að hann dreymi um að geta fastráðið tónlistarfólk við hljómsveitina.
Eins og gefur auga leið, er ekki alltaf auðvelt að vera í þeirri stöðu, að vera sá sem útdeilir verkefnum og velur verktaka til vinnu við tónleika eða upptökur. „Það eru um hundrað manns á þessum listum hjá okkur sem sumir reiða sig á verktakaverkefni og það er ekki alltaf á vísan að róa hjá tónlistarmönnum í verktakavinnu. Ég finn alveg fyrir því, hvað það eru margir tengdir við mig varðandi ráðningar í verkefni SN og það eru ekkert alltaf allir ánægðir. En það er auðvitað ómögulegt að ráða alla alltaf.“
Þorvaldur segir að þetta hafi verið alveg nýtt fyrir sér þegar hann hóf störf hjá MAk, þar sem hann hafi áður verið sá sem var ráðinn í verkefni. „Ég var vanur að fólki væri almennt vel við mig og ég þurfti ekki að taka ákvarðanir sem höfðu áhrif á svona stóran hóp fólks. Það tekur á, oft á tíðum. Miklar tilfinningar. En ég óska þess að fólk komi að máli við mig ef það er ósátt, og fái skýringar, í stað þess að láta gremju malla.“
Upptökuherbergið í Hofi er fyrsta flokks, en hérna er tekin upp tónlist fyrir fjölda kvikmynda, þáttaraða og tölvuleikja fyrir stóra viðskiptavini á borð við Netflix, Sony og Disney. Hljóðvistin er tryggð með sérhönnuðum veggskúlptúrum, og alvöru mosa. Já, þetta græna á veggnum, er lifandi mosi. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Framlag ríkisins til SN ætti að vera í takt við fólksfjölda
„Við erum búin að sanna það, að við erum með starfsemi á atvinnumannastigi í Hofi,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Stakkurinn sem við erum í; framlög ríkisins og bæjarins til hljómsveitarinnar, er orðinn allt of lítill. Ég, ásamt samherjum mínum í Menningarfélaginu erum búin að vera að berjast fyrir því lengi, að SN (og MAk) fái hærra framlag frá ríki og bæ, en það sem SN fær í framlög í dag er ekki nema 2-4% af því sem Sinfóníuhljómsveit Íslands fær.“ Þorvaldur segir að hér fyrir norðan sé fólk almennt menningarlega sinnað, ekkert síður en á höfuðborgarsvæðinu.
Akureyri er algjör draumastaður og þar viljum við geta útvegað vel menntuðu listafólki atvinnu
Menningarviðburðir eru vel sóttir. „Við erum að þjónusta svæði sem telur 30-35.000 manns, sem eru um tíu prósent þjóðarinnar,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Þá er það eðlilegt, finnst mér, að við fáum 10% af því framlagi, sem SÍ fær.“ Hann tekur það fram að hann mundi aldrei vilja skerða framlög til SÍ til að mæta þessari þörf. Það þarf einfaldlega að bæta við í framlögum til menningar á landsbyggðinni, þetta er alltof mikill aðstöðumunur. Hann tekur þó fram að það hafi náðs áfangasigrar öðru hvoru hjá SN, sérstaklega í stjórnartíð Lilju D. Alfreðsdóttur.
„Ef við fengjum þetta í gegn,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Þá værum við komin þangað, sem mig dreymir um. Að geta fastráðið kjarna hjóðfæraleikara sem einfaldlega myndu búa á Norðurlandi. Byggju við starfsöryggi, á frábærum stað og ynnu í stórkostlegu menningarhúsi. Akureyri er algjör draumastaður og þar viljum við geta útvegað vel menntuðu listafólki atvinnu.“ Þorvaldur segir að þá yrði ólíklegra að ungt hæfileikafólk flytti úr heimabyggð fyrir fullt og allt eftir nám, og þetta væri líka hvatning fyrir nýjar fjölskyldur til að setjast hér að og starfa í menningunni á Akureyri.
Ég mun allavega leggja mig allan fram, vera með hávaða og læti, til þess að sjá þennan draum verða að veruleika. Yndislegan sinfónískan hávaða!
Eins og staðan er í dag, segir Þorvaldur að ungt og efnilegt tónlistarfólk sem vaxi upp á landsbyggðinni, fari oftast suður eða erlendis eftir nám. „Það eru ekki einu sinni svo margar stöður sem liggja á lausu í Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er eina atvinnumannahljómsveitin á landinu sem býður upp á fastráðningu eins og staðan er,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Uppbygging og fjárfesting í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er lykilatriði í því að innviðir skapandi greina styrkist á landsbyggðinni. Einnig skiptir starfsemi okkar höfuðmáli fyrir tónlistarnám á svæðinu, því að ungt fólk sér hvað er hægt að gera og hefur Hof fyrir framan sig daglega. Ein mín mestu forréttindi í lífinu eru að hafa tekið þátt í þessu ævintýri.”
Árið 2023 hélt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands upp á 30 ára afmæli sitt með því að flytja Óðinn til gleðinnar á Íslensku, fyrst hljómsveita í heiminum ásamt kór Akureyrarkirkju. Mynd: Facebook síða SN Hér er til gamans umfjöllun Akureyri.net um afmælishátíðina, en þar má sjá fróðleik um allra fyrstu tónleikana, meðal annars.
Ný tækifæri gætu gefist með nýrri ríkisstjórn
„Ef við gætum fastráðið kjarna hljóðfæraleikara hjá SN, gætum við jafnvel séð 13-25 fjölskyldur setjast að á Akureyri og það væri bara byrjunin. Tónlistarfólkið sem það vildi, gæti starfað í tónlistarskólanum, spilað með SN á reglulegum tónleikum sem væru a.m.k einu sinni í mánuði, tekið þátt í verkefninu SinfoniaNord og lifað hérna eins og blómi í eggi,“ segir Þorvaldur Bjarni.
„Ég hef trú á því, að ný ríkisstjórn Íslands, sé það öflug, að þetta muni byrja að mjakast í rétta átt strax á þessu kjörtímabili. Ég mun allavega leggja mig allan fram, vera með hávaða og læti, til þess að sjá þennan draum verða að veruleika. Yndislegan sinfónískan hávaða!“
Björt framtíð sinfóníska hljómsins fyrir norðan
Þorvaldur segir að hann dreymi um að þegar hann skilur við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sé stöðugur gangur í upptökuverkefnum og fastráðinn kjarni í hljómsveitinni. „Ég er ekkert að fara samt á næstunni! Það eru alltof spennandi hlutir í uppsiglingu, en ég minni á að ég ætlaði bara að vera hérna í þrjú ár. Það var árið 2015.“
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands var stofnuð árið 1993 og hefur starfað margt og mikið síðan. Undir stjórn Þorvalds Bjarna hafa verið tekin stór skref í áttina að því að hljómsveitin gæti orðið atvinnumannahljómsveit sem býður upp á fastráðningu. Það verður spennandi að sjá hvað gerist á komandi kjörtímabili, en það er morgunljóst að Þorvaldur Bjarni er bjartsýnn fyrir hönd tónlistarfólks framtíðarinnar á Norðurlandi.